Matreiðsla fyrir fólk

Matreiðslublogg eru óhemjuleiðinleg. Það er einsog að horfa á matseðil með götótta vasa, eintóm fífl að monta sig af þeirri snilld sem þeir geta framreitt á augabragði en þú munt aldrei fá að smakka. Svo veit ekki nokkur heilbrigður maður hvað kúrbítur er. Hvað í fjandanum er capers? Hver djöfullinn er focaccia? Hver er munurinn á basil og steinselju? Hverjum er ekki drullusama.

Þess vegna ætla ég að opna matreiðsluhorn fyrir þá sem vilja bara éta og er skítsama hvað hlutirnir heita. Fyrsta uppskriftin er að awesome samloku.

Þú steikir þrjú egg í brauði (skilgreining: franskbrauð steikt með eggi í gati í miðjunni á snarkandi heitri pönnu uppúr ólífuolíu eða smjöri), léttkrydduð með pipar og salti á báðum hliðum. Svo steikirðu þrjár beikonsneiðar á hvert brauð. Þá seturðu rauðkál á hverja sneið og beikon ofan á það. Svo raðarðu sneiðunum saman í awesome samloku.

4 thoughts on “Matreiðsla fyrir fólk”

 1. Hvað er egg? Hver er munurinn á ólífuolíu og smjöri? Er piparinn þetta svarta eða er það saltið? Á hvorri hliðinni á brauðinu er sneiðin?
  Af hverju lærirðu ekki bara að elda mat og hættir þessu væli?
  Annars væri merkileg stúdía að kanna hvers vegna svona margir ungir karlmenn éta ekkert nema varíanta af samlokum. Hefur kannski að gera með hversu margir þeirra telja (ómeðvitað, kannski, erfðaminni, jafnvel) að þegar fram líði stundir muni einhver annar elda ofan í þá og þeir þurfi því aldrei að læra að búa til annað en samlokur – sem er líklega sá matur í heiminum sem einna helst segir sig algerlega sjálfur.
  Sjálfur lærði ég ekki að elda af neinu viti fyrren að ég gifti mig. Ef þú hefðir spurt mig 2006 hvort að ég kynni að elda hefði ég vafalaust sagt já – en eftir á að hyggja hafði ég einfaldlega ekki rétt fyrir mér. Ég kunni ekkert að elda. En í dag er fátt sem veitir mér jafn mikið og að þramma út um allan bæ í leit að einhverjum exótískum tælenskum kryddum og grænmeti til að henda í wokið um kvöldið. Og ekki er verra að geta boðið fólki í mat.
  Ég hef nota bene ekkert á móti góðum samlokum, og þessi þarna hljómar alveg þrælvel. En segðu mér – er röðin beikon-rauðkál-beikon? altso tvö lög af beikoni? og leggurðu svo sneiðarnar saman og færð út fjögur lög af beikoni og tvö af rauðkáli? Nei, bíddu nú við – þetta eru þrjár brauðsneiðar. Tveggja hæða sammari? Og þá altso átta lög af beikoni – alls 24 sneiðar – og fjögur lög af rauðkáli? Er þetta rétt skilið hjá mér? Og ef svo er, hvers vegna að stoppa hérna? Hvers vegna dýfirðu ekki helvítinu í hnausþykkt súkkulaði og djúpsteikir síðan herlegheitin og berð fram með mörblönduðu majonesi og einsog einu kílói af rjómaís?

 2. Þessi samloka hljómar í fyrsta lagi ekki eins og samloka, og í öðru lagi hljómar hún eins og megnasta viðurstyggð. Ég veit muninn á steinselju og basilíku, finnst kúrbítur fínn og capers ómissandi með tartar og fleiru. Ég tala nú ekki um ef maður hefur ilmandi og nýbakað foccacia með. Og nota bene er þetta allt saman eflaust ódýrara en egg og beikon í stórmarkaði, svo ég skil ekki alveg vasagatssamlíkinguna.

 3. Djöfull eruð þið leiðinlegir að benda á hrokann í mér 🙁
  En glaður skal ég svara því til að ég steiki þrjár beikonsneiðar per brauðsneið. Set rauðkál ofaná sneiðina og svo beikon og svo aðra sneið ofaná. Þetta er sannarlega alger viðbjóður. En bragðast ágætlega þó, og mettar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *