Achmed og álagið

Ég hef ekkert skrifað í viku, finnst ég varla geta skrifað neitt af neinu sérstöku viti um það stúss sem ég hef staðið í að undanförnu.

Það tók mig átta daga, margar strætóferðir, uþb 3000 króna símreikning og tæknimann sem skipti um innstungu hjá mér til að fá netið heim. Nenni varla að nota það eftir að ég fékk það.

Svo var vesen í uppsiglingu með áætlaðan einingafjölda á önninni og skrifstofan kom alveg af fjöllum. En mér skilst það sé lítið mál að greiða úr því. Þá var ég nýstiginn uppúr magakveisu sem að líkindum hefur eitthvað að gera með veirusýkt vatn í Árósum.

Það í bland við misheppnaða íbúðaleit – vegna þess að mér hundleiðist niðurnídda hverfið mitt, fólkið sem ég bý með og fjarlægðina frá öllu skemmtilegu – var alveg að gera mig geðveikan. En núna ætla ég að reyna að taka hlutunum af meiri ró.

Svo er ýmislegt jákvætt í farvatninu líka ólíkt grunnvatninu. Ég hitti Jón Bjarka óvænt í miðbænum og Jón Örn er kominn aftur til Danmerkur. Svo byrjar skólinn senn og í dag fékk ég keypta ginflösku af bestu sort á sem nemur 2500 krónum íslenskum.

Ég held áfram að fá unglinga innum gluggann að sníkja sígarettur og í gær talaði ég við einn sem heitir Achmed. Hann gerðist svo djarfur að koma alla leiðina inn og spyrja um sígarettur og hvort hann mætti skoða fésbókina sína hjá mér. Hann fékk þrjár sígarettur uppúr krafsinu og sýndi mér tyrkneska stelpu í Óðinsvéum sem hann er skotinn í.

Svo rak ég hann út svo ég gæti sett punktinn við fyrsta Smugupistilinn minn. Hann ætti að birtast á næstu dögum.

3 thoughts on "Achmed og álagið"

 1. Guðrún Ásbjörnsd skrifar:

  Mér þykir þolinmæði þín allnokkur. Er hrædd um að ég yrði lítið hrifin af gestum sem inn um gluggann koma. Sennilega er ég orðin of gömul til þess að hafa gaman af slíku:)
  Engu að síður er gaman og forvitnilegt að fylgjast með þér.
  Hafðu það gott í Danaveldi – gættu þín samt . . . á vatninu !
  Kveðja
  Guðrún

 2. Takk fyrir það! Gaman að fá þig hérna inn, endilega kíktu sem oftast 🙂
  Ætli ég megi ekki annars þakka íslenska menntakerfinu fyrir þetta jafnaðargeð mitt.

 3. Alliat skrifar:

  Bíddu, hvað er þetta einhvers konar lúgusjoppa sem þú býrð í? Rekur sótsvartur almúginn bara sitt skítuga höfuð inn um gluggann hjá þér og heimtar hluti? o_O

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.