Enn af Árósum – og umferðarmenningu

Eitt það fyrsta sem fór að ergja mig þegar ég kom heim í síðustu viku er umferðarmenningin á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef lengi haft þann draum að komið yrði á laggirnar léttlestakerfi eða metró á stór-Reykjavíkursvæðinu með miðstöð við Kringluna. Stoppin yrðu fá: Hamraborg, Garðatorg, Fjörður. Við Fjörð væri hægt að skipta yfir í lestina til Keflavíkur. Frá Firði færi lestin áfram með viðkomu við IKEA, Smáratorg, Mjódd og Skeifu með endastöð við Kringluna.

Þetta verður aldrei að veruleika. Ef ekki væri fyrir núverandi vandamál þá yrðu bara einhver önnur ljón á veginum. Þá skortir almennt framsýni í þessum málum á Íslandi. Eini stjórnmálamaðurinn mér vitandi sem hefur pælt í þessum málum er Árni Þór Sigurðsson. Menn skyldu hlusta betur á slíkar hugmyndir.

Nú gladdi mig á hinn bóginn talsvert nokkuð sem ég las á dönsku Wikipediu áðan. Til að stemma stigu við aukinni bílnotkun og sporna við vandamálum þar að lútandi (bílaumferð er semsé ekki orðin að vandamáli enn) hafa borgaryfirvöld í Árósum komið á laggirnar nefnd sem fjalla skal um skipulagningu og uppbyggingu léttlestakerfis þar í borg. Fyrsta sporið verður vígt 2015 og tekur hringinn frá aðallestastöðinni með viðkomu á Nørreport, Randersvej, Lisbjerg, Lystrup og Grenå, og dekkar þannig vel ríflegan hluta af norðurbænum með tveim stoppum hvoru sínu megin við miðbæinn.

Og þetta er aðeins fyrsta spor af fleirum. Sem er auðvitað ekkert annað en tær snilld. Það væri óskandi að borgaryfirvöld Reykjavíkur væru svona framsýn.

2 thoughts on "Enn af Árósum – og umferðarmenningu"

  1. HI skrifar:

    Ef þú ferð að birta minningagreinar þá get ég endanlega hætt að bera mig eftir Morgunblaðinu!

  2. Það eru minningargreinar hér svo þú getur farið að segja upp áskriftinni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *