Mér krossbrá við fyrirsögnina „KK látinn“ en mundi þá skyndilega eftir þeim eldri, það er að segja úr Litlu flugunni við Laugarnesveg. Ég vissi ekki að það væri sami maður, hvað þá að hann hefði stofnað Verðlistann við Laugalæk – sem ennþá er starfræktur samkvæmt minni bestu vitneskju. Einhver allra síðasta leif um þá tíma þegar sjálfstæður atvinnurekstur í úthverfum var mögulegur.
Karlinn var mishrifinn af hnýsni okkar Arnars vinar míns þegar við bönkuðum upp á í kjallaranum á Laugarnesveginum, en stundum sýndi hann okkur þær flugur sem hann var nýbúinn að gera og gerði sitt besta til að útskýra til hverra sérhæfðu hlutverka þær voru ætlaðar. Við skildum auðvitað ekkert, en mér hefur lengi leikið forvitni á að vita hvernig viðskiptin gengu. Ég man aðeins einu sinni eftir að hafa séð kúnna hjá honum, en það segir meira um hversu sjaldan við þorðum að hringja bjöllunni.
Svona læðast minningarnar stundum aftan að manni.