Kúkulúkur og Gardaland

Á Ítalíu 1989 voru í sjónvarpinu skemmtiþættir sem ég gæti ekki munað hvað hétu til að leysa höfuð mitt. Þáttastjórnandinn var klæddur í safarígalla og eitthvert hundskvikindi af sokkabrúðu stýrði þáttunum með honum. Stundum var kona í stað mannsins, klædd sama safarígalla, og stundum voru þau tvö saman, en okkur fannst konan ekkert skemmtileg. Við bræður dáðum hinsvegar þennan hund þótt líklega muni hvorugur nú hvað hann hét.

Þættirnir voru hreinn og klár áróður sem miðuðu að því einu að börn sannfærðu foreldra sína um ágæti þess að sækja heim Gardaland, skemmtigarð við hið margrómaða Gardavatn (þar sem Kristján Jóhannsson bjó). Pabbi þoldi ekki þáttastjórnandann, sem í minningunni hefði að vísu allteins getað verið Bog Saget, og uppnefndi hann Kúkulúkur eftir sínu hárbeitta skopskyni. Eftir orðhlutafræði mætti greina fyrri liðinn sem orðið kúkur án karlkynsbeygingarendingarinnar -r, og seinni liðinn sem einskonar herðandi og jafnframt niðrandi aðskeyti. Kúkulúkur var semsé ekki hátt skrifaður.

En í hvert sinn sem Kúkulúkur og hans dýrðlega hundskvikindi birtust á skjánum hrópuðum við bræður af ákefð: Kúkulúkur og Peppito! (ég gef mér bara það nafn á hundinn) af því við vissum að pabbi myndi stynja af vandlætingu. Kúkulúkur var svosem ekkert hátt skrifaður hjá okkur bræðrum heldur en hundurinn gerði það allt þess virði. Hundurinn var hreint út sagt frábær, og vatnsrennibrautirnar sem hann af kapítalísku innsæi innprentaði okkur að væru merkilegri fyrirbæri en píramídarnir við Giza urðu okkur að áþreifanlegu markmiði í lífinu til að falast eftir.

Svo kom að lokum að foreldrar okkar gáfu eftir og við fórum öll til Gardalands. Þar tapaði ég skó í hendur hins illa Frankensteins og sárgrét megnið af tímanum. Drumbaferðin eftir vatnsbrautinni var hinsvegar nokkuð skemmtileg. En hvergi sáust Kúkulúkur eða Peppito neinstaðar nálægt. Það olli mér sárum vonbrigðum, en bróður mínum virtist sléttsama um það. Í draugalestinni hélt mamma fyrir augun á honum alla ferðina hinsvegar svo ég varð einn um að upplifa þann hrylling að sjá beinagrindur sveifla sér í veg fyrir lestina okkar. Ég minnist þess ekki að hafa orðið neitt hræddur.

Gardaland uppfyllti allar okkar væntingar um skemmtun sem venjulegir leikgarðar áttu ekki séns á, en á hinn bóginn saknaði ég ákaft nærveru þeirra Kúkulúks og hundsfyrirbærisins hans. Í dag átta ég mig á að ég vissi ekki einu sinni hvað maðurinn hét og man ekki lengur fyrir mitt litla líf hvað hundurinn hét, þótt Peppito sé sjálfsagt nálægt því. Og það sem meira er, ég átta mig á um leið og ég minnist þessa að ekkert af þessu skipti nokkru einasta máli. Þannig fer líklega um flestar manns bernskuminningar.

Viðbót: Alli kann að hafa fundið þáttinn:

3 thoughts on “Kúkulúkur og Gardaland”

  1. Haha, nei. Þeir voru sýndir á Ítalíu. Einsog sannur heimsborgari ólst ég upp í tveim löndum. Þetta er vænt sýnishorn af því hverslags menningarbragur er á ítölsku barnaefni.
    Þetta er sannarlega hresst, ég trúi varla lengur að ég hafi horft á þessa þætti. Pabbi staðfesti fyrir mér að þetta er vissulega sama prógramm. Ég er enn engu nær hvað hundurinn heitir, en mikið er hann töffaralegur!

Skildu eftir svar við Alliat Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *