Kópavogur

Áðan var ég staddur á McDonald’s við Smáratorg. Þar sá ég konu hella sér yfir starfsmann vegna þess að hún fékk hamborgarann sinn í venjulega brauðinu á myndinni, en ekki í kornóttu brauði eins og mynd af einhverjum öðrum hamborgara sýndi. Fyrir sumum er ekkert vandamál of lítið.

Á leiðinni heim tók ég eftir því í fyrsta sinn að Kópavogur er líklega skuggalegasti bær á Íslandi. Allar þessar dimmu brýr með húsum ofan á og brúm gegnum húsin með húsum ofan á; eins og litla Tókýó, bara án menningar. Kópavogi hefur gjarnan verið stillt upp sem valkosti við Reykjavík. Ég sé ekki alveg hvernig það getur passað.

Til þess að stilla upp valkostum þurfa hlutirnir að vera sambærilegir. Ef mig langar í hamborgara þá er KFC ekki valkostur, en ef mig langaði í kjúklingaborgara væri McDonald’s valkostur við KFC. Ef ekkert skiptir máli nema nálægð við Faxaflóa þá er Kópavogur vissulega valkostur við Reykjavík, annars ekki. Báðir staðir eru bæir í sama skilningi og appelsínur og bananar eru hvort tveggja ávextir.

En kannski vilja sumir bara búa undir brú eins og hver önnur tröll.

6 thoughts on "Kópavogur"

 1. Þetta er nú aðeins of fordómafullt. Þú hefur ekki farið víða ef þú hefur ekki tekið eftir öðru en brúm með húsum ofan á. Kópavogur ekki valkostur við Reykjavík? Hver er munurinn á gömlum hverfum í Kópavogi og t.d. Hlíðunum eða nýjum hverfum í Kópavogi og t.d. Borgarholti? Er meiri menning í Reykjavík? Sumir vilja bara búa í fallegu, vingjarnlegu hverfi þar sem er stutt í búð, bókasafn, sund, tónleikasal og allt annað sem maðurinn þarf á að halda.

 2. Gunni skrifar:

  Mér þykir afar vænt um Kópavog. Aðallega vegna þess að ég bjó þar eitt sinn og þykir afar vænt um ákveðið fólk sem þar býr. Svo er Breiðblik liðið mitt.
  Annars er Kópavogur fremur menningarsnauður og asnalegur bær.

 3. Sæll Skúli. Ekki veit ég hvort þú kemur aftur til að kíkja á svar mitt, en það er þríþætt:
  1. Ég segi hvergi að það sé meiri menning í Reykjavík, eða að Reykjavík sé merkilegri eða betri staður en Kópavogur. Ef ég á að segja eins og er þá hundleiðast mér báðir staðir.
  2. Þeir sem taka blogginu mínu of alvarlega eiga það til að virðast taka sjálfa sig enn alvarlegar. Það sem hér er skrifað er birt án ábyrgðar með þeim fyrirvara þó að öllu efni hér beri að taka með ákveðnum fyrirvara – fyrirvari sem gengur í álíka marga hringi og sum vitleysan sem ég skrifa, þar með talið þessi hér.
  3. Margir vinir mínir búa Kópavogi eða eru þaðan og ekki myndi ég vilja skaprauna þeim með fordómum mínum, fremur en þeim sem ég þekki ekki neitt og væru því þess heldur líklegir til að draga af þeim ályktanir, um mig. Varpi þetta nýju ljósi á vafasamar Kópavogsfærslur sem hér hafa þegar birst eða munu gera það í framtíðinni þá vinsamlegast láttu mig vita.
  Hvað Gunna varðar er ég þess fullviss að honum finnist allir bæir á Íslandi fremur menningarsnauðir og asnalegir, en ég fyrirgef honum það enda þykir mér fjarskalega vænt um hann þótt hann hafi eitt sinn búið í Kópavogi.

 4. Kristín Svava skrifar:

  Það sem er náttúrulega sérstaklega erfitt við að fordæma Kópavog er hvað hann er orðinn gríðarlega stór. Ég þoli hvorki Hamraborgina, Smárahverfið né Geira á Goldfinger en að dissa Bláfjöll og landsvæði sem teygir sig lengst upp á Hellisheiði er aðeins of stór biti að kyngja.

 5. Ég gekk Vífilfell um daginn og get ekki sagt annað en að mér þyki sá hluti Kópavogs gríðarlega fallegur, fyrir utan sandkassa bæjarstjórans þar utan í hlíðinni …

 6. Skúli skrifar:

  Það er í ágætu lagi að sérhver bloggari viðri persónulegar skoðanir, kenjar og fordóma og aðrir taki upp þykkjuna fyrir sinn heimabæ.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *