Hakkebuff

Ingibjörg Sólrún sér ekkert athugavert við skilmála IMF. Heldur ekki Seðlabankinn. Sem þýðir að annað hvort skilja þau ekki skilmálana eða þau eru að ljúga. Björgvin G. neitar að tjá sig um skilmálana. Þau neita öll að tjá sig um skilmálana. Annað hvort er þetta alltsaman svona frábært að við komum til með að skíta kandífloss og einhyrningar skeina okkur, eða þá að við erum raunverulega það fokkd að ráðamenn vilja vera komnir í öruggt skjól þegar hausar fara að fljúga.

Það er snjór úti einsog til þess eins að minna mig á viss leiðinleg hugrenningatengsl, og kalt vatn er skyndilega orðið munaðarvara á þessum heimili; sjálfsagt allt frosið í lögnunum því meira að segja klósettið virkar ekki (hvar eru einhyrningarnir?). Kaffið mitt mallar því úr kýsilangandi íslensku heitavatni.

IMF fara að krúttast hingað bráðum að slá okkur létt á kollinn með töfrasprotanum sem breytir Íslandi í Nautnaeyju Gosa. Eina verðið fyrir krásirnar, vindlana og ölið er að við breytumst í asna á miðnætti og verðum seld í hakkebuff fyrir slikk einhversstaðar þar sem eftirspurn er eftir hakkebuffi. Því þannig virkar kapítalisminn og hin „heilbrigða græðgi“. Eða hafiði kannski aldrei séð Gosa?

Annars mæli ég með því að þið lesið Surt, vin minn. Hann er þó ekki kominn til að brenna heiminn, því heimurinn logar þegar. En það eru mikilvægar spurningar sem brenna á honum. Lesið líka Ingólf og Eirík.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *