Harpa Jónsdóttir, sem skrifaði svo fallega um bókina mína í hittífyrra, á enn inni þakklæti mitt. Núna hefur hún búið til skólaverkefni um Póstkort í vesturbæinn úr sömu bók – aðgengilegt á vef Námsgagnastofnunar tileinkuðum Degi íslenskrar tungu. Verð að játa að það er skrýtið að sjá sjálfan sig á svona verkefnablaði. Hafi hún enn á ný bestu þakkir fyrir að koma mér á framfæri.
Annars er afskaplega auðvelt að verða reiður þessa dagana, pirraður eða vonsvikinn, og ekki bætir myrkrið úr skák. Ef ég kveiki loftljósið inni hjá mér fer öryggið af íbúðinni þannig að ég verð að láta mér nægja lampa – og flíspeysu þegar vindurinn gengur á að austan. Ekki að það sé upphaf eða endir á neinu volæði, það tekur því ekki einu sinni að kvarta. En þegar hlutirnir eru einsog þeir eru finnur maður meira hvað það er sem mann vantar (lesist: langar í) en hvað maður hefur. Og ég held í grunninn að það sem mig vanti (langar í) sé minna borgarlandslag. Ég held mig langi að taka mér langt frí.
Eigendum sumarbústaða utan almennra sumarbústaðabyggða tilkynnist því hérmeð að mig er að finna í símaskránni, vilji þeir lána mér bústaði sína án þóknunar.
Myndir þú treysta þér til að leysa verkefnin sem lögð eru fyrir ungmennin? Rökstyddu svar þitt____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________
Hvað heldurðu að þú myndir fá í einkunn?________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________
Finnast þér spurningarnar og eða svörin líkleg til að auka áhuga þeirra eða skilning á ljóðlist (svaraðu út í bláinn)________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________
Það er ekki mitt að svara þessari gagnrýni, Haukur. En þér að segja er ég ennþá að leysa svona verkefni uppi í Háskóla.
Það er náttúrulega ekkert borgarlandslag á Íslandi! Hvað þá í Hafnarfirði.
Ég legg til að þú drekkir í þig borgarlandslagið. Þín bíður þægilegur beddi hér í Köben.
Mig langar í bústað! Eigum við ekki bara að splæsa nokkur saman,það getur ekki verið svo dýrt?
Kannski ég kíki til Köben.
Sumarbústaður væri næs líka.
En svo er hitt sem ég meina, að taka mér raunverulegt frí frá þessu öllu, einhversstaðar þar sem er ekkert við að vera.
Þetta var ekki beinlínis gagnrýni af minni hálfu. Ég hafði í raun og veru bara áhuga á því að vita hvort þú treystir þér til að leysa verkefnið. Það er til einhver gömul anaktdóta um Árna Ibsen sem varð víst alveg brjálaður þegar ljóð eftir hann var notað á samræmdu prófi og hann var í öllum höfuðatriðum ósammála mati þeirra sem sömdu prófið.
Mér fannst seinni hluti verkefnsins ansi góður og ljóðið sjálft reyndar líka.
Þú meinar. Jú, ég var ansi skeptískur fyrst á eigin getu til að leysa þetta. Líkt og með Árna var ég ekki viss um ágæti nálgunarinnar, en tók hana fljótlega í sátt. Hún er miklu opnari en ef ég hefði komið að verkefninu.
Athyglisverðasti parturinn finnst mér vera að semja lag við ljóðið …
Takk fyrir hólið annars. Mér leikur forvitni á að vita hvort þú sért enn að vinna í sögunni sem þú last úr á Þórbergsþinginu, hún lofaði góðu.
Ö, hún er eiginlega bara í maski en ég er ekki búinn að gefa hana upp á bátinn samt. Ég er að vinna í verkefni núna sem er búið að taka allt of langan tíma, og þá í árum talið og ég vona að sagan og fleira komist aftur á skrið að því loknu.
Jæa, gangi þér vel með það allt. Er sjálfur búinn að vera að reyna að koma frá mér efni í tvö ár, alltaf eitthvað annað sem kemur í staðinn …
Takk fyrir Arngrímur.
Varðandi spuringahluta verkefnisins þá var einni mikilvægri línu sleppt. Hún var svona : Veldu eitt eða fleiri af eftirfarandi verkefnum:
Hugmyndin hjá mér var sem sagt að krakkarnir gætu VALIÐ hvort þeir svöruðu spurningum (það eru alltaf einhverjir sem vilja svona hefðbundin verkefni), semdu lag, ljóð, skrifuðu póstkort o.s.frv.
Námsgagnastofnun breytti þessu.
Skrýtið lið þarna hjá Námsgagnastofnun, hefðirðu fengið að ráða væri verkefnið miklu betra, eðlilegra, sanngjarnara, skemmtilegra o.s.frv. nú þegar hugmyndir um einstaklingsmiðað nám eru loksins farnar að mjaka sér inn í grunnskólana.
Nákvæmlega. Það var hugsunin á bak við þetta.