Til varnar „ungskáldum“

Árið 1952 skrifaði Sigfús Daðason grein í Tímarit Máls og menningar sem nú er kennd við Háskóla Íslands sem undirstöðurit í skilningi okkar á módernísku skáldunum á Íslandi á fyrrihluta 20. aldar og þeim forpokaða og stirnaða heimi sem mætti viðleitni þeirra. Tilefni greinarinnar var gagnrýni á atómkveðskapinn svokallaða, til að orða það pent, með öðrum orðum á óferjandi ungskáld sem annaðhvort hunsuðu eða kunnu ekki einföldustu bragarhætti, hvað þá stuðla, höfuðstafi eða reglulega hrynjandi. Og til eru þeir sem halda því fram að grein Sigfúsar hafi endanlega þaggað niður í hinni íhaldssömu bókmenntastofnun, þótt það sé að vísu eins fjarri sanni og raunveruleikinn leyfir.

Á allt öðrum nótum lét formaður Félags íslenskra bókaútgefenda hafa það eftir sér á dögunum að það væri „kostulegt að sjá ungskáldin láta eins og sovétkommisarar ákveði hverjir „fái að fara á bókamessuna í Frankfurt 2011“.“ Hér er einhver ótilgreind stærð í menginu skáld með forskeytið ung- sem Kristjáni B. Jónassyni finnst kostuleg. Sjálfsagt skellti hann sér á lær meðan ungskáldin, ung sem þau eru og eftir því bráðlát, hnakkrifust um hina vondu bókmenntastofnun sem hleypti þeim ekki til Frankfurt.

Nútildags er ósköp lítið um að skáld séu gagnrýnd fyrir það sem þau gefa út, bara svo lengi sem það rímar ekki – dæmið hefur snúist svona þægilega við – því síðan Sigfús tróð marvaðann forðum hefur það uppgötvast að það er miklu þægilegra að nefna bara ekki það sem er mönnum ekki þóknanlegt. Það er fyrst þegar ótilgreind stærð innan mengisins skáld með forskeytið ung- reynist hafa skoðanir sem nokkur hleypur til og eyðir á það orðum. Að „ungskáld“ skuli einu sinni voga sér að hafa skoðanir er fyrir neðan allar hellur, enda kemur á endanum að þeim sjálfum þegar allir aðrir eru dauðir, og þau sem gleymast verða uppgötvuð aftur á næsta 100 ára bili þaráeftir svona rétt einsog Ásta Sigurðar, Steinar Sigurjónsson og Guðrún frá Lundi á undan þeim.

Hvers vegna þá skyldi nokkur hafa opnað munninn svo gleitt að það kallaði á viðbrögð frá formanni Félags íslenskra bókaútgefenda? Tilefnið er ámóta lítilfjörlegt og skoðanir okkar ungskálda almennt þykja, en það var að þrjú ljóðskáld yrðu fengin af Íslandi til að leggja stund á norrænan sagnaarf með þrem þýskum skáldum, að svo miklu leyti sem þau yrðu fær um að spinna einhverslags ljóðaslamm á staðnum, kannski undir fornyrðislagi jafnvel – hver veit? Markmiðið var sjálfsagt enn lítilfjörlega, einhver landkynning, stoltir víkingar sem flýðu harðræði Noregskonungs til þess eins að fljúgast á hérna á einhverri eyju í miðju Atlantshafi í staðinn – og finna svo upp lýðræði í kjölfarið. Leikurinn yrði svo endurtekinn í sjálfri Frankfurt á næsta ári svo heimurinn allur mætti dást að Íslendingum, eða eitthvað í þá veru.

Mér vitandi hafði enginn áhuga á þessu verkefni, aðalatriðið var það að til okkar var ekki leitað. Til verksins voru fengin Ugla Egilsdóttir, Dóri DNA og Bergur Ebbi. Áreiðanlega standa þau sig vel, ég þekki Uglu af góðu einu en hin tvö þekki ég ekki hætishót þótt ég þekki að einhverju leyti til þeirra fyrri verka. Þá varð Eiríki Norðdahl hinsvegar það á að hefja samræðu, spyrja, af því allar samræður hefjast á spurningu. Og spurningin hljóðaði svo: „Hvers má yngsta kynslóð ljóðskálda gjalda?“ Hann spurði ekki sjálfs sín vegna, hann hefur nóg að gera, nema það þyki til marks um iðjuleysi að vera boðið að flytja ljóð á tónlistarhátíðinni í Roskilde, fyrstum íslenskra skálda. En einsog til að ramma inn þennan pistil svona um miðbikið var svar Kristjáns B. Jónassonar þetta: „Þið eruð orðnir eins og beisk atómskáld langt fyrir aldur fram.“ Það var nú nefnilega það.

Það var ekki nokkur maður að fetta fingur útí Uglu, Halldór eða Berg Ebba. Ekkert þeirra skálda sem tók þátt í umræðunni æskti þess heldur neitt sérstaklega að taka þátt í þessu, svona eftirá, enda var ekkert þeirra spurt. Flestum ef ekki öllum okkar var á hinn bóginn annt um að fá svar við spurningunni: hvers vegna einmitt þau en ekkert okkar? En umræðan varð strax að einum allsherjar skrípaleik. Og ekki stóðu viðbrögðin heldur á sér hjá þátttakendunum sem þótti bersýnilega að sér vegið, svo mjög að efnt var til gamanleiks á Gljúfrasteini sem auglýstur var í einhverju blaðinu – viðbrögð sem mér þykja miður miðað við alla ætlun og tilefni. Þar sagði Dóri DNA að grínið yrði „menningarlegra en vanalegra. Við ætlum að setja pungskáld þjóðarinnar í höggstokkinn og verður af nógu að taka, enda eru þau með stór höfuð […] Eftir sýninguna ætlum við að ganga yfir í óðalsetur foreldra minna og slá upp ærlegri, nýhilískri grillveislu. Við ætlum að grilla þvottabirni.“ Í fundarboðinu á Facebook stóð að Dóri yrði „órakaður og með hatt – að hætti ungskálda.“

Alveg ótrúleg þessi ungskáld alltaf, órökuð með sinn hatt á stórum höfðum. En tilfellið er einmitt það að það eitt nægir að Eiríkur Norðdahl, sem verður 32 ára á þessu ári og telst því tæpast ungskáld (að honum ólöstuðum) og að mér liggur við að segja táknmynd þessa ímyndaða, órakaða skálds með hatt, tjái sig um lítilfjörlegustu efni, spyrji einfaldrar spurningar, til að allt fari á annan endann. Sjálfkrafa er hann, eða í þessu tilfelli Nýhil og allir sem tengjast Nýhil á einn eða annan hátt, gerður að strámanni sem eigna má alla þá óræðu stærð innan skáldamengisins sem ber forskeytið ung-, bara ef hann vogar sér að spyrja. Og þetta vita allir. Ef þú sérð orðið Nýhil einhversstaðar eða Eirík nefndan á nafn vita allir að hér er einhver voðaleg frekja á ferðinni. Þannig hefur því þægilega verið komið fyrir, þetta vita allir og því tjóir ekki að nokkru ráði að tjá sig. Öll erum við dæmd af staðalmynd en hvorki orðum eða verkum. En hvers vegna var hinni lítilfjörlegu spurningu þá yfirhöfuð varpað fram ef niðurstaðan skipti í sjálfu sér engu máli?

Svarið er einfalt: „ungskáld“ eru hunsuð, á nákvæmlega þeim grundvelli sem ég nefndi hér að ofan. Ég vil skýra þessar gæsalappir áður en ég fer lengra: til eru skáld, hvort þau eru ung eða gömul skiptir engu máli. Eða ætti ekki að skipta máli. En „ungskáld“ er eins heppilegt hugtak og þau verða til þess að lýsa einhverju afmörkuðu sem á ekkert uppá dekk með sínar skoðanir. Þetta eru ung skáld, þau eru ekki þroskuð, þau eru bráðger og hafa ekki ennþá lært að hafa ekki skoðanir.

Ungskáld eru hunsuð. Bækur þeirra fá ekki umfjöllun í blöðum, netmiðlum eða í sjónvarpi – Víðsjá á Rás 1 gerir sitt besta en lengra nær það ekki. Bækur þeirra eru með öðrum orðum ekki til hvað væntanlega lesendur snertir. Ungskáld eiga heldur ekkert aðgengi í launasjóð rithöfunda. Ungskáld eiga ekkert erindi hvað þá heldur niður á forlög með pínuponsulitlu handritin sín. Þau ungskáld sem á annað borð fá tilfallandi umfjöllun eru með dæmafáum undantekningum jörðuð af gagnrýnendum án rökstuðnings. Ár eftir ár eftir ár. Síðustu tvær bækurnar mínar fengu enga teljandi umfjöllun. Síðustu jól voru ljóðabækur ekki einu sinni dæmdar að hérumbil þrem bókum undanskildum. Og maður hlýtur að spyrja sig af hverju. Við sem stöndum að Kistunni gerum okkar besta en það hrekkur ærið skammt verður að játast.

Svo gerist það ótrúlega að orðið ljóðskáld er notað í samhengi við Sagenhaftes Island. Nema þegar nánar er að gætt þá voru ekki fengin nein ljóðskáld, heldur grínistar (að þeim ólöstuðum enda virðist ekki vera hægt að segja það nógu oft án þess að menn stökkvi sér uppá nef!). Það er von að maður spyrji sig, eða hvað finnst formanni Félags íslenskra bókaútgefenda? Er óeðlilegt að spurt sé svo flókinna spurninga? Eigum við heldur að spyrja vinsælli spurninga einsog þeirrar hvort ljóðið sé dautt og gráta svo saman við kertaljós meðan við lesum hverju öðru sonnettur og sötrum latté á prjónakaffi í Kópavogi? Til hvers er eiginlega ætlast af þessari óræðu stærð innan alls þessa veruleika sem Kristján er svo mikið burðarvirki í, okkur þeim sem berum forskeytið ung-? Ef við og skoðanir okkar og spurningar erum svo lítilsvirði, einsog skilja mætti af orðum Kristjáns í þessari furðulegu umræðu, að andsvör okkar þykja honum ekki einu sinni svaraverð, hvað er það þá sem hann vill að við gerum? Hefur hann yfirhöfuð áhuga á annarri bókaútgáfu en þeirri sem hann sjálfur stendur fyrir?

Ef Kristjáni B. Jónassyni finnst við í raun og sann vera einsog bitur atómskáld „langt fyrir aldur fram“, bara enn eitt grenjandi sniðmengi þýðisins skáld með forskeytið ung- í stað atóm-, þá er það ekki viðhorf sæmandi hans stöðu innan bókmenntaheimsins. Það er beinlínis fjandsamlegt skáldskapnum og skáldunum. Og það er illa að þeim vegið þegar öll eru þau felld undir sama hatt með ódýrum málflutningi vegna spurningar sem óþægilegt þykir að svara. En við megum á hinn bóginn þakka Kristjáni fyrir að færa okkur sanninn heim um að þrátt fyrir allt var þó tilefni til að spyrja. Við vitum þá í það allra minnsta að vel yrði við unað þótt engin ungskáld kæmu framar á sjónarsviðið, því svo virðist vera sem það megi alltaf grafa upp einhvern annan í staðinn.

birtist á Kistunni 16.5.2010.

2 thoughts on “Til varnar „ungskáldum“”

 1. ,,Af hverju þau?“
  Af hverju ekki?
  Eru þetta ekki þokkalega virtir listamenn – ungskáld – sem öll þykja fær á sínu sviði?
  Síðan finnst mér hæpið að kalla þau ,,grínista“. Skynja ég hroka? Að kalla þau þrjú grínista finnst mér ekki ósvipað því að kalla ykkur Eirík bloggara.

 2. Þetta eru þokkalega virtir listamenn jú. En þau eru ekki ungskáld, ekkert þeirra hefur tekið til sín á sviði ljóðlistar, nema Bergur Ebbi að vísu sem er nú að gefa út sína fyrstu bók.
  Þau eru grínistar vegna þess að þau koma fram sem grínistar og hafa gert um nokkurt skeið og tilheyra öll sama hópi sem kallast Mið-Ísland.
  Það er ekki hrokafullt að benda á að við sem höfum staðið í ströggli í þessum geira í þónokkur ár, ég í fimm – að til okkar sé ekki leitað þegar leitað er að ungskáldum. Hvar er hrokinn í því?
  Og einsog ég sagði í greininni, þá er ég ekki að gagnrýna þau. Þau munu áreiðanlega sinna þessu vel og gera sitt allra besta. Hvers vegna gera allir ráð fyrir því að gagnrýnin beinist að þeim?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *