Ögn meir um kúltúr, án teljandi sjokks þó

Að sama skapi og þegar ég segi að Þjóðverjar séu upp til hópa grútleiðinleg þjóð þá hef ég í raun réttri aldrei orðið fyrir kúltúrsjokki í Danmörku. Eiginlega hef ég aldrei orðið fyrir neinu raunverulegu kúltúrsjokki neinstaðar. Mest framandi land sem ég hef komið til er Marokkó en það var öðruvísi á spennandi hátt.

Vissulega sló þar mig kona í andlitið fyrir þær sakir einar að halda á myndavél, og í kjölfarið reyndi hún að rífa hlýrabol utanaf einni stelpunni í ferðinni, að ég vænti til að sýna fram á hversu mikil skækja hún væri fyrir að klæða sig svona lauslega. Þar hjó maður líka höfuð af lifandi kjúkling úti á götu og hrækti á eftir mér.

Ferðamönnum Úrvals útsýnar var að minnsta kosti á þeim tíma bannað að versla við fólkið, svo gremjan vænti ég var sprottin þaðan. Þá voru þar einnig hermenn frá ýmsum afríkuríkjum sem stóðu vörð eftir endilangri verslunargötunni sem lá beint að höll konungs sem þá var þar staddur í Tetuan. En kúltúrsjokk var það þó ekki; eiginlega kom fátt á óvart. Og það er varla talandi um kúltúrsjokk nema maður búi í viðkomandi landi til lengri tíma og eigi erfitt með að aðlagast að því marki að maður hvorki skilur né kann við sið heimamanna.

Ég set þess vegna alla fyrirvara á síðustu bloggfærslu; henni var á engan hátt ætlað að vera greinandi, djúp eða alvarleg. Það eina sem er ófyndnara en lélegur brandari er þegar maður segir „djók“ en stundum er betra að bara segja það svo fólk haldi ekki að maður sé fífl.

Eitt er þó það sem mér þykir framandlegt við Danmörku, ekki á þann hátt þó að ég skilji það ekki eða þyki það beinlínis til skammar, en það er munurinn milli Danmerkur – og sjálfsagt annarra Norðurlanda – og Íslands, þegar kemur að sambandi barna við fullorðinsheiminn. Allmargir vinir mínir á Íslandi eiga börn og kæmi ekki til hugar að opna bjór meðan barnið er vakandi, hvað þá heldur taka börnin með á djammið.

Í Danmörku hef ég þó þrisvar og jafnvel oftar verið í partíi þarsem börn voru lifandi partur af herlegheitunum. Og drukkið fullorðið fólk hefur leikið sér við börnin, milli þess sem það fer út á svalir og kveikir sér í hasspípu, og staupar sig svo á ákavíti og bjór. Fyrr en síðar sofnar barnið meðan foreldrarnir halda áfram að drekka sig fulla. Þetta þykir alls ekkert tiltökumál í Danmörku, og ekki vil ég beinlínis gagnrýna það heldur, þótt áreiðanlega sé ekkert til sem heitir sniðugt við þetta. En fólk sem þar eignast börn og hefur engan til eða vill ekki að neinn passi þau fyrir sig meðan það fer út á lífið, þannig kemur það félagslífinu að.

Svo ef talandi væri um kúltúrsjokk yfirhöfuð þá væri það líklega þetta. En meðan ég hvorki stend skilningslaus gagnvart því né er sérlega sjokkeraður, þá flokkast það heldur ekki með. Þá er rétt að taka fram að þetta er ekki tilraun til að analýsera neitt. Ég nota bloggið langtum meira bara til að hugsa upphátt.

2 thoughts on “Ögn meir um kúltúr, án teljandi sjokks þó”

  1. Þó svo að það sé algjörlega rétt hjá þér að í Danmörku þyki ekkert tiltökumál að hafa áfengi um hönd þegar börn eru nálæg (eins og vera ber) þá held ég að þetta gildi ekki almennt um Dani. A.m.k. hef ég bara upplifað þetta sem þú lýsir í þessum sömu partýum og þú…. ég held alls ekki að þetta sé algilt. Svo kannski á „kúltúrsjokkið“ eftir að minnka hjá þér ;o)

  2. Það held ég sé alveg rétt hjá þér, þetta er varla algengt. Í Finnlandi tíðkast að foreldrar og börn fari í sauna nakin saman, og það breytist ekkert þótt börnin vaxi úr grasi. Þannig bara er það. Á nojaða Íslandi væri það frágangssök, einsog svo margt annað sem er algerlega rangt hér en er í lagi undir réttum kringumstæðum annarsstaðar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *