Fjaðrir ýfðar

Ég er farinn að hallast að því að sívaxandi gremjan og sárindin í fólkinu kringum mig eigi talsverða rót í minni eigin andfélagslegu afstöðu til allra hluta. Í það minnsta er ég ýmist ánægður með allt eða ekkert, og hallar á það fyrra. Það speglast prýðilega í almennu skilningsleysi á hvort ég sé að koma eða fara.

Get ekki sagt að fólk reyni ekki, en það er erfiðara að þykjast standa með sjálfum sér þegar það veldur hvað mestri úlfúð hjá manni sjálfum í allra garð og einskis af engri sjáanlegri ástæðu. Enda hef ég yfirleitt kunnað betur að svara fyrir aðra en sjálfan mig svo líklega fer mér bara best að þegja.

Það væri ágætis byrjun ef mér tækist að drepa engan með nærveru minni í fermingarveislu á sunnudaginn. Í millitíðinni ætla ég að rifja upp hvernig mannleg samskipti ganga fyrir sig. Mér er sagt það sé svipað og að hjóla, maður gleymi því aldrei, það þurfi bara pínulitla æfingu fyrst í stað.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *