Bless bless

Já, lífið er undarlegt. Ég hef hannað gólem í eigin mynd sem að sama tíma á morgun verður í flugvél, fótalúinn eftir brölt með ferðatösku og þriggja tíma lestarferð, með fyrirheitna landið að baki í bili. Mér finnst liðinn mánuður síðan ég stóð meðal túrista í Leifsstöð einn dimman mánudagsmorgun. Og samt finnst mér ég hafa verið hér of stutt. Til þess er góleminn, svo ég geti verið hér áfram.

Á morgun skrifar góleminn ritgerð um Augu þín sáu mig eftir Sjón. Að því loknu drekkur hann fríhafnarbjór og drekkir hugmyndum sínum um hið fullkomna líf í kreppuétnu helvítinu heima. Á meðan verð ég hér að raka lauf með elskunni í tímalausu rými, látandi mig dreyma um að gólemhelvítið heima geti aflað mér gráðu sem fyrst svo það geti flúið og við verðum aftur eitt, í draumnum þar sem augu hennar sáu mig, og allt var eins og það átti að vera. Að eilífu, og aldreimeir neitt annað. Bara ég, hún og beinagrind af einhverslags hugmynd um tilveru utanum tilganginn eina.

Draugasögur um að IMF séu komnir berast mér með vindgnauði yfir Atlantshafið, gegnum firði Noregs, gegnum skóga Finnlands – og svo langt sem það náði virðist lífið búið einsog við þekktum það. Ætli rotturnar séu ekki flestar flúnar núna. Ég kann sannarlega að velja tíma til heimkomu. Eins gott að vekja góleminn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *