Ilmar af gullnu glasi – Montefalco Rosso

Montefalco RossoVitaskuld gat ég ekki látið undir höfuð leggjast þegar sú mæta skáldkona Sigurlín Bjarney skoraði á mig að smakka vín fyrir Arnar hjá Víni og mat. Það er víst til siðs að taka fram ef maður hefur reynslu á þessu sviði og tilkynni ég því hérmeð að ég get ekki kallað sjálfan mig vínfrömuð að nokkru ráði, þótt ég þykist hafa þá skoðun að Riesling séu vond hvítvín en Pinot Grigio góð, og af rauðvíni beri Chianti af öllu sem ég hef hingað til smakkað. Þriggja ára Montefalco Rosso er engin undantekning frá ítalíupervertisma mínum þótt ekki sé það Chianti.

Nú veit ég ekki hvort það er alger þvættingur í mér að vínið bragðist svipað og Wolf Blass Cabernet Sauvignon frá Ástralíu. Þrúgurnar í Montefalco eru 70% Sangiovese, 15% Sagrantino og 15% Merlot, svo ég má heita ansi langt frá réttu mati ef ég veit nokkuð um þrúgur – sem er ansi lítið ef nokkuð verður að játast. Ég prófaði Montefalco bæði kælt og við stofuhita, með mat og án hans, og hef komist að eftirfarandi niðurstöðu:

Vínið er nokkuð þurrt en rennur ljúflega niður, helst til bragðlítið til að drekka eitt og sér nema maður velki því talsvert (maður nennir því nú tæpast við hvern sopa), en hentar prýðilega með hvers kyns kjötréttum (prófaðir réttir: ítölsk grýta með nautahakki, pastastrimlum og rifnum osti – bachelor dauðans semsé). Vínið er gott hvort sem það er við stofuhita, kalt eða allt þar á milli. Á vefsíðu ÁTVR stendur að í víninu megi meðal annars finna „jörð“ hvað sem það merkir, auk lyngs og krydds. Sjálfsagt einhver vitleysa. Þar stendur þó að tannínin séu þroskuð og því skal ég trúa. Lýsing þeirra hjá Vín og mat er nær mínu hjarta, en þar stendur:

Vínið er dökkt og massíft en elegant umfram allt. Í munni vottar fyrir spriklandi sítrussýru sem hjálpar víninu frekar að verða gott matarvín, helst rauðu kjöti og góðum ostum eins og parmeggiano.

Mér finnst það reyndar ekki sérlega massíft, heldur létt ef nokkuð er. Af massífum vínum myndi ég nefna hið franska Pujol, það lemur mann að innan. En hitt tek ég undir. Að vísu vil ég taka fram að þegar ég segi að vínið henti betur með mat þá miða ég við önnur ítölsk vín, ekki einhver þýsk munnskolsvín. Auk þess gengur Montefalco gegnum intensíft þroskaferli sem felur í sér 15 mánaða geymsu í slóvenskum og frönskum eikartunnum, og sama að hve miklu leyti það skiptir raunverulegu máli þá hljómar það eins og metnaðarfullt prójekt að koma víninu af ökrunum og heim til mín.

Bjarney sagði að „dropar lækju eftir barminum hægt og rólega eins og rigning á rúðu“, og ekki má ég vera minna skáldlegur í minni lýsingu. Það játast að hálfa flöskuna drakk ég í rólegheitunum yfir síðustu helgi við prófalestur, og það að sitja með glas um hönd í síðustu skammdegisögnum vors yfir miðaldabókmenntum kveikti upp í mér furðulega fortíðarþrá sem varð þess valdandi að ég kveikti á kertum um alla íbúð – eins og það gerði nokkurt gagn. Varð mér þá hugsað til Jóhanns Sigurjónssonar eins og öllum góðum drengjum sæmir við slíkar aðstæður, enda ilmaði af gullnu (kristals) glasi gamalla blóma angan og furðulegar nostalgískar sýnir spruttu ljóslifandi frammi fyrir mér. Og þar sem ég held það sé lítið sem ekkert virkt THC í Montefalco get ég mælt með því án raunverulegrar hættu á ofskynjunum í kjölfarið – sérstaklega með hnefaþykkri, blóðugri villibráð með rauðvínslagaðri sósu og smjörsteiktum, krydduðum kartöflum.

Ég skora á Þórdísi að taka við keflinu.

2 thoughts on "Ilmar af gullnu glasi – Montefalco Rosso"

  1. Arnar skrifar:

    Takk kærlega Arngrímur, þetta er verulega skemmtileg bloggfærsla hjá þér og vönduð.
    Þér til fróðleiks þá er Montefalco að mestu úr Sangiovese eins og þú sagðir en sú þrúga er jafnframt aðalþrúgan í vínum frá Chianti. Í raun er Montefalco mjög sambærilegt Chianti vínum, bæði út af þessu en líka er framleiðsluaðferðin svipuð (sbr. eikarlegan líkist Chianti Classico/Riserva vínum) og Úmbría héraðið er nágrannahérað Toskana þaðan sem Chianti vínin koma.
    „Massíft“… kannski er það full sterkt til orða tekið hjá mér en ég á ekki við að það sé vöðvamikið heldur frekar þétt, svona meira bruce lee en conan the barbarian…

  2. Þakka sömuleiðis fyrir mig, fyrir aukafróðleikinn og fyrir að viðhalda ítalíublætinu mínu.
    Bruce Lee tek ég undir með.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *