Skráningarörðugleikar

Á sama hátt og mér leiðist þegar fólk spyr spurninga sem það hefði getað fundið svar við sjálft hefði það kynnt sér málin leiðist mér þegar ég spyr einfaldrar spurningar og er vísað á heimasíðu, einsog ég hafi ekki leitað af mér allan grun á sömu heimasíðu.

Til að gera langa sögu stutta tók það mig tvo daga að fá úr því skorið hvernig ég gæti sent inn umsókn í Árósaháskóla; þegar það var komið í ljós virkaði skráningarkerfið ekki. Það tók annan dag að kippa því í liðinn og þá er ekki boðið uppá umsókn í meistaranám, bara eitthvað skiptinám, diplómanám eða doktorsnám, og ég get ekki klárað umsóknina nema fara gegnum stofnun á borð við Nordplus eða Erasmus – sem ég hef engan áhuga á að gera. Svo það er útlit fyrir að það taki minnst einn dag í viðbót að finna útúr þessu. Þetta hefur kostað mig talsverðan tíma, símtal til Danmerkur og ýmislegar dönskuæfingar. Ef ég væri ekki staðráðinn í að fara væri ég búinn að gefast upp.

Varðandi nýja bloggið þá hef ég núna uppfært wordpresskerfið mitt svo síðan er ýmsum kostum búin. Allar myndir sem verða birtar á síðunni héreftir virka þannig að hægt er að smella á þær til að sjá þær stærri. Prufið myndina hér að ofan, hún er af campusnum og háskólagarðinum í Árósum. Hægramegin við gatnamótin ofanvið er Norrænudeildin til húsa. Skáhallt á móti er aðalbyggingin og útibú Landsbókasafnsins. Hinumegin götunnar eilítið til vinstri má finna bóksölu stúdenta og stúdentabarinn þarsem ég hlakka til að drekka á ný í framtíðinni.

2 thoughts on "Skráningarörðugleikar"

  1. Alliat skrifar:

    haha! Myndin þaut eitthvað off-screen þegar ég smellti á hana! 😀

  2. Hún virkar alveg hjá mér …

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *