Meiri útgjöld

Svo virðist sem slagsmálum mínum við LÍN sé nú lokið með fullnaðarsigri lánasjóðsins eftir um átta mánaða þras. LÍN vinnur vegna þess að hann ber ekki ábyrgð á því hvort mér berast þau bréf sem hann sendir út. Pósturinn ber heldur ekki ábyrgð vegna þess að pósturinn ábyrgist bara ábyrgðarpóst.

Skemmtilegt hvernig fyrirtæki á borð við póstinn auglýsa vanhæfni sína með því að rukka aukalega fyrir að taka ábyrgð á að sendingar skili sér. Það er í raun ekkert annað en ohf-aður verndartollur. Ímyndið ykkur veitingastað þar sem þyrfti að múta þjóninum til að maturinn skilaði sér á rétt borð. Og þegar maturinn kæmi ekki væri enginn ábyrgur. Þú gætir bara sjálfum þér um kennt fyrir að láta hann fá peninga án tryggingar.

Segjum að ég keypti mér píanó og þyrfti að borga 10% ábyrgðartryggingu til að vera viss um að það sem ég fengi sent heim til mín væri ekki bara trékassi í laginu einsog píanó. Ef ég þyrfti að múta löggunni til að sektargreiðslur skiluðu sér örugglega lengra en í vasa þess sem rukkaði. Það væri nú meira þjóðfélagið.

Í tölvukerfi LÍN stendur að bréfið hafi verið sent. Sum okkar eru ekki svo geðveik að hafa tölvu tengda við póstkassann okkar til að sverja fyrir að tiltekin bréf hafi borist. En án slíkra sannana hef ég ekkert. Svo ég þarf víst að borga af láninu mínu sama hvað tautar og raular. Það má ég þakka skilvirkri póstþjónustu. Og þá vil ég spyrja hverjum ég þarf að múta til að ég skuldi ekki handrukkara óvart hálfa milljón um næstu mánaðamót.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *