Skráningarörðugleikar II

Eftir allt umstangið við að koma mér inn í skráningarkerfi Háskólans í Árósum fékk ég bréf í dag þar sem mér var tilkynnt að erlendir stúdentar þyrftu að sækja um bréflega.

Svarið við öllum umleitunum mínum var semsé fólgið í tveggja blaðsíðna umsóknareyðublaði sem einni manneskju af þeim níu sem ég talaði við á fimm dögum loksins hugkvæmdist að senda mér slóðina á.

Skyndilega þykir mér Háskóli Íslands eiga aðdáun skilið fyrir skilvirkni …

Skráningarörðugleikar

Á sama hátt og mér leiðist þegar fólk spyr spurninga sem það hefði getað fundið svar við sjálft hefði það kynnt sér málin leiðist mér þegar ég spyr einfaldrar spurningar og er vísað á heimasíðu, einsog ég hafi ekki leitað af mér allan grun á sömu heimasíðu.

Til að gera langa sögu stutta tók það mig tvo daga að fá úr því skorið hvernig ég gæti sent inn umsókn í Árósaháskóla; þegar það var komið í ljós virkaði skráningarkerfið ekki. Það tók annan dag að kippa því í liðinn og þá er ekki boðið uppá umsókn í meistaranám, bara eitthvað skiptinám, diplómanám eða doktorsnám, og ég get ekki klárað umsóknina nema fara gegnum stofnun á borð við Nordplus eða Erasmus – sem ég hef engan áhuga á að gera. Svo það er útlit fyrir að það taki minnst einn dag í viðbót að finna útúr þessu. Þetta hefur kostað mig talsverðan tíma, símtal til Danmerkur og ýmislegar dönskuæfingar. Ef ég væri ekki staðráðinn í að fara væri ég búinn að gefast upp.

Varðandi nýja bloggið þá hef ég núna uppfært wordpresskerfið mitt svo síðan er ýmsum kostum búin. Allar myndir sem verða birtar á síðunni héreftir virka þannig að hægt er að smella á þær til að sjá þær stærri. Prufið myndina hér að ofan, hún er af campusnum og háskólagarðinum í Árósum. Hægramegin við gatnamótin ofanvið er Norrænudeildin til húsa. Skáhallt á móti er aðalbyggingin og útibú Landsbókasafnsins. Hinumegin götunnar eilítið til vinstri má finna bóksölu stúdenta og stúdentabarinn þarsem ég hlakka til að drekka á ný í framtíðinni.

TOEFL-próf

Einsog lesendum Bloggsins um veginn ætti að vera kunnugt er ég á leiðinni til Árósa í framhaldsnám næsta haust. Umsókn um háskólavist erlendis fylgir einsog við mátti búast óhemjumikið pappírsflóð sem þarf tiltekið marga hornrétta stimpla ofaná undirskriftir kontórmeistara og handhafa réttra prókúra auk ýmissra annarra skilyrða og formsatriða sem uppfylla þarf.

Eitt af þessum skilyrðum er viss lágmarkseinkunn í TOEFL eða sambærilegu stöðluðu, samræmdu enskuprófi. Vegna gengisskráningar krónunnar kostar orðið 20 þúsund að taka svona próf og það er aðeins hægt á tilteknum tíma, alltaf með eitthvað um þriggja til fjögurra mánaða millibili. Auðvitað vill helst enginn þurfa að borga fyrir svona leiðindaprógramm.

Sem er einmitt nokkuð sem kom á daginn þegar ég fór að skoða þetta aðeins betur. Heimild til undanþágu við Árósaháskóla er veitt stúdentum með enskukunnáttu á svokölluðu B-stigi hafi þeir tímasókn uppá að minnsta kosti 210 klukkustundir – ekki kennslustundir. Svo ég hafði samband við gamla framhaldsskólann minn sem reiknaði út fyrir mig að þær 15 einingar sem ég kláraði jafngilda 260 klukkustundum af kennslu, og með einkunn yfir lágmarksviðmiði ÅU er ég undanþeginn prófið.

Ástæða þess samt að mér finnst taka því að skrifa um þetta hér er sú að nú eru ótal stúdentar á hverju ári sem taka TOEFL-prófið vegna þess að þeim er sagt að þeir þurfi þess. Nú er prófið nokkurnveginn alveg eins uppbyggt og venjulegt stúdentspróf, og miðað við hversu margar einingar íslenskir stúdentar taka í ensku fór ég hreinlega að velta því fyrir mér hvort stúdentsprófið eitt og sér komi fólki ekki bara helvíti langt.

Í það minnsta myndi ég hvetja fólk til spyrjast fyrir um hvort það raunverulega þurfi að taka TOEFL-próf áður en það eyðir formúgu fjár í eitthvað sem það hefði ef til vill getað verið án.

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar

Ég var búinn að lofa sjálfum mér því að ég myndi ekki blogga um þetta Icesavemál en nú þegar niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar liggur fyrir og einsýnt er að hver og einn ætlar að túlka hana sér í hag get ég ekki á mér setið að koma þeim skilaboðum á framfæri að öll hafa þau rangt fyrir sér.

Ekki nenni ég að elta ólar við það hver hefur sagt hvað. Sumir halda því fram að niðurstaðan séu „skýr skilaboð um flatt nei til umheimsins – við borgum ekki“. Um það var ekki kosið. Formaður Framsóknarflokksins heldur því fram að niðurstaðan sé skýrt vantraust á ríkisstjórnina. Um hana var ekki kosið.

Kosið var um lög nr. 1/2010 um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. og þau felld úr gildi með yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem kusu, en kjörsókn var eitthvað kringum 63% ef ég man rétt. Það er eina niðurstaða kosninganna.

Valmöguleikarnir á kjörseðlinum voru já og nei og svo var möguleiki á að skila auðu. En hvað þýddu þessir valmöguleikar? Nei þýddi einfaldlega nei og var sá valmöguleiki sem beinast lá við þegar betri samningar lágu í pípunum. Já þýddi í raun nei enda styður ríkisstjórnin sjálf ekki þau lög sem kosið var um. Hefði niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verið öfugt við það sem varð hefðu Bretar og Hollendingar á hinn bóginn enga ástæðu haft til að semja neitt frekar.

Þetta er dautt val, og þess vegna var eina mögulega niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar sú sem varð. Og það er ekki einhver svakaleg davíðsk yfirlýsing um að Íslendingar greiði ekki skuldir óreiðumanna einsog amma seðlabankastjórans fyrrverandi sagði alltaf (hvaða tilefni skyldi hún hafa haft?). Niðurstaðan er ekki vantraust á ríkisstjórnina sem hefur haldið sínu fylgi gegnum þetta erfiða mál. Niðurstaðan er sú að því einfalda formsatriði var fullnægt að fella úr gildi lög sem þjónuðu ekki tilgangi sínum lengur. Þetta hefði mátt gera án þjóðaratkvæðagreiðslu, en hana fengum við eftir sem áður sem ætti að nægja til að sýna fram á að allt tal um lýðræðishatur stjórnarflokkanna eru staðlausir stafir. Og nú þegar framkvæmd slíkrar atkvæðagreiðslu liggur ljós fyrir megum við eiga von á fleiri slíkum í framtíðinni – og því hljóta allir að fagna.

Niðurstaðan er ennfremur þessi: að fyrra samkomulag um Icesave sem unnið var að í sumar og samþykkt af Alþingi stendur nú einsog spássíukrot í úreldri kennslubók í alþjóðasamskiptum. Þau lög hafa nú öðlast gildi á nýjan leik en standa ekki fyrir eitt né neitt enda samþykktu Bretar og Hollendingar ekki skilyrði þeirra laga. Það er aðeins formsatriði að fella þau úr gildi.

Hvað svosem fólki svo finnst um hvort Íslendingar skuli borga eða ekki birtist nú í gær áhugaverð könnun MMR. Vísir stillti niðurstöðunum þannig upp að helmingur svarenda vildi þjóðaratkvæðagreiðslu um þriðja Icesavesamninginn. Mér finnst öllu merkilegri niðurstaða að eftir allt undangengið sé þó helmingur svarenda sem vill að þingið afgreiði málið án aðkomu þjóðarinnar. En þetta er svosem ekki spurning um það, heldur hitt hvort forsetanum hugnist það samkomulag sem nú er unnið að, hvenær svosem það verður borið á borð fyrir hann.