Það hlaut að koma að því að krakkarnir á kollegíinu segðu farir sínar ekki sléttar af heimafólki. Tvö þeirra voru að ganga heim að kvöldi og fimm krakkar eltu þau. Einn þeirra vatt sér svo upp að þeim og heimtaði allt sem þau ættu. Strákshluti parsins svaraði að eigin sögn: En þú ert bara krakki! og hélt leiðar sinnar. Það varð ekkert meira úr því. Hann gat þó ekki sagt mér sirka hversu gamlir þessir krakkar voru, en sagði að fimm hefðu verið alveg nóg til að berja sig í buff. Fyrst svo er þá hefðu þeir áreiðanlega rænt hann ef það hefði raunverulega verið markmiðið. Nema þeir hafi bara verið að prufa hvort það virkaði. En maður lendir nú í öðru eins í Fellunum.
Í gærkvöldi sannreyndi ég að tölvan mín er ekki í lagi eftir bjórgusuna svo ég hringdi í strákinn. Hann ætlar að kanna hvort hann sé tryggður fyrir bjórhryðjuverkum og láta mig vita. Að öðrum kosti borgar hann bara reikninginn þegar tölvan kemur aftur úr myrkviðum Kaupmannahafnar. Fyrir vikið þarf ég að kaupa bakpoka svo ég geti dröslað gamla pésanum mínum um. Ég hafði þá forsjálni að flytja hann töskulausan með mér hingað.
Eftir mikið strætóvesen hef ég enn ekki farið í Rúmfatalagerinn en ég rakst þó á hverfi skammt frá Háskólanum og Gamla bænum sem mig langar að stefna á að flytja í. Það heitir Hasle og er það fallegasta sem ég hef séð utan miðbæjarins hérna. Áreiðanlega kostar eftir því að búa þar en ég ætla að kanna möguleikana, svona áður en ég æfi Eastwoodröddina ef vandræðaunglingarnir í Brabrand eru ekki að grínast með peningaleysið. Annars er ólíklegt að maður lendi í nokkru ef maður talar dönsku og hegðar sér ekki einsog algjör túristi.
Veðrið er loksins orðið gott aftur, 21 gráða og hálfskýjað. Sjávargolan gerir að verkum að ég get vandræðalaust gengið um í jakka án þess að verða of kalt þegar sólin hverfur. Konan sem þreif klósettið mitt kom aftur í dag og þreif restina af íbúðinni. Hún virtist ekkert kát með það og var ekkert sérlega vandvirk heldur. En hún náði mestu drullunni. Þá þarf ég bara að kaupa hreinsilög og ná afgangnum sjálfur. Skrifborðið er einnig komið í lag og gluggalásinn verður lagaður í dag. Stráknum frá Alþjóðaskrifstofunni virtist brugðið yfir virkinu sem ég bý í enda þurfti ég bæði að hleypa honum inn um framhliðið og út aftur. Þetta hafa menn uppúr því að hola fólki niður í þessum fínu íbúðum þeirra án þess að hafa nokkra einustu hugmynd sjálfir um hvernig er umhorfs.
Ef ég hefði ekki verið í góðu skapi hefði ég boðið hann velkominn í gettóið. Ég flyt út undir eins og ég get, sem gæti orðið eftir nokkurn tíma, bara eitthvert þar sem eru sæmilegar íbúðir. Mig langar til Hasle en sé það svosem ekki alveg gerast. En maður veit þó aldrei.
Brabrand? Brabra And? hahaha!
Ég vildi að það væri eins krúttlegt og það hljómar.
When you order frogs legs at a restuarant what do they do with the rest of the frog ? – Well surely they just throw the rest of the frog away and take it to the tip.