Í heila viku hef ég varið hálfum deginum á börum Árósa svo ég komist á netið. Ég fæ svona 30 tölvupósta á dag og sumum þarf að svara, svo ég kemst ekki undan.
Rigningin undanfarna viku hefur samkvæmt Politiken valdið því að vatn hefur runnið frá óæðri stöðum og flætt yfir grunnvatnið. Eftir minni vanalegu heppni varð ég ekki var við fréttaflutning af þessu svo ég hef drukkið og baðað og tannburstað mig uppúr E-Coli smituðu vatni í tvo daga. Frekar hefði ég drukkið frágangsvatn Jónínu Ben. Sjálfsagt meira um það á Smugunni von bráðar.
Einhversstaðar heyrði ég svo að Meistarar og lærisveinar væru í fjórða sæti metsölulista einhverrar bókabúðarinnar. Það gladdi mig. Pétur Gunnarsson og Þórunn Hrefna mættu svo í Kastljós um daginn að ræða bókina. Ég hef ekki séð þáttinn en ég get ekki ímyndað mér annað en þau hafi verið flott. Leitt fyrir sjálfan mig að vera ekki á staðnum til að fylgja verkinu eftir. En ég á raunar flugmiða ef Kiljan vill fá mig. Það væri tækifæri til að sækja allt draslið sem ég gleymdi á Íslandi.
Á næsta ári verða þingkosningar í Danmörku og Radikale Venstre eru byrjuð að bombardera strætóskýli með skilaboðum um að innflytjendur séu þarfaþing og kennarar frekar töff. Ég hef ekki séð auglýsingar frá öðrum flokkum en þess verður varla langt að bíða fyrst þau eru komin af stað, og að sjálfsögðu fylgist ég með þótt möguleikarnir á að ég fái nokkru sinni að kjósa til þingsins séu ærið litlir.
Mikið andskoti venst annars vel að reykja aftur á börum. Á Ris Ras er hægt að leigja vatnspípu og það gerist nær aldrei að minnst ein sé ekki í notkun hverju sinni. Þetta líst mér á.