Í gærkvöldi sat ég sem svo oft áður inni í stofu með tölvuna í fanginu meðan ég horfði á sjónvarp þegar ég heyrði hryllilegt væl í kettinum mínum, einsog hún hefði rekið sig í gegn á einhverju. Ég rann á hljóðið og fann hana úti á svölum. Þá hafði hún hrakið aðkomukött uppá handrið og hélt honum þar í skefjum. Ég kláraði verkið og slengdi boðflennunni framaf og var voða stoltur af gamla greyinu mínu að hafa varið húsið.
Það var ekki fyrren seinna um kvöldið að það tóku að renna á mig tvær grímur. Hvorugur kötturinn var særður. Auk þess er mín bæði lítil af ketti að vera og hún er nærri eins gömul og ég og gæti því tæpast haft í fullu tré við sér yngri högna.
Svo þetta væl getur víst aðeins táknað eitt. Þá er að vona að kattarómyndin sé komin úr barneign því ekki get ég ímyndað mér að svona forn skepna hefði það af að unga út afkvæmum á stofugólfinu (hvað þá pabbi sem lítur á íbúðina sem musteri sitt). Ég hef á hinn bóginn, kannski ólíkt flestum, litlar áhyggjur af kettlingum. Það mætti finna þeim heimili ef sannað þætti að kisan mín réði við að eignast þá. Að öðrum kosti þarf ég að undirgangast það undarlega verkefni að fara með kött í fóstureyðingu.
Já, ég átta mig á því hvernig þetta hljómar.
Þú kemst í heimsmetabókina með Kisu ef hún gýtur núna og lifir af! o_O
-En ég myndi nú samt ekki taka sjénsinn.