Að átt hafa og misst

Mér tókst ekki að klúðra fermingarveislu Andreu frænku minnar á dögunum með nærveru minni einni eins og ég ályktaði fyrirfram hér „á blogginu“. Reyndar var veislan alveg frábær og ég hafði talsverða ánægju af þrátt fyrir flensueinkennin sem börðust innra með mér allan tímann. Þau voru horfin daginn eftir.

Sumt fólk segir að það sé betra að hafa átt, elskað og misst fremur en að hafa aldrei átt eða elskað („misst“ er þægilega sleppt út úr seinni hliðstæðunni). Þetta er dæmi um praktískan hugsunarhátt sem ég hvorki skil né þoli. Af tveimur gjörsamlega hræðilegum valkostum – eða mér virðist þetta sett upp eins og það sé val – þá dæmirðu annan betri og þess vegna velurðu hann. Tilhugsunin ein er stórfurðuleg. Laumuþjóðverjar sem segja „misst hafa“ og „átt hafa“ furða mig jafnvel meira.

Formaður Hvíts afls yngri lýsir hatursglæpum á hendur sér á bloggsíðu sinni. Ég sem hélt að bloggsíðan hans væri hatursglæpur. Svo lýsir hann yfir stuðningi við þær hugmyndir varaformanns föðurfélagsins að það þurfi að spyrja bæjarbúa Akraness leyfis áður en fólk má flytja þangað. Hvað gerist þá ef Magnús Þór ákveður að flytja til Reykjavíkur „ofan í kokið“ á borgarbúum? Aldrei skal heimskan verða landflótta þótt ekki verði sama sagt um það fólk sem við kjósum að sprengja hverju sinni.

2 thoughts on “Að átt hafa og misst”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *