Internetið er ennþá á leiðinni. Á meðan gengur danska lífið sinn vanagang. Í dag reyndi náungi að flýja strætóverðina. Stór mistök. Verðirnir eru hvorutveggja beljakar og fráir á fæti. Síðasta sem ég sá af honum hélt annar vörðurinn honum fast upp að húsvegg. Hvorugum virtist sérlega skemmt. Síst af öllum sá sem vildi spara sér fargjaldið.
Indverskur vinur Christians vinar míns, Abhishek nokkur, er að leita sér að litlu einbýlishúsi. Ef hann finnur svoleiðis, sem er ekki alveg það einfaldasta, get ég fengið íbúðina hans í Risskov, sem er á besta mögulega stað. Þarmeð væru heimilisvandræðin leyst. En á meðan held ég áfram að leita.
Núna sit ég skítþunnur á Ris Ras eftir heljarmikið partí á kampus í gær og nenni engu. Það sem hefst með rauðvínsflösku inni á doktorskontór með Mathiasi, Bergdísi og fleirum er líklegt til að enda einmitt svona. Mér er skapi næst að fara á kojufyllerí og vídjó en veðrið er eiginlega of gott til þess.
Mest langar mig samt til Kaupmannahafnar að sjá Sissekellinguna, en ég hef plön á mánudaginn svo það er ekki alveg inni í myndinni – þá klárar Moesgårdliðið prófin og ég hef mælt mér mót við þau nokkur. Ég á hvort eð er eftir að fá stúdentakortið mitt og án þess kostar túrinn helmingi meira. En ég er þó kominn með kennitölu, svo ég er orðinn hálfur Dani. Húrra fyrir því.
Kannski maður leggi sig bara í grasagarðinum með nokkra kalda. Það þykir ekki rónalegt hér í Danmörku. Svo er höfnin og ströndin og skógurinn og áin. Endalausir möguleikar til að setjast undir sólinni og finna andvarann leika um þunnan kroppinn. Svo er alltaf hægt að skoða meira. Þegar Christian kemur frá Skanderborg að helgi liðinni ætlar hann að sýna mér fallegu blettina í gettóinu. Já, þeir munu víst vera nokkrir, þótt þeir séu ekki auðsæilegir svona á yfirborðinu.
Svo kemur Jón Örn bráðum til Danmerkur. Ég sé fyrir mér þriggja daga fyllerí með honum og Sissekellingunni í Kaupmannahöfn af því tilefni. Nema þeir vilji leggjast í gettóinu. Það eru til verri staðir.