Fimm spor til afnáms mannréttinda – drög að úrsögn úr alþjóðasamfélaginu

Síðan ég hóf störf sem pistlahöfundur fyrir Smuguna í september síðastliðnum hef ég birt fjóra pistla, þar af þrjá um stöðu innflytjenda í Danmörku. Á þessum skamma tíma hefur ríkisstjórn íhaldsflokkanna Venstre og Konservative Folkeparti talað fyrir hverju frumvarpinu á fætur öðru sem ætlað er að skerða réttindi innflytjenda. Þau mál sem ég hef rakið í pistlum mínum eru aðeins brot af þeirri haftastefnu sem ríkisstjórnin rekur, og snýst um að halda útlendingum frá Danmörku annarsvegar, Dönum í Danmörku hinsvegar. Þar má nefna eftirfarandi mál:

1. Gettóáætlunin
Rífa á niður heilu og hálfu íbúðarhverfin í hinum ýmsu sveitarfélögum Danmerkur sem ríkisstjórnin hefur skilgreint sem gettó, þvert á mótmæli íbúa og hverfisráða (t.a.m. hverfisráð Vejlåparken í Ishøj, sem hefur ályktað gegn gettóstimpli stjórnvalda) og ráðleggingar fagráða og félagsráðgjafa, sem segja að það að færa vandamálið leysi það ekki. Hvergi í áætluninni er ráðgert að íbúar fái húsnæði annarsstaðar, og sveitarfélögin hafa lýst því yfir að alvarleg vandamál hljótist af nái áætlunin í gegn, þar sem húsnæðismarkaðurinn anni þegar ekki eftirspurn og því eigi íbúar hverfanna ekki í önnur hús að venda. Annar liður í áætluninni er að meina innflytjendum fæddum utan Evrópusambandsins að flytja í þessi hverfi, sem er hljómfegurri leið til að segja að til standi að gera þau hvítari. Áætlunin minnir að mörgu leyti á aðgerðir Suðurafrískra stjórnvalda gegn Hverfi 6 í Höfðaborg árið 1966, sem margir ættu að kannast við úr kvikmyndinni District 9.

2. Stigakerfið
Meina á fólki fæddu utan Evrópusambandsins um dvalarleyfi í Danmörku nema það uppfylli tiltekin skilyrði. Þá er það metið á grundvelli (æskilegrar) menntunar, tungumálakunnáttu og fleiri atriða sem afla því stiga. Makar fá ekki dvalarleyfi sjálfkrafa heldur. Þeir þurfa að gangast undir sömu skilyrði, og maki þeirra í Danmörku þarf hafa unnið samanlagt í tvö og hálft ár á undangengnum þrem árum og eiga 100 þúsund danskar krónur á bankareikningi sínum. Einsog ég lýsti í síðasta pistli er nánast ógjörningur að standast þessi skilyrði.

3. Akademískt vistarband
Námsmenn sem ljúka meistara- eða æðri gráðu í dönskum háskóla mega ekki starfa utan Danmerkur fyrr en að fimm árum liðnum frá útskrift. Kjósi þeir að gera svo skulu þeir endurgreiða þá námsstyrki sem þeir hafa þegið frá ríkinu. Sú upphæð sem hver og einn námsmaður kæmi til með að endurgreiða til ríkisins nemur í hæsta falli 10 ára meðalframfærslu. Það gefur auga leið að þetta er engum fært.

Í sakleysi mínu hélt ég að nú þætti ríkisstjórninni ef til vill nóg komið, enda er með þessum aðgerðum þegar búið að loka landinu fyrir „óæskilegum“ áhrifum og hindra að danskt menntafólk freisti gæfunnar utan Danmerkur, sjálfsagt samkvæmt hugarfarinu að sjaldan launi kálfur ofeldið. Í síðasta pistli minntist ég á þær tvíeggjuðu aðstæður sem hér gætu skapast þegar erlendir styrkhafar yrðu reknir úr landi að loknu námi, fyrir að uppfylla ekki skilyrði stigakerfisins, og samtímis rukkaðir aftur um námsstyrkinn samkvæmt reglugerðum sem ætlað er að halda menntafólki í Danmörku. Ríkisstjórnin virðist hafa áttað sig á þessu líka og hefur núna kynnt til sögunnar tvær aðgerðir til viðbótar:

4. Viðbót 1 – um velferð:
Innflytjendur í Danmörku geti ekki ætlast til að fá aðgang að heimilislækni, grunnskólakerfinu, örorku- eða atvinnuleysisbótum, sem og mögulega annarri grunnþjónustu, fyrr en þeir hafa greitt skatt í nokkur ár. Inger Støjbjerg, atvinnumálaráðherra, segir þetta vera viðbót við stigakerfið, sem hún segir snúast um að „allir sem geta og vilja leggja sitt af mörkum séu velkomnir.“ Frumvarpið nýtur stuðnings beggja ríkisstjórnarflokka auk Dansk Folkeparti og Liberal Alliance, svo það er næsta víst að það kemst óhindrað gegnum þingið.

Danska Starfsgreinasambandið, Dansk Industri, hefur lýst yfir áhyggjum sínum af þessum áformum, ekki vegna þess að þau séu ómanneskjuleg, heldur vegna þess að þau kunni að fæla útlendinga frá Danmörku á tímum sem þörf sé á (ódýru?) aðfluttu vinnuafli. DI segist þó samstíga ráðherra í að herða þurfi reglur. Kristnir demókratar segjast ekki munu styðja frumvarpið eða neitt sem skerðir réttindi til grunnþjónustu, enda stangist það á við stjórnarskrá. Það var þá gott að einhver mundi eftir því að það er stjórnarskrá í Danmörku.

5. Viðbót 2 – um starfsleyfi lækna:
Læknar fæddir utan Evrópusambandsins, jafnt þeir sem þegar starfa í Danmörku og þeir sem sækjast eftir því, þurfi að standast ákveðin skilyrði áður en þeir fái starfsleyfi. Meðal þeirra krafna sem gerðar verða til þeirra eftir áramót er að standast dönskupróf eins fljótt og mögulegt er. Þá þurfa þeir að standast skriflegt og munnlegt læknisfræðipróf og sitja námskeið um og standast próf úr danskri heilbrigðislöggjöf. Standist þeir þessar kröfur verður þeim boðið að starfa til reynslu í tólf mánuði á sjúkrahúsi eða heilsugæslu, þar sem lagt verður mat á getu þeirra og þekkingu. Sérfræðimenntaðir læknar þurfa að þeim tíma loknum að standast reynslutíma til sex mánaða að auki á stofu sem hentar þeirra sérfræðiþekkingu. Meðan á reynslutíma stendur skal yfirlæknir í tvö skipti fylgja lækni náið eftir við dagleg störf innan fyrstu þriggja mánaða reynslutímans, til að leggja faglegt mat á getu læknisins. Mat yfirlæknisins skal svo sent til Heilbrigðisráðuneytisins til frekari úttektar, yfirlegu og mögulegrar samþykktar, áður en læknirinn fær að taka lokaprófin. Bertel Haarder, heilbrigðisráðherra, lýsti yfir í viðtali við DR fyrir nokkru að reglurnar væru til þess settar „að Danir þyrftu ekki lengur að óttast útlenska lækna.“

Það sem helst vekur athygli við hinar nýju viðbætur við hið þegar lygilega áformasafn dönsku ríkisstjórnarinnar er stuðningurinn í þinginu. Stuðningur við lið fjögur um takmörkun á réttindum til grunnþjónustu nýtur stuðnings fjögurra flokka: Venstre, Konservative Folkeparti, Dansk Folkeparti, og Liberal Alliance. Einu mótbárur sem ég hef orðið var við koma úr óvæntri átt, frá Kristnum demókrötum. Liður fimm um starfsleyfi lækna nýtur á hinn bóginn yfirgnæfandi stuðnings í þinginu: frá Venstre, Konservative Folkeparti, Dansk Folkeparti, Socialdemokraterne, Radikale Venstre, og Sosialistisk Folkeparti. Um aðra flokka veit ég ekki, en gaman væri að fræðast um forsendur þeirra.

Hvað varðar lið 4 um velferð
Fyrst innflytjendur fá í framtíðinni ekki notið velferðarkerfisins nema þeir hafi greitt skatta í tiltekið langan tíma, má ætla að skiptinemar og aðrir erlendir nemendur í Danmörku muni í framtíðinni heldur ekki fá notið námsstyrkja frá ríkinu einsog hingað til hefur verið, og þarmeð hefur ríkisstjórnin sparað þeim þá kaldhæðni örlaganna að endurgreiða námsstyrkinn þegar þeim er vísað úr landi að námi loknu. Eitthvað virðist þó ríkisstjórninni heykjast á að setja fram samþætta aðgerðaáætlun þar sem samkvæmt Gettóplani Lars Løkke Rasmussen eru börn innflytjenda skikkuð til að sækja leikskóla með dönskum börnum svo þau læri dönsku, en samkvæmt viðbót samflokkskonu hans Inger Støjbjerg um grunnþjónustu er þeim beinlínis meinað að sækja leikskóla nema foreldrarnir hafi greitt skatt í nokkur ár. Nema þeim finnist bara svona fyndið að setja reglur sem stangast á svo innflytjendur endanlega gefist upp á að reyna að búa hérna.

Á meðan áhyggjur Dansk Industri af löggjöfinni hljóma einsog vangaveltur suðurríkjamanna við Þrælafrumvarpi Lincolns er gagnrýni Kristilegra demókrata þung og krefst allrar athygli, enda er mismunun eftir þjóðerni klárlega brot á dönsku stjórnarskránni og Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, auk þess sem stjórnmálaskýrendur velta fyrir sér hvort stefna Danmerkur í innflytjendamálum yfirhöfuð standist reglugerðir Evrópusambandsins. Stuðningur við frumvarpið helgast þó fyrst og síðast af þeirri hægfara þróun sem hefur orðið í Danmörku frá opinberu heilbrigðiskerfi að einkareknu, og að flokkarnir fjórir sem styðja frumvarpið hafa allir einkasjúkratryggingakerfi á stefnuskránni. „Fólk á að greiða sjálft fyrir þá þjónustu sem það fær,“ segir Simon Emil Ammitzbøll, formaður Liberal Alliance, í sömu andrá og hann gleymir hvað skattar eiginlega eru. Stuðningurinn helgast einnig af þjóðernissinnaðri pólitík Dansk Folkeparti, sem rekið hefur eigin stefnu gegnum ríkisstjórnina sem hækja hennar, og ber því óbeina ábyrgð á flestu því sem hér hefur verið reyfað.

Hvað varðar lið 5 um starfsleyfi lækna
Mörgum kann að þykja það sjálfsagt að setja erlendum læknum stíf skilyrði sem þessi, en miðað við stefnuna sem rekin er í Danmörku á öðrum vettvangi líta röksemdirnar út einsog skálkaskjól annarra og hættulegri sjónarmiða. Sá málflutningur heilbrigðisráðherra að Danir beinlínis óttist útlenska lækna er ógeðfelldur en kann, því miður, að vera réttur upp að einhverju marki. Þá er sú hugmynd að setja lækna aftur á skólabekk í allt að átján mánuði, svona til að ganga úr skugga um að þeir séu ekki að plata, lítillækkandi og þekkist ekki innan fagstétta almennt – enda hafa prófgráður frá viðurkenndum háskólum og starfsreynsla við virt sjúkrahús hingað til þótt duga víðasthvar í heiminum.

Í viðtali við írakska lækninn Alaa El-Hussuna (varúð, hann heitir næstum bæði því Allah og Hussein, og kemur frá Írak!) í Berlingske Tidende frá 2007 kemur fram að danska heilbrigðiskerfið var þegar undirmannað þá, og gæti í raun ekki verið rekið ef ekki væri fyrir „þriðjaheimslækna“. Þá tínir blaðamaður til nokkrar staðreyndir um danska heilbrigðiskerfið: Um 19.000 læknar starfa í Danmörku. Á almenningssjúkrahúsum starfa u.þ.b. 1500 erlendir læknar, sem er um þriðjungur af öllum læknum sem starfa á dönskum sjúkrahúsum, hvort sem er í opinbera- eða einkageiranum. Þriðjungur erlendra lækna á sjúkrahúsunum eru sérfræðingar en hinir eru almennir læknar. 35% allra erlendra lækna koma frá Norðurlöndum eða Evrópusambandinu, en 65% koma á móti frá svonefndum þriðjaheimslöndum. Flestir erlendir læknar koma saman til Danmerkur sem hjón. Á sjúkrahúsunum eru um 3400 ómannaðar læknastöður, þar af 1200 sérfræðingsstöður.

Það virðist því vera ljóst að þetta er gagngert til að grafa undan heilbrigðiskerfinu í núverandi mynd.

Dönsk einangrunarstefna í hnotskurn
Hvaða þýðingu hefur þetta allt saman? Síðan ég flutti til Danmerkur í ágúst hefur ríkisstjórnin ákveðið að rífa niður innflytjendahverfin sem fyrri ríkisstjórnir bera sjálfar ábyrgð á að urðu til – þar með talið stóran hluta af hverfinu mínu, sem talið er með óæskilegri og hættulegri hverfum í Danmörku. Þeim sem missa húsnæði sitt með þessu móti er ekki tryggð búseta annarsstaðar. Þeir sem eru dekkri en meðalsólbekkjasmjörfress fá heldur ekki að flytja í þessi hverfi, enda á að hvítta þau. Atvinna, tungumálakunnátta, æskileg menntun og árslaun framhaldsskólakennara á bankabók eru forsendur dvalar- og atvinnuleyfis einstaklinga og maka þeirra – sem hefur bein áhrif á þegar fallvalta læknastéttina miðað við tölfræði. Aðfluttir öryrkjar missa félagsréttindi sín, börn missa réttindi sín til náms, stúdentar missa frelsi til atvinnu og ferða, háskólasamfélagið missir sinn stærsta styrk sem eru erlendir fræðimenn – stór hluti fólks missir grundvallarréttinn til heilbrigðis. Heilbrigðiskerfinu skal hvort eð er slátrað með því að fæla frá fólkið sem heldur því uppi með Atlasargripi, svona til að „Danir þurfi ekki að óttast“.

Og þetta kerfi alltsaman? Það er sett á fótinn til að „allir þeir sem geta og vilja leggja sitt af mörkum séu velkomnir,“ segir atvinnumálaráðherra. Það er nú aldeilis að maður finnur sig velkominn.

Góðir lesendur, það er búið að loka Danmörku. Hvítt fólk má þó ennþá versla í H&M svo lengi sem það lofar að vera ekki baggi á velferðarkerfinu.

Birtist fyrst á Smugunni þann 30. desember 2010.

Nasistinn í veislunni

Meðan íhaldsflokkarnir Venstre og Konservative Folkeparti berjast bæði inn- og útbyrðis við að halda ríkisstjórninni við völd, einsog ég fjallaði um í síðasta pistli, kemur sífellt betur í ljós hvaða afleiðingar það hefur þegar eini vinur manns er nasisti. Meðan Rasmussen og Espersen einbeita sér að spuna, spillingu og lygum í þingsal er það Dansk Folkeparti sem hefur hin raunverulegu völd bakvið tjöldin, enda ef ríkisstjórnin samþykkti ekki allar þeirra hugmyndir yrði lítið eftir af stjórninni, og ólíklegt er að nýr meirihluti yrði myndaður án þess að boðað yrði til kosninga.

Þetta þýðir að tekist hefur að berja ótrúlegustu hluti í gegnum þingið. Það nýjasta á stefnuskránni eru tvær hliðar á sama málefni sem samkvæmt flestu óbrjáluðu fólki myndi kallast að loka landamærunum að innan sem utan. Fyrri hliðin er hið svonefnda stigakerfi sem senn verður tekið upp í Danmörku. Það felur í sér að fólk utan evrópska efnahagssvæðisins þarf að afla sér tiltekið margra stiga, sem það getur unnið sér inn með ýmsu móti, áður en það fær dvalarleyfi í Danmörku. Það þýðir ennfremur að hafi manneskja dvalarleyfi í Danmörku gildi það ekki sjálfkrafa um maka viðkomandi nema að uppfylltum sömu skilyrðum.

Nauðsynlegur fjöldi stiga er 120 stig fyrir fólk undir 24 ára aldri en 60 stig fyrir fólk yfir 24 ára aldri. Stigakerfið sjálft er aftur það ósanngjarnt að það er nær ógjörningur fyrir nokkurn mann að standast kröfurnar. Til dæmis fær iðnmenntuð manneskja sem talar ensku aðeins 20 stig, af því menntunin er ekki metin til neins nema hún sé fengin úr klassískum háskóla eða viðskiptaháskóla. Þannig skín ekki einvörðungu í þjóðernisstefnu stjórnvalda heldur menntahroka einnig, og það liggur berlega í augum uppi hvaða afleiðingar hið nýja kerfi kemur til með að hafa fyrir konur frá þeim löndum heimsins þar sem réttindi þeirra til allra handa eru hvað ákafast barin niður. Hér er verið að færa jafnan rétt allra til ráðandi stétta og kynja þeirra landa sem Danmörku þóknast ekki, og það er öllu alvarlegra áhyggjuefni en þeirra fáu sem þó láta í sér heyra, en það eru aðallega háskólakennarar frá Bandaríkjunum, Asíu og miðausturlöndum sem óttast að þeir fái ekki að hafa fjölskyldur sínar hjá sér.

Ennfremur, ofan á stigakerfið, þarf manneskja sem vill „flytja inn maka sinn“ að eiga 100.000 danskar krónur á bankareikningi, af einhverjum ástæðum, og að hafa unnið jafngildi fullrar vinnu í tvö og hálft ár af síðustu þrem árum áður en makinn fær leyfi til að koma. Þessar kröfur eru auðvitað ekki nokkurri manneskju bjóðandi.

Þetta mál varðar okkur öll sem búum hér en þó fer hvorki mikið fyrir almennum viðbrögðum né sértækum, að undanskildu háskólasamfélaginu. Háskólarnir bæði í Kaupmannahöfn og Árósum hafa brugðist harkalega við hinum nýju lögum og varað við því að þau kippi starfsgrundvellinum undan fótum þeirra, enda snúist háskólastarf að miklum hluta um samstarf hins alþjóðlega þekkingarsamfélags, nýjar hugmyndir, framþróun, tækni. Að hrista þessar stoðir er hálft skref aftur til miðalda á sviði vísinda og þekkingar og ef loka á gáttinni að utan innávið er mikill auður hafður af dönsku samfélagi þegar vísindamenn hugsa sér heldur annað ef það þýði að þeir geti lifað eðlilegu lífi með sínum fjölskyldum.

Seinni hliðin er svo hinsvegar sú að stefnan er einnig tekin á að setja höft á stúdenta sem nema í Danmörku. Þeir sem ljúka meistaraprófi eða hærri gráðu mega ekki starfa utan Danmerkur næstu fimm ár eftir útskrift, nema þeir samþykki að endurgreiða alla námsstyrki sem þeir hafa þegið af ríkinu áður. Slíkir styrkir, sem hingað til hafa verið veittir til að styrkja danska vinnumarkaðinn, velferðar- og menntakerfið, verða nú hrifsaðir tilbaka af þeim eigingjörnu sem sjá atvinnu- eða menntatækifæri annarsstaðar.

Stefna dönsku ríkisstjórnarinnar er því ekkert annað en það sem heitir vistarband á góðri íslensku. Loka á landamærunum útbyrðis fyrir ljótum og leiðinlegum útlendingum, fyrir vanþakklátum lattélepjandi stúdentaræflum innbyrðis. Það kaldhæðnasta er ef til vill það, að þrátt fyrir mannfjandsamlega stefnu Danmerkur í innflytjendamálum, þá koma hingað yfrin öll af erlendum stúdentum. Sumir þessara stúdenta fá að vera hér nógu lengi til að öðlast réttindi til námsstyrks frá ríkinu, sem síðan mun hrifsa hann tilbaka aftur í sömu andrá og þau verða rekin úr landi fyrir að uppfylla ekki stigakerfið góða.

Ætli lærdómurinn sé ekki sá að ef eini vinur þinn er nasisti, þá er betra að sleppa veislunni en að bjóða honum í hana.

Birtist fyrst á Smugunni 13. desember.

Innheimta bókasafna

Sem fyrrum bókavörður get ég ekki orða bundist vegna fréttar þess efnis að lítil telpa í Mosfellsbæ hafi fengið aðvörun um innheimtu frá bókasafninu. Þetta er ekkert nýtt, þótt það sé sérlega viðkvæmt þessi misserin.

Innheimtukerfi allra bókasafna í landsgrunninum er staðlað og sjálfvirkt og hefur verið að minnsta kosti síðan Gegnir var tekinn í notkun. Eftir tiltekinn tíma ef bókum hefur ekki verið skilað er sendur tölvupóstur þar sem minnt er á að skilafrestur sé liðinn. Ótrúlega mörgum foreldrum heykist á að skrá eigið netfang á skírteini barna sinna en það ætti þó að vera skylda bókavarðar að sjá til þess að símanúmer og netföng ábyrgðarmanna séu til staðar. Annars gerist þetta að engin tilkynning berst þar til ítrekun er send í bréfpósti.

Það afsakar auðvitað ekki foreldrana. Bréfleg ítrekun er ekki send nema að tveim mánuðum liðnum frá skilafresti (þótt lánþegar haldi untantekningalítið öðru fram enda er aldrei neitt þeim sjálfum að kenna). En það er aukaatriði, aðalatriðið er hvort réttlætanlegt sé að senda svona bréf til barns. Þar vandast málið, því ef barn á skírteini þá verður bréfið sjálfkrafa stílað á barnið. Hinsvegar verður einnig að líta til þess að ef barni berst bréf frá fjármálastofnun, til dæmis banka, þá dettur vonandi engum í hug að bréfið sé ætlað barninu frekar en forráðamönnum þess. Það sama gildir um bréf frá bókasöfnum.

Annars þykir mér safnstýran svara þessu ágætlega. Það er hárrétt að þegar kemur að sjálfri innheimtunni er bréfið ekki stílað á barnið heldur skráðan ábyrgðarmann. Í kröfunni kemur aftur á móti fram nafn lánþega, kennitala og listi yfir gögn í vanskilum. Svona mál komu oft upp meðan ég vann sem bókavörður og þá var ekkert annað í stöðunni en að reyna að taka á þeim af fagmennsku og sanngirni. Mér sýnist það hafa verið gert í þessu tilviki, enda bíta bókaverðir ekki. Þetta er ansi ljúf stétt.

Það má auðvitað deila um það hvort Intrum sé raunverulega þjónusta sem æskilegt er að bókasöfnin notfæri sér. Sjálfur var ég og er enn alltaf algjörlega mótfallinn því að stunda viðskipti við svoleiðis hrægamma og finnst reyndar alveg skoðandi að binda í lög að smásala á kröfum verði háð ströngum takmörkunum, ef ekki alfarið bönnuð. Það er rétt að það komi fram að bókasöfnin gera þetta ekki til að græða peninga nema síður sé, heldur til að reyna að tryggja að safngögn skili sér þegar öll önnur von er úti. Bókasöfnin ættu að taka þá stefnu til gagngerrar endurskoðunar.

Mér þykir samt helvíti hart að svipta barn skírteininu sínu þótt ítrekunin hafi verið stíluð á barnið. Ef það var ekki öllum ljóst að slík bréf væru stíluð á korthafa, og að öll bréf frá stofnunum stíluð á börn eru eftir sem áður ætluð forráðamönnum, þá vonandi áttar fólk sig á því núna. Vanskilin eru samt sem áður á ábyrgð foreldranna og það ætti ekki að refsa barninu fyrir það. Og einum of oft hef ég séð reiða foreldra draga ringluð börn sín út af söfnum Reykjavíkur segjandi hastarlega að það sé ekki hægt að taka bækur lengur af því „mamma hefur ekki efni á því!“

Ef lesendur lenda í þessu á söfnunum þá er aðeins tvennt sem þarf að hafa í huga: Sjálfvirk tölvukerfi hafa enga samvisku, en það hafa bókaverðir hinsvegar. Úr öllum svona málum má slétta. Ekki láta það bitna á barninu. Það er fátt hollara börnum en að alast upp við bókasöfn.

Hin daglega sápa

Með lægri bloggtíðni og leiðinlegum hversdagsfærslum hefur Bloggið um veginn hrapað þónokkuð í virðingarstiganum á Blogggáttinni. Það finnst mér ágætt. Mér finnst alltaf jafn hundleiðinlegt þegar einhverjir eyjukommentarar koma hingað til að rúnka sér yfir síðuna mína. Svo enn um sinn verður haldið áfram á sömu braut nema eitthvað sérstakt komi til (næg eru bloggin um stjórnlagaþing án þess ég fari í að dýpka það ginnungagap – en það má svosem nefna að flest þykja mér þau heimskuleg og fordómafull).

Ég hef meiri áhuga á að fjalla um það sem stendur mér næst þessa stundina, en það er að nema í háskólasamfélagi sem tekur fagnandi á móti öllum en er samt sem áður fárra. Flest okkar í litla vinahópnum sem hefur myndast utan um námið kynntust norrænu deildinni gegnum sumarskóla deildarinnar, tveggja vikna fyrirlestraröð milli 9-16, sex daga vikunnar með rosalegu pensúmi. Öll heilluðumst við af því sem deildin hafði upp á að bjóða og sóttum um fullt nám.

Þegar hingað er komið kemur hinsvegar í ljós að þetta er svolítið einsog að vera fastur í sápuóperu þar sem persóna er drepin í hverri viku. Nú í gærmorgun fór spánskur vinur minn alfarinn heim aftur. Þar sem háskólinn gat ekki orðið honum úti um vistarveru neyddist hann til að leigja íbúð á 13.000 danskar krónur – þið getið sjálf margfaldað með 21. Svo fór að lokum að margra ára uppsafnað sparifé var uppurið og hann neyddist til að fara.

Svipað er uppi á teningnum hjá franskri vinkonu minni. Hún hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarið ár – vinir hennar hafa dáið, nánir fjölskyldumeðlimir veikst, hún hefur flakkað milli húsnæða, búið við óöryggi í atvinnumálum og þar af leiðandi peningamálum, og það hafði gríðarleg áhrif á námið hennar. Nú er svo komið eftir þriggja ára dvöl í Danmörku að hún er að fara heim svo hún geti unnið og verið með fjölskyldunni á þessum erfiðu tímum.

Markmið okkar flestra hefur verið að komast í doktorsnám hér að loknu meistaraprófinu. Enskur vinur minn hefur nú tvisvar sótt um hið svonefnda 4+4 doktorsnám og í bæði skiptin hefur honum verið hafnað. Hann á nú aðeins einn möguleika enn og hann er ekki stór: að sækja um hið svonefnda 5+3 nám. Komist hann ekki inn þá neyðist hann einnig til að bregða búi með kærustu sinni og stjúpdóttur. Merkilegt nokk sýnist mér straumurinn liggja til Íslands meðal vina minna. Það er nokkuð kaldhæðnisleg framvinda mála, fyrir mig.

Allar góðar sápuóperur þurfa auðvitað persónulegt drama og hér hefur talsvert verið af því. Einn danskur vinur minn er svolítið einsog Sheila úr Glæstum vonum (eitt sinn fylgdist ég með þeim þáttum) – hann hefur brennt allar brýr að baki sér og það eru ekki margir eftir hér sem vilja tala við hann, að minnsta kosti ekki í mínum vinahópi, en hann er útsjónarsamur og virðist alltaf enda á báðum fótum (ef hann les þetta þá er það vel meint!). Hann á ekki möguleika á doktorsnámi hér heldur og er nú að grennslast fyrir annarsstaðar.

Samkeppninni um námið vindur þó áfram. Þar sem norræna deildin heyrir undir hugvísindadeild þá fara allar umsóknir um doktorsnámið fyrir sömu nefnd. Þær geta skipt hundruðum, og eins hæpið og það er að oggulitla norræna deildin nái einum manni inn þá eru nær engar líkur á að hún nái tveim. Ég verð sjálfur umsækjandi í mars og keppi því um stöðuna við vinkonu mína hér við deildina, sem ekki aðeins er dönsk heldur hefur verið hér talsvert lengur en ég, sem gæti skekkt aðstöðu okkar. Niðurstaða nefndarinnar á eftir að hafa áhrif á allt sem við gerum þaðan í frá.

Ef hvorugt okkar kemst inn núna endurtekur leikurinn sig næsta haust þegar við nýtum seinni sénsinn. Það er vond tilhugsun að keppa við vini sína en það er bara þannig sem það er. Þangað til hef ég núna tvær rannsóknir á könnu minni sem ég er farinn að verða of seinn með, og um niðurstöður annarrar þeirra flyt ég fyrirlestur á málþingi nemenda í mars. Það er víst nóg að gera.

Samkeppnin er semsé ansi hörð og vinir hverfa hver á fætur öðrum, ýmist nauðbeygðir eða til að víkka sjóndeildarhringinn. Það er nokkuð sérstök tilhugsun miðað við hversu stórt samfélagið var þegar ég fyrst kom hingað. En ég kvarta ekki (fólk heldur alltaf að ég sé að kvarta). Það þýðir enda ekkert. Núna gildir bara að gera sitt besta og sjá hvað setur. Næsta skref er að undirbúa umsóknina samhliða rannsóknarvinnu, sem verður erfitt þar sem hér verða nær engir kennarar eftir til ráðleggingar á næstu önn. Það þýðir því ekkert annað en að vinna einsog skepna, og þess vegna kem ég ekki heim um jólin.

Allt er það til þess gert að vinna að hinu stóra markmiði, og ef mér bregst bogalistin þá neyðist ég sjálfur til að fara einsog aðrir á undan mér. Svo það er mikið í húfi. Ég reyni þó að hugsa sem allra minnst um það og bara njóta þess sem hver dagur ber í skauti sér. Eftir mánuð þá flyt ég á háskólasvæðið og það ætti að einfalda mér talsvert lífið. Það er tilhlökkunarefni dagsins.