Glitnir

Þegar ég var í Jyväskylä núna í október rak ég augun í Glitnisskilti við stigagang að skrifstofuhúsnæði. Dyrnar voru læstar og þegar ég kannaði dyrabjöllurnar sá ég engin ummerki þess að Glitnir hefði nokkru sinni starfað í húsinu, önnur en skiltið. Mikið hafa þeir verið fljótir að pakka saman.
Þegar ég var þar síðast fyrir tæpum þremur árum varð ég hinsvegar ekki var við ein einustu ummerki um nokkurs konar íslenska starfsemi. Þá höfðu þeir Finnar sem ég hitti líka langtum meiri áhuga á tungumálinu, kúltúrnum og íslenskri tónlist. Hvort það væri satt að Íslendingar drykkju meira en Finnar, það væri ótrúlegt að málin væru ekki skyld því íslenska væri í raun auðskiljanleg, hvort segja mætti að tónlist Bjarkar ætti samhljóm með íslensku hugarfari almennt.
Núna höfðu flestir áhuga á íslenska hruninu. Einum fannst við eiga þetta skilið. En auðvitað eiga ekki nema örfá okkar þetta skilið. Flestir voru skilningsríkir, sögðu mér að hafa ekki áhyggjur, Finnar hefðu verið þarna 1991, verið skammt undan klóm IMF komnir en bjargast. Þegar þeim varð ljóst að skuldir okkar banka nema ekki 7% landsframleiðslu eins og í Finnlandi forðum, meira svona 600-700% fékk ég jafnan svarið: Ó, eruð þið þá ekki fokkd?
Sem sérlega heiðarlegur fulltrúi lands og þjóðar var mér ekki stætt á að svara því neitandi.

2 thoughts on “Glitnir”

  1. aggi minn það er bjór á næstunni
    svo tökum við upphæð sem samsvarar sjö prósent af því sem við eyddum í bjórinn og sendum á ríkissjóð
    hvernig líst þér á?

Skildu eftir svar við Lommi Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *