Jysk sengetøj

Ég vaknaði í morgun við að kona kom til að þrífa hjá mér klósettið. Ég spurði hana hvort hún vildi þá ekki þrífa restina af íbúðinni. Þá hrópaði hún: Clean! TOILET! svo ég lét þar við sitja. Ég er enn að berjast við kontórinn. Auðvitað ber þeim að skila íbúðinni hreinni. Og ég heimta aukahúsgögn í sárabætur. Þá hef ég sent lista yfir allt sem er að íbúðinni og ég vil að verði lagað, í öllu falli verði það ekki dregið af tryggingunni minni.

Þá hef ég skráð mig inn í landið og fæ kennitölu á föstudag. Og ég er líka kominn með síma: (+45) 4114 8333. Símanúmer er nauðsynlegt til að fá internettengingu svo ég sótti um hana undir eins og ég hafði fengið númerið. Sit núna á Undermasken að venju. Rigningin hefur ekki skánað og það er ansi deprímerandi eftir blautan dag að koma heim í algjöran viðbjóð. Á eftir kaupi ég hreingerningarvörur og mat. Ef kontórinn kippir þessu ekki í liðinn á morgun þá þríf ég bara sjálfur. Ég get ekki búið svona lengur. Svo sendi ég kontórnum bara reikning.

Á leiðinni á skólaskrifstofurnar í dag rakst ég á Rúmfatalagerinn við Silkeborgvej, eða Jysk sengetøj einsog hann heitir víst á dönsku. Þangað fer ég á morgun að kaupa sæng og meðfylgjandi. Sé því fram á þriðju nóttina undir Ikeateppinu mínu.

Eitt gleymdi ég að minnast á en það voru tíbetsku munkarnir tveir í vélinni hingað út. Það væri ekki í frásögur færandi nema annar ferðaðist á fyrsta farrými en hinn á lókal. Samt voru þeir saman. Samkvæmt trúnni mega þeir þó ekki eiga neitt hefur mér alltaf skilist. Þess vegna fannst mér svolítið fyndið að sjá munk ferðast á fyrsta farrými með allt sitt fótapláss og toppþjónustu, meðan félagi hans hýrðist aftur í og borgaði 600 krónur fyrir eitthvað ógeðslegt croissant með skinku og osti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *