Heimsveldi tímastjórnunar

Eftir vikubið hringdi ég í internetfyrirtækið Telia Stofa. Þeir könnuðust ekki við neina pöntun á háhraðatengingu svo ég pantaði gegnum síma. Þá kemur í ljós að háhraðatenging er ekki möguleg þráðlaust svo ég pantaði venjulega þráðlausa tengingu í staðinn. Hún kemur eftir viku. Helv.

Það hjálpar dönskunni minni að enginn hjá Jyske Bank kann eða vill tala ensku (ég tala alltaf ensku á stöðum þar sem ég óttast hræðileg tæknihugtök sem ég skil ekki einu sinni á íslensku). Þar var mér boðið upp á „byrjendareikning“ sem minnir óhugnanlega mikið á Startkortin hjá Sparisjóði vélstjóra í gamla daga. Þau virka bara í hraðbönkum Jyske Bank en eiga að virka í verslunum líka. Rosalega smart bisnessmódel að láta innflytjendur fá hálfgagnslaus kort.

Hlaupið milli kontóra dregur svolítið úr manni vindinn. Til að geta sótt um íbúð á kampus (mynd meðfylgjandi færslu skoðist með orðunum „eigum við að ræða það eitthvað eða?“) þarf ég stúdentakort. Til að fá stúdentakort þarf ég kennitölu. Til að fá hana þurfti ég að fara í ráðhúsið og borga 52 krónur. Stúdentakortið fæ ég eftir eina til tvær vikur. Sem þýðir að þá get ég sótt um íbúð á kampus. Sem þýðir að áreiðanlega kemst ég aldrei í íbúð á kampus. En maður gerir þetta nú samt.

Danir eru ekki sérlega alræmdir fyrir dagbókarlífsstílinn þótt þeir ættu að vera það, og ég hef þegar orðið fyrir barðinu á þessum stórfurðulega ofurskipulagða lífsmáta þessa rúmu viku hérna. Ég ætlaði að hitta vini úr fornleifafræðinni í vikunni en svo í gær fékk ég skilaboð þess efnis að þau yrðu á tilteknum stað á föstudaginn klukkan þetta og ég væri velkominn ef ég kæmist. Aðrir vinir skipuleggja hálfa eða heila viku fram í tímann. Og þeir afsaka sig í bak og fyrir alveg miður sín ef þeir voga sér að hringja samdægurs. Ef ég býð einhverjum í bjór heyri ég skrjáfið í dagbókinni hinumegin símans. Dagbókin er heilög.

Það er ekkert skrýtið að stelpan hjá Jyske Bank hafi beðið mig að koma aftur á morgun nákvæmlega klukkan þrjú til að sækja reikningsupplýsingarnar mínar og að náunginn hjá Telia Stofa hafi skráð heim til mín tæknimann á bilinu 12 og 15:30 næsta þriðjudag. En það er undarlegt að ungt fólk skipuleggi tímann sinn svona nákvæmlega. Það mætti halda að það væri beinlínis streituvaldandi að fylgja svo nákvæmu plani fyrir sérhvern dag. En einhvern veginn virka Danir alltaf afslappaðri en maður á að venjast.

4 thoughts on “Heimsveldi tímastjórnunar”

  1. Trúlega dregur það úr streitu að hafa líf sitt svona ofurplanað. Og sennilega ættu stressbúnt eins og ég að prófa þetta. Eða ekki.

  2. Eg VEIT!!! Ad sumu leyti var eg ad deyja i DK, mer lidur ad sumu leyti betur i afriskum tima. En eg var lika i lydhaskola, sem er helviti!

  3. Ó, en gaman að frá besked frá Lóbu! Mér finnst samt að sjálfsögðu enn að þú eigir að koma hingað. Hér er flest frábært þótt það sem rati á síðurnar sé flest af hinum toganum.
    Annars hef ég alltaf heyrt að lýðháskólar séu svo skemmtilegir …

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *