Tölvan mín er farin að hitna svo mikið að ég sá þann kostinn vænstan að hringja í þjónustuaðila og panta tíma. Húðin er beinlínis farin að flagna utanaf örgjörvanum. Tölvan reyndist vera í ábyrgð ennþá svo það kemur sér afskaplega vel.
Á Þórbergsvefnum rakst ég á meint MA verkefni eftir Sverri Árnason, Í kompaníi við Þórberg og Matthías. Það finnst þó ekki á Gegni (hefur höfundur fjarlægt það?). Og orðalagið finnst mér nokkuð frjálslegt fyrir MA ritgerð, þótt ekki vilji ég gerast svo hrokafullur að afskrifa þessa ágætu grein fyrir því. Þar fyrir utan þarf ég líklega að styðjast við hana. Auglýsi hérmeð eftir lausn á þessari ráðgátu.
Í kvöld mun ég leggja allt kapp á að koma tiltekinni afurð yfir á flöskur og endurvinna grein um Þórberg sem ég ætla að fá birta í Mími, tímariti íslenskunema. Tilgangurinn er praktískur – ég hyggst vitna í hana sjálfur í BA ritgerðinni, og hún er nógu ólík stóru ritgerðinni til að ég vilji helst sleppa við að troða henni þar inn í mýflugumynd. Nema þá að Mímir komi út of seint í árinu, þá verður verkið til lítils unnið. Sjáum hvað setur.
Er svo að vinna í því að afla mér heimilda frá öðrum rannsakendum Þórbergs, t.d. handriti hans að sjálfsævisögu og dagbókaskrif frá tilteknum tíma sem ekki hafa verið gefin út. Lesa svo Kristin E. Andrésson og Sigurð Nordal. Lesa Sigfús Daðason aftur vegna klúðurs við skrásetningu. Annars held ég að það hljóti að fara að verða komið nóg af þessu heimildagrúski. Þá er bara eftir að endurlesa höfundarverkið og setjast við skriftir.
Þegar þú segir ævisaga ertu væntanlega að tala um „stóra handritið“ svokallaða, er það ekki? Hélt að til stæði að gefa það út bráðum. Geturðu fengið það?
Stóra handritið, jú. Fæ það hjá Pétri Gunnarssyni (ódýrara en að ljósrita frá Landsbókasafni).
Ef til stendur að gefa það út komum við líklega báðir af fjöllum. Ræddum einmitt furðu þess um daginn að enginn hefði gefið það út ennþá.
Veistu nokkuð hver stendur fyrir útgáfunni?