Ég sit úti á svölum þessa stundina, drekk bjór, prófarkales bók og kemst svona smám saman að því að kannski á heitt loftslag betur við mig en þetta íslenska. Ég minnist þess að hafa lesið í kennslubók í Laugarnesskóla að loftslagið á Íslandi væri „temprað“, en sé ekki nokkra leið til að sættast á þá skýringu sem felur í sér að hér sé aldrei neitt sérstaklega heitt, hvað þá heldur neitt sérstaklega kalt. Hér er skítkalt allt árið um kring nema rétt svona stöku sinnum. Einsog t.d. í dag. Það gerir rokið.
Tek sérstaklega eftir því að bjór bragðast öðruvísi (og betur) þar sem er heitt, og að sígarettur svífa öðruvísi á mann ofan í bjórinn en þegar kalt er. Að því sögðu þætti mér vænt um að geta flogið suður á bóginn þegar kælir hérna. Haldið til í Ástralíu yfir köldustu vetrarmánuðina og komið aftur þegar fer að hlýna hér. Annars man ég ekki eftir viðlíka veðri á þessum veðurbarða kletti svo snemma árs. Ekki nokkurntíma.
Ég minnist þess að hafa heyrt kaldtemprað.