Af raunum námsmanns

Eftir árangurslausa tilraun til að festa kaup á skúffuköku í 10-11 (verðmerkt kr. 475) sökum ómegðar og nísku (kassaverð kr. 574) ákvað ég að leita á önnur mið um næringu. Þá varð ég þess áskynja að soltinni alþýðu hefur nú borist mikill liðsstyrkur með tilkomu Línu inn á samlokumarkaðinn þar sem Sómi og Júmbó hafa hingað til ráðið ríkjum.

Í vopnabúri þeirra liggja kynstrin öll af fagurlega útlítandi samlokum, kjötlokum og langlokum sem bera merki mikils hugvits, svo sem langlokuristar með steiktu innralæri og sveppum auk klassísku pítusósulanglokunnar, nema nú með sinnepssósu. Ég ákvað að hætta mér ekki í framúrstefnuna að óreyndri hefðinni og fékk mér samloku með hangikjöti og ítölsku salati.

Ég finn mig knúinn að spyrja í kjölfarið: Hvernig í fjáranum er hægt að fokka upp hangikjötssamloku? Þetta er hangiálegg að viðbættu fjöldaframleiddu salati í brauði. Jæa, hvernig sem það er hægt þá tókst það. Línu er hérmeð óskað innilega til hamingju með árangurinn.

Um óþarflega fundvísi Hildigunnar

IngólfurÉg er svo gapandi bit. Hafið þið tekið eftir því að Skerjafjörðurinn er eins og Ingólfur Arnarson í laginu? Með réttu hugarfari má einnig sjá úr þessu bergrisann sem gætti Suðurlands í Heimskringlu. Þar er þá landvætturin komin. Skyldi Vopnafjörður þá vera í laginu eins og dreki? Svari mér fróðari menn, ég hef ekki kannað málið …

„En hvað er það sem verndar viðkomu landans? Vitið þér hvað það er? Mér er það hulið.“ – Megas.

Stolið via Tölvuóða tónskáldið.