Fyrsti skóladagur

Þá er fyrsti skóladagurinn búinn. Það var gaman að hitta suma krakkana aftur, ég sit í bekk með Tatjönu, Deboruh og áðurnefndum David hinum spánska í tímum hjá góðkunningja okkar Rolf Stavnem. Kúrsinn er bæði fyrir BA og MA nema og annar Spánverji í bekknum hefur af því áhyggjur að kúrsinn sé heldur miðaður að MA stiginu. Sjálfum hundleiddist mér grunnatriðastaglið þótt ég geri mér auðvitað grein fyrir að það er afar mikilvægt að endurtaka þau, ekki síst fyrir stúdenta úr öðrum deildum.

Ég staldraði við hjá Rolf að ræða um mögulegar leiðir til að bæta við mig einingum svo það er allt í góðum farvegi. Núna sit ég við ána, á stað sem heitir Bodegaen. Einkunnarorð barsins eru eins bókstafleg og hugsast gæti: „over vandet – under broen“. Pallurinn utan við er einsog bryggja og rétt undir brúnni sem heldur uppi hluta Striksins svokallaða. Þar gáfu sig miðaldra Danir á tal við mig og spurðu útí mína hagi. Það hrista alltaf allir hausinn þegar ég segist búa í Gellerup. Þau sögðu einn vel valinn bankahrunsbrandara og óskuðu mér svo góðs gengis.

Meðan ég beið eftir strætó í dag rakst ég á risastórt nýtt veggsprey, inná milli allra „Tove suger pik“ plús símanúmer í strætóskýlinu: FUCK RACISTER! Mér fannst það vera réttur punktur yfir tiltekið i.

Guði sé lof fyrir skólann að bjarga mér úr þessu hversdagslega limbói þarflausra athafna og hugsana. Þá hef ég kannski eitthvað til að skrifa um af einhverju viti. Ef maður hefur ekkert að gera þá gerir maður heldur ekkert. En eftir því sem verkefnastaflinn hleðst þá ræðst ég kannski loksins í það verkefni að kaupa mér danska bók til að æfa mig á. Ég er ágætur í dönsku en það hrekkur ennþá nokkuð langt frá öllum „gáfulegri“ samræðum. En mér gengur ágætlega að tala við Danina á næsta borði. Þau tala fallega árósku.

4 thoughts on “Fyrsti skóladagur”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *