Ek, Hlewagastir …

Ég hef ákveðið að berjast gegn snjáldurskinnustatusum með því að blogga reglulegar. Svo hagnýti ég mér skinnuna með því að tengja hana við bloggið til að auka lestur, fyrst enginn hefur enn boðið mér á Eyjuna.

Þið getið litið á þetta sem nýja byrjun. Í vetur verður mikið fjallað um námið í íslenskudeildinni.

Í dag sat ég minn fyrsta tíma í fjórða sinn í íslensku máli að fornu I. Guðrún Þórhalls fær alltaf sama kikkið út úr því að kynna aðalnámsbók námskeiðsins, Norrøn Grammatikk eftir Ragnvald Iversen, gefin út af Aschehoug sirka sjöþúsund fyrir krist (varðveitt í ólíkum gerðum á steintöflum frá Súmer og bautasteinum í Noregi – útgáfa hennar og túlkun er stöðugt ágreiningsefni spakviturra manna).

Í þetta sinn ákvað ég að sanka að mér allskyns ítarefni svo ég þurfi ekki að reiða mig algerlega á speki Iversens og eigin norskukunnáttu. Svo ég fór á bókamarkað í Árnagarði í leit að tiltekinni bók, og fann einar fjórar á sérstöku tilboðsverði, 3000 krónur. Þar sem ein þeirra er hvort eð er skyldulesning á næstu önn og kostar sjálf 3000 krónur sló ég til og keypti þær allar, þótt tvær þeirra nýtist mér varla – tvær (gamlar) lýsingar á nútímasetninga- og beygingarfræði.

Hinar tvær eru Fyrsta málfræðiritgerðin í ritstjórn Hreins Benediktssonar og Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld og breytingar þeirra úr fornmálinu eftir Björn K. Þórólfsson. Ég geri bara ráð fyrir því að þið hafið áhuga á þessu.

Svo keypti ég Samræður við söguöld eftir Véstein Ólason í enskri þýðingu (Dialogues with the Viking Age) á 600 kall í Eymundsson. Það var bara verið að gefa þetta. Alltaf þrengist í miðaldaskápnum mínum. Sem er ágætlega viðeigandi, fyrst ég hef ákveðið að helga mig miðöldunum. Þá skráði ég mig einnig í áfanga um dróttkvæði og annað slíkt. Svona svo ég drepist ekki alveg úr leiðindum meðan ég stúdera hvernig etunar varð að jötnar.

2 thoughts on “Ek, Hlewagastir …”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *