Nútímalist

Helsti gallinn við þá sem krítísera „nútímalist“ sem eitthvert eitt fyrirbæri er að þeir virðast sjálfkrafa gera ráð fyrir að allir andmælendur þeirra hljóti að njóta allrar slíkrar listar en ekki einstakra verka. Í stað þess að uppbyggileg umræða um list geti átt sér stað á hún því til að hringsóla innan þeirra þröngu mengja sem viðmælendur hafa kosið sér, a eða b.

Í mengi a er stakið allt, sem er „nútímalist“, og sama gildir um mengi b nema með öfugum formerkjum; a er á allan hátt neikvætt en b er á allan hátt jákvætt, og mengin geta ekki skarast.

Þessi hugsunarháttur lyktar ekki síður af alræðishyggju en það gerir af þröngsýni, nema í þessu dæmi snýst það við hinu hefðbundna skema: Þeir sem ekki eru á móti í þessu tilviki eru með „nútímalist“, og guð forði smáborgurum frá því að slík sjónarmið fái að heyrast.

Þeir sem enn hneykslast á t.d. píkum mega alveg stundum leiða hugann að því að ekki aðeins var þeim og sömuleiðis öllum öðrum þrýst gegnum píku í upphafi ævi sinnar, heldur einnig því að hálft mannkyn gengur með slíka í klofinu og að meirihluta hins helmingsins þóknast gjarnan að komast í tæri við þær, ef ekki til að skapa þá til að leika sér, og ef einhver vogar sér að finna milliveg eða önnur not fyrir þær er það samstundis kallað rúnk.

Það finnst mér alltaf jafn fyndið.

4 thoughts on “Nútímalist”

  1. Hver hneykslast á píkum?
    Vandinn er að þetta er bölvað drasl hjá þessari Emin kerlingu.
    Það er nú allt og sumt.

  2. Ég vil nú ekki eigna þér allar skammirnar, en tökum smá stikkprufu af athugasemdum við færsluna. Sjálfur segirðu í svari til Eiríks Arnar:

    „Verst að íslenska nútímalistin er mestanpart svo leiðinleg að ekki væri hægt að gera almennilega Hriflusýningu úr henni. (Við eigum hins vegar ansi góða myndlistarmenn sem vinna á hefðbundinn hátt, þökk sé fyrir það).“

    Maður hlýtur að velta fyrir sér hvort slíkt gildismat byggist á athugun eða fordómum, en gefum okkur að þú hafir séð flestallt og dæmir það svo. Gott og vel, en gaman væri að sjá ítarlegri útlistun á kostum og galla allra þeirra verka sem þú fellir undir íslenska nútímalist. Næst segirðu í sömu athugasemd:

    „Vandinn er bara að mest af þessu er orðið svo gamalt, það er búið að reyna þetta allt áður, næstum hundrað ár síðan Duchamp stillti upp klósettskál sem list.“

    Ég tek píku sem annað dæmi um hið sama, eitthvað alvanalegt sem ætti ekki að stuða fólk lengur en virðist samt aldrei eiga að fá að hvíla í friði. Eftir öll þessi ár er ennþá til fólk sem segir klósettskálina ekki hafa verið list heldur klám. Það sama má segja um píkur, nekt almennt – nú eða fíkniefni og sora – í listum. Fólk hneykslast ennþá á þessu, þetta hreyfir við fólki, það eitt veitir því gildi.
    Næst dregurðu upp hliðstæðuna „bæði fjalla mikið og opinskátt um kynlíf“ milli Emin og Kafka. Á hvaða hátt er þetta sambærilegt? Steinar Bragi fjallar mikið um kynlíf, er það sambærilegt við Kafka og Emin, eða sambærilegra við annað þeirra en hitt? Ég fæ það á tilfinninguna að þú lítir svo á að kynlíf sé með öllu úrelt í listum, en samt hamparðu „hefðbundnum“ listamönnum (öll hefð var framúrstefna svo það komi fram) sem ættu samkvæmt sömu rökum að vera orðnir úreldir fyrir löngu.

    „Vandinn með nýlistina – ef má kalla hana það – er að hún er orðinn gamaldags, þreytt og úrsérgengin.“

    Það má vel vera, en fólk leitar áfram.

    „Hjá Emin er þetta mestanpart showbiz, hinn “listræni” verknaður felst aðallega í samspili listamanns og fjölmiðla.“

    Tímarnir breytast og listin með. Ef fjölmiðlar eru óafvitandi hluti af gangverki listaverksins sjálfs, eins og mér virðist þú ýja að, þá þykir mér það vel af sér vikið. Það er hugmynd sem getur af sér nýja og spennandi möguleika.

    „En heldur er það dapurt ef maður má ekki hafa skoðun á því í litlum pistli hvað er vond list og hvað er góð list.“

    Ef þú meinar vond og góð list í merkingunni vond eða góð listaverk þá er ég alveg sammála þér. En skoðaðu þessi gáfulegu komment á blogginu þínu, frá fólki sem lýsir sig sammála þér:

    Einar
    7. ágúst, 2008 kl. 16.02

    Listamenn eru letihaugar upp til hópa.
    Þeir fá flestir meira út úr því að sitja á kaffihúsi og segja frá því hvað allt sé ömulegt og hvað þessi á Benzinum sé andlaus, en að skapa eitthvað.
    Ég þekki mann sem reif sig úr öllum fötunum á listasýningu, hann fékk fylgd út úr húsinu, hann var ekki listamaður.
    Ég þekki annann sem gerði það sama nema hann sagði áður að þetta væri VERK, hann fékk lófaklapp.
    Það er ekki nema 1% af “list” list, restin er leti og aumingjaskapur.
    Mjóni
    7. ágúst, 2008 kl. 16.02

    Þetta klámrunk er engin list. Þetta eru lélegir listamenn sem gætu ekki hlotið athygli nema með því einblína á tilla og pjásur. Vanþroski á hæsta stigi. Enda er ég sannfærður um að tíminn muni gleyma þessum runkurum.

    Þá svarar þú:

    Egill Helgason
    7. ágúst, 2008 kl. 16.08

    Einmitt. Þetta er eins og blogg.
    Duchamp og dadaistar og fleiri risu upp gegn hefðbundinni myndlist. Eins og sjá má í listasöfnum heimsins var þessi bylting bráðskemmtileg framan af. En nú er vart neitt eftir af henni nema þrúgandi leiðindi – mest af nútímalist sem ég sé núorðið spyr aðeins einnar spurningar, aftur og aftur:
    Er þetta list?
    Svarið er ekki áhugavert.

    Mann setur hljóðan, Egill. Síðasta svarið við færslunni slær botninn úr tunnunni:

    Gunnar K.
    7. ágúst, 2008 kl. 17.53

    Hugtakið “Nútímalist” er skjólveggur hinna hæfileikalausu sem langar en geta ekki.

    Kannski við ættum bara að halda okkur við hellaristur?

  3. Við Egil Helgason vil ég helst segja það sem Tracy Emin sagði við Billy Childish:
    You are stuck! Stuck! Stuck! Stuck!
    Annars finnst mér sem gyðingi úrkynjun frábær og er því ekki dómbær á svona.
    kv.
    lommi

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *