Bölvanir hafa gegnum mannkynssöguna lagst yfir heilu löndin og ættliðina, stundum hafa þær hvílt á verðmætum gripum og jafnvel einstaka gæluverkefnum. Hollywood hefur séð sinn skerf af slíkum bölvunum að menn segja og líklega er frægust þeirra sú sem sögð er hvíla á Supermanvörumerkinu (George Reeves, Christopher Reeve – tilviljun?).
Ein þeirra bölvana sem Hollywood hefur þurft að kljást við með ærnum tilkostnaði og dauðsföllum á sér raunar tvær útgáfur sem lifa samhliða einsog óafvitandi hvor af annarri. Það gengur jafnvel svo langt að á vefsíðunni Cracked, sem kalla mætti skeptískt en gamansamt fróðleiksrit, eru báðar útgáfur til hvor í sinni greininni án þess að nokkur hafi orðið þess var svo ég fái séð.
Útgáfur sögunnar eru nefnilega nær nákvæmlega eins að því undanskildu að ýmist er bölvunin tengd við kvikmyndirnar Atuk eða A Confederacy of Dunces, sem aldrei tókst að gera. Allir leikarar sem þegið hafa aðalhlutverkið í þessum myndum hafa dáið skyndilega, og flestir þeirra eru í hvorri gerð sögunnar þeir sömu. Bölvunin mun þannig í hvoru tilfelli fyrir sig hafa orðið John Belushi, John Candy og Chris Farley að aldurtila (óháð lífsstíl þeirra býst ég við).
Að sama skapi og við megum þakka fyrir að allir þrír leikarar hafi þáð hlutverk í sömu tveim bölvuðu myndunum og þannig sparað okkur að missa enn fleiri gamanleikara á einu bretti, t.d. Steve Martin eða Rick Moranis (hah, djók), þá hlýtur það að teljast ansi óheppilegt fyrir leikarana að jafnvel þótt þeir hefðu hafnað öðru hlutverkinu hefðu þeir drepist samt sem áður, svolítið einsog að finna Tutankamon tvisvar.
Í kaldhæðnislegri fléttu hefur Hollywood þó framleitt mynd sem fjallar nokkurn veginn einmitt um það: The Mummy 2. Þegar öllu er á botninn hvolft eru það líklega svoleiðis myndir sem er mesta bölvun Hollywood á síðari árum. Blessunin felst á hinn bóginn í bölvuninni. Ef þeir þá finna nokkru sinni fjármagn til að klára A Confederacy of Dunces með Will Ferrell í aðalhlutverki.