Sækjast sér um líkir

Áður en ég verð beðinn að hætta að sífra vil ég fjalla um nokkra hluti sem mér líkar. Það eru helst einfaldir hlutir, rétt eins og ég.

1. Fallegt landslag, helst ferðalög um slík og gisting á ókunnum stöðum. Fátt er betra en ferð án fyrirheits.

2. Popparar sem þora að vera bara það. The Cure, R.E.M. og Pulp. Það rýrir engan málstað að vera poppari.

3. Ljóð sem hafa eitthvað að segja. Allt frá rómantík til viðbjóðs. Meira að segja Tómas Guðmundsson, og já, meira að segja Hótel Jörð. Það þarf ekki að fjölyrða um skáldið í headernum. Góð ljóð eru að vísu ekki einfaldir hlutir, en það er einfalt að njóta þeirra.

4. Fallegar kvikmyndir. Ég fíla fegurð í réttum mæli, og þar á fagurfræði ljótleikans ekki síður við svo það komi fram. Notebook er aðeins of, Amélie er fullkomin. Er með Paris, Je T’aime óglápta heimavið, af því ég bý við ólæknanlegt Parísarblæti án þess að hafa komið þangað. Brokeback Mountain er falleg. Líka Blade Runner og Casablanca.

5. Ævisögur skálda og sögur af þeim. Ég gapi af andakt yfir ómerkilegustu hlutum þar að lútandi. Aðspurður um besta skáld samtímans uppúr 1990 sagði Dagur Sigurðarson að hann kynni best við „vígaskáldið“. Og giskið nú.

6. Dýr. Ég er mikill aðdáandi (sjá hér). Ég á sautján ára gamla kisu sem sýnir þess enn merki hvað ég hef dekrað hana.

7. Undirflokkur af 6: Fólk sem leitar út fyrir sitt eðlilega umhverfi í leit að einhverju sem það veit ekki hvað er uns það lifir eins og kettir með þrjú heimili. Kynnist slatta af því gegnum vinnuna, flest þeirra góðhjartaðar rólyndisverur.

8. Bjór. Mér samt leiðist að vera fullur.

9. Nick Hornby. Já, fokkjú sömuleiðis.

8 thoughts on "Sækjast sér um líkir"

 1. Þórunn skrifar:

  Ég ætlaði að fara að gera veður útaf því að þú nefnir mig ekki á nafn, en áttaði mig svo á staðreyndunum:
  1. Það er ekki nóg að „líka við“ eiginkonu sína.
  2. Ég er ekki einfaldur hlutur.
  Ég reikna með að þú hafir af sömu ástæðum ekki nefnt mig á nafn.

 2. Þórhildur skrifar:

  Casablanca og Blade Runner eru líka með bestu myndum sem gerðar hafa verið,
  og Þórunn er augljóslega ekki hlutur 😉

 3. Elías skrifar:

  Bíddu, ertu giftur? Hvenær ætlarðu að kynna mig fyrir þinni töfrandi og hamingjusömu eiginkonu þinni?

 4. Við giftum okkur á öldurhúsi í Reykjavík. Ég man eins og það hafi gerst í gær en man nær ekkert eftir það.
  Ég hafði Þórunni einmitt ekki í huga í upptalningu á einföldum hlutum, hugmyndin ein var fjarri mér. Hún spúsa mín er enda hvorki hlutur né einföld, auk annarra punkta sem hér hafa verið nefndir. Mannlegt mál dugir ekki til að lýsa þeim bosma sem umlykur hana.
  Og já, Casablanca er einfaldlega langbest, uppáhaldsmyndin mín. Við erum tveir Casablancanördar að fara að horfa á hana í sumar, þér er velkomið að slást í hópinn Þórhildur!

 5. Dóri skrifar:

  sjett, þetta myndband er rosalegt. Sérstaklega þar sem ég var þegar búinn að opna lagið Carny með Nick Cave & the Bad Seeds og það rúllaði undir myndskeiðinu. Mæli með þeirri blöndu, spennan varð óhugnarleg…
  hér er carny:

 6. Kristín skrifar:

  Mér líkar allt sem þú nefnir nema að bjór er ekki í sérstöku uppáhaldi hjá mér, virkar eingöngu sem þorstaslökkvari í hitabylgju. Ef leið þín liggur einn góðan veðurdag til Parísar, treysti ég því að þú hafir samband (ég lofa því að ég er ekki kelling sem tæli unga drengi og þú mátt alveg koma með konuna þína eða vini á stefnumót við mig).

 7. Hljómar vel Kristín, það spillir ekki fyrir að hafa þaulreynda og kunnuga manneskju sér til halds og trausts þegar ég loksins læt verða af því að skella mér 🙂
  Dóri, úff …

 8. Jón Örn skrifar:

  Æ fyrst enginn vill giska á svarið þá ætla ég að segja:
  Bjarni Bernharður
  og það er rétt

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.