Gasalega merkilegt

Voða er fólk er alltaf ánægt með sjálft sig þegar því tekst að hanka lögregluna á einhverju í stað þess að leita eðlilegra skýringa. Gasmaðurinn er heitasta lumman á netinu um þessar mundir og vænta má að moggabloggarar þessa lands muni engjast um af hláturskrampa þegar Spaugstofan lætur Geira og Grana sprauta úða á kind úti á götu gólandi „Gas! Gas!“.

Engu að síður er ekki annað að sjá af fréttamyndum en átök hafi brotist út áður en lögreglan sprautaði varnarúða yfir mótmælendur til að stöðva slagsmálin, eins og einnig kom fram í hádegisfréttum útvarps. Það er heldur ekki að sjá af neinum þessara mynda að lögreglan stígi útfyrir valdsvið sitt. Hópamyndanir af þessu tagi eru áhættuþáttur sem lögreglan er í vinnu við að meta og bregðast við. Þegar slagsmál brjótast út í svo stórum hópi sem ítrekað hunsar fyrirmæli lögreglu, sem trekk í trekk hefur varað við því hvað sé í vændum, þá er það á ábyrgð mótmælenda.

Í öðru lagi skyldi maður spyrja sig hvers vegna annar tveggja lögreglumanna sést hrópa „Gas! Gas! Rýmið götuna! Gas!“ Af því hann er klikkaður, segir moggabloggið. Fáum dettur í hug að lögreglunni beri að gera þetta til varúðar. „Gas! Gas!“ er einfaldlega síðasti séns til að verða við ummælum lögreglu. Hvort hann hafi gert þetta lipurlega er allt annað mál. En hvers vegna var hann svona trylltur á svip? Prófið að hrópa eins hátt og þið getið og finnið ástæðuna.

Var lögreglan almennt klunnaleg? Það má vel vera, enda voru þetta allt almennir lögreglumenn. Það komu víst einhverjar örfáar hræður úr sérsveitinni undir rest en þeir gerðu nú ekki mikið. Fólk spyr sig hvaðan skildirnir og hjálmarnir hafi komið. Líklega frá Birni Bjarnasyni hershöfðingja. En staðreyndin er sú að lögreglan hefur alltaf átt skildi og hjálma og þeim hefur verið beitt áður lögreglunni til varnar. Þegar ljóst var að mótmælendur myndu ekki fara að fyrirmælum lögreglu komu skildirnir. Mótmælendur voru varaðir við. Bílstjórar með Viðar nas(jónal)ista og Sturlu Jónsson í fararbroddi segja að skildirnir hafi komið strax, ríkisútvarpið – eins gagnrýnið og það var á lögregluna í gær – segir annað. Hverjum á að trúa?

14 thoughts on "Gasalega merkilegt"

 1. Baldur McQueen skrifar:

  Skynsamlega mælt. Eineltið í garð þessa unga lögreglumanns sem ljóslega er að takast á við ókunnar aðstæður, er of gróft.
  Vanþjálfun lögreglu skrifast varla á hann?
  Hefði hann sleppt því að öskra….bara látið vaða…hvað hefðu menn þá sagt?

 2. Silja skrifar:

  Dæs. Ég giska á að hvíta ruslið hefði gert alveg jafn mikið mál úr því ef lögreglumaðurinn hefði látið gasið vaða og ekkert varað við því.
  Annars ætla ég bara að segja -II- við öllu sem stendur í þessari færslu. Svona áður en ég gubba yfir þessu ástandi. Þú segir allt sem mér finnst en er of æst til að orða.

 3. Kristín skrifar:

  Á ég að trúa því að þú sért búinn að eyðileggja laugardagskvöldið fyrir mér?

 4. Á ég að trúa því að þú horfir á Spaugstofuna á laugardagskvöldi í París? 🙂

 5. Drullukunta skrifar:

  Það getur vel verið að lögregluþjónninn eigi betra skilið en þessar háðsglósur.
  En þetta var bara svo vangefið fyndið!

 6. baun skrifar:

  auðvitað eru hvíldartímalög vörubílstjóra, bensínverð, krabbamein og gróðurhúsaáhrifin löggunni að kenna.
  þess vegna er í góðu lagi að öskra ókvæðisorð að henni hvenær sem er. löggan er ekki fólk, heldur KERFIÐ

 7. Ásgeir skrifar:

  Fasisti!

 8. baun skrifar:

  ég? Arngrímur?
  guðminngóður hvað er erfitt að matreiða kaldhæðni í kommentakerfum.

 9. Því til frekari sönnunar hef ég Ásgeir vin minn einnig grunaðan um kaldhæðni í svörum 🙂

 10. baun skrifar:

  nú? en ég er fasisti.

 11. Auðun besti vinur þinn skrifar:

  Sæll Arngrímur Gleðilegt Sumar og takk fyrir veturinn. Já þetta er alveg svakalegt að hafa svona slagsmál. Enn ertu kominn með nýtt farsímanúmer?

 12. Nei, ég er með sama gamla. Reyndirðu að hringja?

 13. Kristín skrifar:

  Ég vil að að það sé á hreinu að ég horfi ekki á Spaugstofuna, hvar sem ég er stödd í heiminum. svona fyst hér er einhver vandræðagangur á því hver trúir hverjum hvenær.

Skildu eftir svar við Auðun besti vinur þinn Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *