Aldrei að segja aldrei að segja …

Þrátt fyrir meðfædda bölsýni, sem fær mig til að trúa ótrúlegustu hlutum, virðist mér ekki hafa tekist að láta reka mig úr háskólanum. Ég byrja því að sanka í BA ritgerð eftir helgi – og tileinka mér hin eilífu vísindi orðmyndunar- og beygingarfræða. Held að Jóhannes Gísli eigi eftir að sakna mín næsta vetur.

Hinsvegar trúði ég því staðfastlega að litla aldamótadísan mín kæmist gegnum skoðun í dag. Aldrei að segja aldrei að segja aldrei. Núna hef ég mánuð til að láta laga hana.

Annars hef ég ákveðið að hætta að angra sjálfan mig, og lesendur þessarar síðu gleymum þeim ekki, með hversdagshamförum þess sem ritar. Ég vil frekar fjalla um hugmyndir í sem víðustum skilningi, það er eitthvað sem stendur – allavega að mestu leyti – utan við sjálfan mig.

Þess vegna langar mig að benda á að Hermann Stefánsson hefur líka skrifað um útrásarhöfundana. Mína grein má aftur finna hér fyrir neðan.

4 thoughts on “Aldrei að segja aldrei að segja …”

  1. Bifreiðin (kvk) heitir Dísa og er aldamótaárgerð. Stundum nefnd aldan en oftast Dísa.
    Annars er merkilegt hvað þjóðfélagshópar kenndir við hnakka tala fallegar um bílana sína en kærustur – enda síðarnefndu bara tzjedlíngar til að setja í.
    Að því sögðu erum við finnska ekki saman lengur en það er nú reyndar af öðrum sökum.

  2. Shit, ég verð að skipta um átt, hélt að enginn læsi mig og kunni því ágætlega. Ég get reyndar tekið undir margt sem þú segir prýðilega hér að neðan um víkinga.
    Þú reddar bílnum. Minn komst ekki í gegnum skoðun enda á hámarkshraðanum 30 síðustu mánuðina, sem ég held þó að hljóti að vera framtíðin. Þorsteinn frá Hamri kunni allavega mætavel við bílinn þegar ég rúntaði með honum upp í háskóla eftir fáförnum krókaleiðum á dögunum.
    PS
    Þarftu ekki annars eitthvað að endurskoða „Um höfundinn“ í ljósi nýlegra verka?:
    „Allt efni á þessari síðu er © Arngrímur Vídalín Stefánsson. Vinsamlegast virðið þær takmarkanir á notkun síðunnar og hafið samband ef þið eruð í vafa. Ég æski þess í öllu falli að ég verði látinn vita af hvers konar afritun á því efni sem hér er að finna.“
    PPS
    Annars hef ég ekki enn lesið Síðustu ljóðabók Sjóns, aldrei að vita nema ég eigi það eftir.

  3. Jú, þetta skýtur nokkuð skökku við er það ekki. Annars er margt í höfundarprófílnum sem þarf að fara út, það kemur lesendum þessarar síðu til dæmis ekkert við hvar ég vinn.
    Ef Þorsteinn frá Hamri er hrifinn af bílnum þínum þá hlýtur að vera hálfgert menningarslys að leggja honum. Eiginlega ætti hann að komast gegnum skoðun fyrir það eitt. Í það minnsta er ekki minna vit í því en að horklessur úr John Lennon seljist á tugmilljónir á ebay.
    Og lestu endilega Síðustu ljóðabók Sjóns, og aðrar bækur sem við hann eru kenndar ef út í það er farið. Ég held hún standi alveg fyrir sínu – þó hún standist kannski ekki samanburð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *