Snjór í apríl

Einhverjum lesendum þessarar síðu þætti kannski áhugavert að vita að núna í ár, í fyrsta sinn síðan þessi síða var stofnuð, snjóaði hvergi í Reykjavík í apríl. Í gær brast hinsvegar á með örfárra sekúndna slydduéljum hér í Hafnarfirði, en það telst nú varla með.
Niðurstaða: Fimm ár í röð snjóaði í Reykjavík í apríl. Það er því óvenjulegt að það skyldi ekki hafa gerst núna í ár. Haldið svo ekki að ég hafi ekkert merkilegra til að fjalla um ef ég vildi.

Fyrirsagnir

Allir góðir menn hljóta að fagna því að hugrenningar moggabloggara séu aðgengilegar öllum stundum gegnum Blogggáttina. Það losar okkur sem höfum safnað moggabloggurum einsog hráviði inn á fésbókina okkur undan þeirri kvöð að þurfa að skoða status þeirra allra með fimm mínútna fresti – Blogggáttin bætir um betur, því allir góðir og gegnir moggabloggarar birta efni sitt glóðvolgt úr hugskoti sínu jöfnum höndum á báðum stöðum.

Af þeim sökum finn ég tilgangsleysi þessarar síðu vaxa óðfluga með hverri mínútunni. Hef ég því ákveðið að skjóta þeim ref fyrir rass með því að birta allar fyrirsagnir sem hefðu prýtt þessa síðu síðustu dagana ef ég hefði haft eitthvað við þær að bæta. Þannig græða lesendur mínir miklu fleiri fyrirsagnir en lesendur annarra síðna, og ég þarf ekki að hafa eins mikið fyrir því að útlista skoðanir mínar.

1. Mig langar að blogga en hef ekkert að segja.
2. Hvað ætti ég að borða í kvöld?
3. Var að horfa á Doctor Zhivago – alger klassík!! 😉 😉
4. Myndbirtingar við stórslysafréttir – er þetta réttlætanlegt?
5. Algert ráðleysi stjórnarandstöðunnar!
6. Maður rændur í Keflavík, þjóðarsorg
7. Skyldi Stebbafr finnast ég góður bloggari?
8. Ekkert í sjónvarpinu, burt með báknið!
9. Hvernig setur maður inn status update?
10. Dóttir Tysons látin, ábyrgðarleysi foreldra algjört
11. Nafnleysingjar á netinu – framtíð bloggsins
12. Get svarið að fingurnir eru að fitna, erfiðara að blogga
13. Mín skoðun
14. Sykurskattur?
15. Æ, kommúnistar

Skoðanir Stebbafr

Það er ekki hægt að komast hjá því að lesa skoðanir Stefáns Friðriks Stefánssonar. Þær eru alstaðar. Þær birtast við aðra hverja frétt á Morgunblaðsvefnum. Þær birtast á blogggáttinni og þær birtast á Mikkavef. Ég býst fastlega við því að innan tíðar verði hann farinn að krota þær utan á póstinn minn líka.

Stefán er góður og gegn hægrimaður sem hefur skoðanir á öllu milli himins og jarðar, þótt honum hafi líklega ekki borið gæfa til þess enn að vera svo mikill rebel að horfa á sjónvarp á fimmtudögum fyrst hann eyðir kvöldinu í fylla Morgunblaðsvefinn, blogggáttina og Mikkavef af hugmyndum sínum um „óhóflega neyslustýringu vinstrigrænna“ og öðru slíku. Þar á hann við tillögu um eitthvað um tíu króna álagningu á hverja kókdós, einsog andstætt þeirri afar hóflegu neyslustýringu Sjálfstæðisflokksins að tæta svoleiðis sundur hagkerfið að venjulegt fólk þarf nú að velja milli þess að fæða börnin sín eða greiða dráttarvexti af íbúðalánum.

Einhvern veginn fær maður nú samt á tilfinninguna að Stefán og restin af stuttbuxnadeildinni þurfi ekki að örvænta enn. Þeir hafi fullteins vel efni á því nú sem fyrr að mæta á thatcherbolunum niður í Valhöll til að grilla pylsur og skála í skattlögðum kókdósum. Svo geta þeir líka farið í búðarleik og selt hver öðrum bjór svo allir geti séð hvað það er gaman hjá þeim en leiðinlegt í ríkisstjórn. Og ef allt annað klikkar búa þeir þó enn við það frelsi að hafa sjónvarp á fimmtudögum. Nær væri að þeir nýttu sér það í stað þess að angra okkur hin með heimskulegu þvaðri um skattpíningu vinstriflokkanna. Hvaðan kemur þessi vitleysa? Þú kúkar ekki í stuttbuxurnar og kennir einhverjum á næsta borði um!