Skilaboð til lesenda

Skylduverk dagsins er að hlusta á etýðu opus 10 nr. 3 í E-dúr eftir Chopin. Lesendur mega ímynda sér að þeir séu staddir einhversstaðar í Evrópu að sötra rauðvín á svölum í volgum vorandvaranum með hálfnakinn elskhuga dormandi á sólstól með tequila sunrise og Blóm hins illa eftir Baudelaire meðan sólin strýkur ykkur um vangana og greddan eykst jafnt og þétt með brjóstaskorunni í miðju sjónsviðinu undan vafasömum blaðsíðum Við sundin blá eftir Tomma Gumm.

En sjálfum nægir mér tónlistin.

Hlustið svo á op. 10 nr. 6 í Es-moll; finnið hvernig hringlandi örvæntingin lýsist upp með örlitlum neista vonar en hrapar svo niður í hina herfilegustu angist. Stundum held ég að ég hefði riðið Chopin hefði ég verið uppi á sama tíma. Svo man ég að mér nægir tónlistin.

5 thoughts on “Skilaboð til lesenda”

  1. Þegar þú sagðir „einhversstaðar í Evrópu“ sá ég fyrir mér grámyglulegustu hluta Ruhr-héraðsins og eftir það varð færslan æ súrrealískari með hverju orðinu.

  2. Undurfallegt. Það er engin tilviljun að þrjú þúsund hræður fylgdu heilsulausa Pólverjanum Fryderyk Szopen til grafar. Nú þekki ég ekki sögu þessara etýða, en kannski tengjast þær harmleiknum kringum Mariu Wodzińsku?
    (Það er gaman að vera wikimenni.)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *