Nýr Garðskáli

Fagni allir góðir menn nýjum Garðskálaþætti í fyrsta tölublaði hinna nýju Tregawatta. Lesið hið stórglæsilega tímarit! Horfið á hinn kynngimagnaða Garðskála! Njótið!

Í öðrum fréttum fékk ég lánaða The Soft Bulletin með The Flaming Lips hjá stóra bróður mínum, sem kann að meta allt sem er fallegt, gott og krúttlegt, enda þótt hann sé vígalegur á að líta. Þetta er plata sem lýsir upp hið myrkasta skammdegi, og jafnfætis því að tilheyra póstrokkbylgjunni sem hófst að nokkru leyti með OK Computer kallast hún á skemmtilega snúllulegan hátt á við rokkóperustælana í Pink Floyd. Ég myndi kalla þá pabba krúttkynslóðarinnar íslensku en ég þori ekki að fullyrða. Afskaplega skemmtilegt, saklaust, fallegt og gott. Gerist krútt! Hlustið á Flaming Lips! Njótið!

Og til að ljúka bloggi dagsins birtist ykkur eftirfarandi tilvitnun í viðtal Tregawattanna við Steinar Braga, ef til vill eins og í draumi. Þó líklega ekki:

EÖN: Eru ljóð einlægari en áður? Persónulegri? Er tími íróníunnar liðinn?

SB:
Það fer fyrir okkur öllum eins og konunni í eldstorminum í Dresden í síðari heimsstyrjöldinni – hún hljóp út úr húsinu sínu en uppgötvaði of seint að gangstéttin var byrjuð að bráðna í hitanum, sökk þá grenjandi ofan í stéttina, lagðist á hliðina og bráðnaði saman við. Tími íróníunnar er rétt að hefjast.

One thought on “Nýr Garðskáli”

  1. Eins og þið bræðurnir eruð nú annars dannaðir og glæsilegir í Garðskálanum, þá verðið þið í næsta þætti að gæta þess að hella ekki rauðvínsglösin svona barmafull. Maður tók andköf við þessa hroðalegu sjón. Uppnámið er enn undirliggjandi og bregður skugga á daginn. Það eru bara villimenn í séníverdeildinni sem hella rauðvínsglös meira en hálffull í hvert skipti… Sýna smá klassa hérna!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *