Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar

Ég var búinn að lofa sjálfum mér því að ég myndi ekki blogga um þetta Icesavemál en nú þegar niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar liggur fyrir og einsýnt er að hver og einn ætlar að túlka hana sér í hag get ég ekki á mér setið að koma þeim skilaboðum á framfæri að öll hafa þau rangt fyrir sér.

Ekki nenni ég að elta ólar við það hver hefur sagt hvað. Sumir halda því fram að niðurstaðan séu „skýr skilaboð um flatt nei til umheimsins – við borgum ekki“. Um það var ekki kosið. Formaður Framsóknarflokksins heldur því fram að niðurstaðan sé skýrt vantraust á ríkisstjórnina. Um hana var ekki kosið.

Kosið var um lög nr. 1/2010 um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. og þau felld úr gildi með yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem kusu, en kjörsókn var eitthvað kringum 63% ef ég man rétt. Það er eina niðurstaða kosninganna.

Valmöguleikarnir á kjörseðlinum voru já og nei og svo var möguleiki á að skila auðu. En hvað þýddu þessir valmöguleikar? Nei þýddi einfaldlega nei og var sá valmöguleiki sem beinast lá við þegar betri samningar lágu í pípunum. Já þýddi í raun nei enda styður ríkisstjórnin sjálf ekki þau lög sem kosið var um. Hefði niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verið öfugt við það sem varð hefðu Bretar og Hollendingar á hinn bóginn enga ástæðu haft til að semja neitt frekar.

Þetta er dautt val, og þess vegna var eina mögulega niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar sú sem varð. Og það er ekki einhver svakaleg davíðsk yfirlýsing um að Íslendingar greiði ekki skuldir óreiðumanna einsog amma seðlabankastjórans fyrrverandi sagði alltaf (hvaða tilefni skyldi hún hafa haft?). Niðurstaðan er ekki vantraust á ríkisstjórnina sem hefur haldið sínu fylgi gegnum þetta erfiða mál. Niðurstaðan er sú að því einfalda formsatriði var fullnægt að fella úr gildi lög sem þjónuðu ekki tilgangi sínum lengur. Þetta hefði mátt gera án þjóðaratkvæðagreiðslu, en hana fengum við eftir sem áður sem ætti að nægja til að sýna fram á að allt tal um lýðræðishatur stjórnarflokkanna eru staðlausir stafir. Og nú þegar framkvæmd slíkrar atkvæðagreiðslu liggur ljós fyrir megum við eiga von á fleiri slíkum í framtíðinni – og því hljóta allir að fagna.

Niðurstaðan er ennfremur þessi: að fyrra samkomulag um Icesave sem unnið var að í sumar og samþykkt af Alþingi stendur nú einsog spássíukrot í úreldri kennslubók í alþjóðasamskiptum. Þau lög hafa nú öðlast gildi á nýjan leik en standa ekki fyrir eitt né neitt enda samþykktu Bretar og Hollendingar ekki skilyrði þeirra laga. Það er aðeins formsatriði að fella þau úr gildi.

Hvað svosem fólki svo finnst um hvort Íslendingar skuli borga eða ekki birtist nú í gær áhugaverð könnun MMR. Vísir stillti niðurstöðunum þannig upp að helmingur svarenda vildi þjóðaratkvæðagreiðslu um þriðja Icesavesamninginn. Mér finnst öllu merkilegri niðurstaða að eftir allt undangengið sé þó helmingur svarenda sem vill að þingið afgreiði málið án aðkomu þjóðarinnar. En þetta er svosem ekki spurning um það, heldur hitt hvort forsetanum hugnist það samkomulag sem nú er unnið að, hvenær svosem það verður borið á borð fyrir hann.

7 thoughts on “Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar”

 1. Bara að lífið væri svona einfalt. En litbrigði stjórnmálanna eru fleiri en regbogans… því miður. Í svart hvítum heimi væri ekki þörf á þeirri stétt manna sem kennir sig við stjórnmálafræði og hefur þann starfa helstan að túlka það sem ekki er sagt í ljósi þess sem ætla mætti að teknu tilliti til vissrsr atburðarásar að hefði getað gerst.
  Óháð því um hvað þjóðaratkvæðagreiðslan átti að snúast þá snérist hún uppí vantraust á framgöngu stjórnarinnar í icesave samningunum. Í ljósi þess verða Steingrímur og Jóhanna að íhuga stöðu sína. Varaformaður Samfylkingar er þegar kominn í kosningagírinn. en hann var að birta bloggfærslu rétt í þessu. En það er ótvírætt merki um að kosningar séu í nánd þegar þungaviktarmenn fara að dusta rykið af bloggsíðum sínum 🙂

 2. Þakka þér fyrir ágætt innlegg Jóhannes.
  Mér finnst ekki óeðlilegt að stjórnmálamenn finni sér sóknarfæri í málum sem þessum – það er þvert á móti eðlilegt að þeir reyni að koma sínu að, til þess voru þeir kjörnir. Ég held þó að fæstum verði þeim kápan úr því klæðinu og þótt varaformaður Samfylkingarinnar skrifi á bloggið sitt þá er enn langur vegur í raunverlegt pólitískt bakland. Ég hef amk ekki neinar sérstakar áhyggjur af því þótt menn yddi blýantinn endrum og sinnum.
  Ég er annars ósammála. Ég tel ekki að ríkisstjórnir eigi að segja af sér alltaf þegar mál eru felld í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er enginn sjáanlegur ávinningur af stöðugum stjórnarskiptum eftir því sem þjóðaratkvæðagreiðslur verða tíðari og fleiri mál verða felld. Þá ætti þetta að fara á hinn veginn líka, að stjórnarandstaðan segði af sér þingmennsku þegar niðurstöður atkvæðagreiðslna eru henni í óvil. Mál eru felld og samþykkt á víxl í þeim löndum sem hafa hefð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum án þess að stjórnarkreppa verði í hvert sinn og mér finnast þessi tengsl sem nú hafa verið fundin upp óþörf – það að Jóhanna og Steingrímur eigi að íhuga stöðu sína er áskapaður veruleiki en ekki raunverulegur.
  En upp að vissu marki er ég sammála þér með svarthvítu heimsmyndina – auðvitað túlkar hver eftir sínu höfði, og einhverjir kusu gegn lögunum með það í huga að þeir vildu ekki borga yfirhöfuð. En um það snerist atkvæðagreiðslan ekki, hún snerist um þessa tilteknu samningaleið. Og auðvitað fór þetta á einn veg þegar ljóst varð að betri samningur væri mögulegur. Þeir sem helst óska sér stjórnarkreppu á Íslandi gætu vel farið á mis við þá farsælu lausn sem nú gæti verið í sjónmáli ef þeim yrði að ósk sinni.

 3. Ég held að niðurstaðan sé ekki vantraust á ríkisstjórnina vegna þess að fólk kaus af mörgum ástæðum sem við getum ekkert vitað um.
  Ég þekki til að mynda mörg dæmis þess að fólk hafi sagt nei en styðji samt ríkisstjórnina.

 4. Ég vil líka bæta því við að það er mjög dónalegt að segja almenningi hvað hann var að hugsa þegar hann kaus. Ef Bjarni og Sigmundur vilja vita hvað ég meinti með atkvæði mínu ættu þeir að sýna þann lágmarks kjark að spyrja mig hvað ég átti við með því.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *