Kynslóðaskiptin

Nú er ég ekki mikið fyrir að láta stimpla mig sem eitt eða neitt. En þetta n-kynslóðatal þykir mér nokkuð skrýtið ef marka má Wikipediu. Á einum stað segir hún að X-kynslóðin sé fædd 1965-1982 og Y-kynslóðin 1988-2000 á einum stað, 1980-1994 á öðrum stað. Þá stendur annarsstaðar:

Digital technologies began to emerge (in a mass sense) largely during the teen years of Generation X (1965-1987). Generation X willingly embraces the technologies they saw evolve into consumer durables.

Þetta finnst mér passa við mig, ólíkt Y-kynslóðinni:

Generation Y (1989-2000) have enjoyed the luxuries of digital technology their entire lives including the massive and lucrative video game industry.

Þetta seinna hljómar eins og litli bróðir minn. Ég á hinn bóginn ólst ekki upp við farsíma, hraðbanka, fartölvur eða internet. Ég ólst upp við poppkúltúr síðari hluta níunda áratugarins og fyrri hluta þeirra tíundu, allt frá New Kids on the Block til Nirvana, Pulp til Radiohead. Íslenska pönkbylgjan var í rénun þótt enn sæjust grænhærðir strákar í leðurjökkum þegar ég flutti í Laugarneshverfið og póst-pönkið tók við í Bandaríkjunum. Þótt fyrsti hraðbankinn kæmi til Íslands gegnum Útvegsbankann 1988 sá ég ekki slíkan fyrr en aldamótaárið 1994 í Sparisjóði vélstjóra. Farsímum man ég ekki eftir fyrr en kringum 1997 og þá aðallega meðal þeirra sem áður höfðu átt bílasíma. Internetið sá ég fyrst ári síðar þótt þá væru fjögur ár liðin síðan það var fært almenningi. Ég man Billy Corgan með hár, Nick Cave án skalla og Kurt Cobain lifandi. Uppúr þeim aldahvörfum kom tæknin.

X-kynslóðin mun hinsvegar upphaflega hafa verið skilgreind sem kaldastríðskynslóðin, en henni lýkur með okkur sem munum að einu eða öðru leyti eftir Sovétríkjunum og falli Múrsins. Y-kynslóðin sem aldamótakynslóðin – hvað svosem það þýðir. Við vinirnir duttum í fyrsta sinn íða við aldaskiptin ef það telst með (við miðuðum við 1999-2000, og ég fullyrði að það er ekki til verri leið til að hefja nýja öld).

Eða hvað? Lendi ég kannski einhversstaðar á milli? Er ég kannski bara af Nintendokynslóðinni? X-kynslóðin sá Víetnam, N-kynslóðin fædd á krepputímum sá Sega-Nintendostríðið og Persaflóann, Y-kynslóðin fædd neðst í uppsveiflu stríðið milli markaðsafla ungmenningar þar sem allt hét i-Eitthvað? Er ég alveg í ruglinu hérna?

6 thoughts on "Kynslóðaskiptin"

 1. Avatar Einar Steinn skrifar:

  Ég held að við þurfum ekkert að kvarta yfir því að okkar kynslóð hafi ekki upplifað nóg af merkisatburðum.
  Við verðum kannski „Hryðjuverkastríðskynslóðin“? Á hinn bóginn gæti það líka fallið undir yngri kynslóðina sem er að alast upp við þetta.
  „Internetkynslóðin“, máski? Eða kannski bara „.is“ eða „Group“ kynslóðin.

 2. Ég er enda ekki að kvarta undan því. Mig langar að fá þessa kynslóðastimpla á hreint svo ég geti séð hvaða staðalmyndum mín kynslóð er dæmd eftir. Og eins og sést á færslunni þá hafna ég því að vera af internetkynslóðinni, ég var hálfur uppúr grasi þegar ég fékk það.

 3. Avatar Jón Örn skrifar:

  Y- kynslóðin
  ,,Ég er ekki af internetkynslóðinni“
  bloggar maðurinn
  enginn les
  en Einar Steinn kommentar

 4. Avatar Hildur Edda skrifar:

  Ég leit einu sinni alltaf á „krúttkynslóðina“ sem fólk sem væri aðeins eldra en ég (kannski fætt á árunum 1970 til 1977) og að „klámkynslóðin“ væri aðeins yngri en ég (kannski fædd 1983 og síðar). En sennilega get ég talið sjálfa mig til beggja kynslóða. Kannski sem krúttlegan klámhund eða klámfengið krútt.

 5. Avatar Einar Steinn skrifar:

  Mér fannst það einfaldlega vera túlkunaratriði hvort kynslóð okkar gæti flokkast undir „internetkynslóð“, en það er rétt hjá Agga að við og jafnaldrar okkar vorum kannski komnir full vel á legg. Sjálfur fékk ég líka internetið seint.
  Ég man t.d. þá tíð þegar það var ein tölva í stofunni í Vesturbæjarskóla og hún var fremur til skrauts. Ef við höfðum lært eins og moðerfokkerar alla vikuna þá fengum við kannski, ef við vorum heppin, að leika okkur í málfræðiforriti.
  Ísaksskóli fékk tölvur í skólann svona 1-3 árum eftir að ég hætti, að mig minnir. Það loðir við mig að framfarirnar gerist eftir mína daga.

 6. Já, þetta var svipað hjá mér. Reyndar voru 286 eða 386 tölvur í Laugarnesskóla, í þartilgerðu tölvuveri. Þrjú stykki. Þar voru frumstæðir leikir sem við fengum stundum að spila. En stafræna byltingin var dálítið sein á sér á Íslandi, enda er miðað við kynslóðaskiptin eftir löndum, talað um X-kynslóðina þetta árið í BNA og Kanada.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *