Universitetsparken

Svo fer gjarnan um mannanna ráð að þau bregðast, og því ítarlegar sem skipulagt er þeim mun meira geta smáatriði sett úr skorðunum. Smáatriði dagsins var að mér yfirsást að ég yrði nauðsynlega að afhenda lyklana að Lottuvegi á slaginu níu. Án lyklanna verður hvorki komist inn né út af lóðinni, hvað þá inn eða út úr húsinu, svo þegar Jakob vinur minn kom að hjálpa mér að lesta bílaleigubílinn sem ég átti að sækja sat ég enn á mínum stað, algjörlega strand með búslóðinni, bíllaus, inneignar- og ráðalaus eftir að hafa hringt í hinar ýmsu sendibílastöðvar sem allar voru fullbókaðar yfir daginn.

Fyrir einskæra heppni hafði Jakob gripið með sér númer á sendibílastöð sem hafði lausan bíl. Það kostaði formúgu, en það var ekkert annað í stöðunni. Án þessa númers væri ég sjálfsagt ennþá stofufangi á fyrrum heimili mínu, þar sem við þurftum að dúsa í þrjá klukkutíma meðan við biðum eftir bíl, og gleymdum því alveg að Mathias vinur minn, sem á sama tíma var að rífa sig upp eftir andvökunótt, var líka liður í planinu.

Þegar bíllinn loksins kom tóku flutningarnir þó snöggt af. Þar til það kom í ljós að Karlsvernersvegur 4 er ekki einn stigagangur heldur þrír eða fjórir. Þegar ég hafði gengið úr skugga um að herbergi með mínu númeri fyndist ekki á númer fjögur leituðum við víðar og fundum það á númer sex, sem samt er líka númer fjögur. Þegar allt draslið var að endingu komið á sinn stað gátum við verðlaunað okkur með bjór, eftir verst skipulögðu flutninga í manna minnum, og þá óþarflega lengstu miðað við umfang og vegalengd – frá klukkan 9 að morgni til 1 eftir hádegi.

Og nú er ég þá fluttur á gamla garð. Gamli háskólinn var reistur 1933 og garðurinn á árunum á eftir, allt eftir kúnstarinnar reglum þess tíma að vísu, sem kallar á þesslags kyndingu sem þeir sem búið hafa í eldri hlutum Kaupmannahafnar ættu að kannast við – kerti, og nóg af þeim. Eftir að hafa búið við handónýtan stofuofn Suðurgötunnar og stöðuga vestanátt inn af firði á veturna er ég enda löngu orðinn vanur því að hlýja mér við kerti.

Hér í bakgarðinum er bar, og annar hinumegin götunnar. Þá eru hér sjoppur, veitingastaðir og matvöruverslanir víða innan seilingar, Landsbókasafnið í næstu byggingu, Málvísinda- og guðfræðibókasöfnin sem ég nota mikið ögn lengra niður veginn, Norrænudeildin steinsnar þaðan í frá, og skógurinn, ströndin og miðbærinn í göngufæri. Bakgarðurinn sem ég nefndi er annars sá sem er á myndinni með færslunni. Ekki amalegt það!

Því má bæta við að þegar húsvörðurinn skoðaði íbúðina mína að Lottuvegi í morgun þá sagði hann mér að baðherbergið væri ekki nógu hreint. Ég spurði hann á móti hvort hann hefði séð ástandið á því þegar ég flutti inn. Bætti við að líklega hefði íbúðin aldrei verið hreinni. Hann gafst upp, og ég fæ tryggingagjaldið endurgreitt um mánaðamótin.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *