Til er hryllilega súr brandari um Descartes. Þannig var nefnilega mál með vexti að Descartes fór alltaf á sama kaffihús á hverjum degi, í fleiri fleiri ár, og pantaði sér súpu. Nema dag einn kemur Descartes inn og þjónninn spyr hann hvort ekki megi bjóða honum súpuna eins og venjulega. Descartes svarar: Nei … ég hugsa ekki. Þá hvarf Descartes.
Á hverjum degi vona ég að eins fari fyrir moggablogginu. Þeirri tilgátu var reyndar stungið að mér í dag að ef moggabloggarar áttuðu sig á þverstæðu Descartes þá yrðu margir þeirra að svartholum með óendanlega neikvæðan massa – svo mikið væri bullið í þeim. Í sjálfu sér ágætiskenning en ég þori ekki að standa við hana af ótta við að fá holskeflu af sauðheimsku fólki hingað inn. Þeir geta myndað sín svarthol annarsstaðar.
Segja þeir ekki „Ég blogga, þess vegna er ég til“, á útlensku „blogito ergo sum“?
Ég vona altént að það teljist ekki sem gat í þegar vafasamri lógík …
Þessi brandari byggir á þeim grundvallarmisskilningi á heimspeki Descartes, að cogito-ið sé verufræðilegt en ekki þekkingarfræðilegt (auðvitað).
Sem er einmitt svo sniðugt og skemmtilegt. Kanntu fleiri svipaða?