Stiklur úr ferðasögu II

Skandinavíuhringurinn:

Álaborg: Fallegur bær sem mér skilst að smámsaman sé að deyja. Flest unga fólkið fer heldur suður til Árósa eða Kaupmannahafnar til að sækja sér æðri menntun, og fáir koma til baka. Stemningin á aðalverslunargötunni (sem er kölluð eitthvað annað en hún heitir en ég man ekki hvað) var nokkuð öðruvísi fyrir Danmörku fannst mér, næstum íslensk. Við Christian, Mathias og gestgjafi okkar Olle enduðum á bar sem heitir The Wharf. Þar er bjórinn á alvöru ámum og úrvalið er gríðarlegt. Klárlega flottasti bar Danmerkur af þeim sem ég hef séð.

Nørresundby: Þegar Mathias hafði tuðað nógu lengi undan því að við þyrftum að vakna eftir fimm tíma létum við til leiðast og tókum síðasta vagn yfir ána til Nørresundby. Þar héldum við flestir áfram að lepja bjór af einhverri óskiljanlegri ástæðu og enduðum á að sofa í sirka þrjá tíma, við galopnar svaladyr að minni kröfu. Eftir að hafa hrist af okkur morgunhrollinn og smurt nesti fengum við sýnikennslu í því sem síðar hefur fullsýnt sig sem staðreynd, að Danir kunna ekki að vísa til vegar. „Áfram götuna og til vinstri“ er meira en að segja það í íbúðahverfi þar sem öll húsin eru nákvæmlega eins, en einhvern veginn römbuðum við þó á lestarstöðina. Þegar lestin kom varð okkur ljóst að fínni vagnarnir ganga ekki á norður-Jótlandi, og þannig varð árið skyndilega 1960 þegar við stigum um borð.

Frederikshavn: Stemningin var einsog í unglingahrollvekju, mistur lá yfir bænum og reyndi að hylja þau ógrynni krana sem stráð var yfir höfnina. Fékk á tilfinninguna að bærinn væri lítið annað en höfnin, leið til að forða sér burt frá deyjandi norðurslóðunum. Þegar við höfðum fengið miða með skipi sem reyndist vera fljótandi sirkus var okkur vísað á „brú“ yfir að hafnarstæðinu sem reyndist vera kílómetri að lengd. Um ferjuna sjálfa hef ég ögn fjallað áður.

Osló: Mat mitt á Osló er áreiðanlega ósanngjarnt eftir stutta viðveru þar. Eftir 9 tíma siglingu sigldum við inn fjörðinn og við blasti stórfenglegt landslag. Svo dúkkaði höfnin upp og við stigum frá borði í leit að æti. Fyrir valinu varð kebabstaður/hóruhús. Við vissum ekki hvernig í pottinn var búið fyrren við vorum sestir inn við gluggann og byrjaðir að borða. Þrjár útlifaðar, sundurbarðar vændiskonur stóðu hver á sínu horni fyrir utan meðan ungir piltar veiddu fólk af götunni og falbuðu þær. Einn þeirra náði sölu og hljóp svo rakleiðis inn á kebabstaðinn til að skrá það í bók hjá veitingamanninum/melludólgnum. Ég missti matarlystina.

Eins mikið afrek og það er að hafa aðeins verið kortér í borg áður en við félagar styrktum lókal vændisiðnaðinn um peninga, þá héldum við áfram ótrauðir og fundum bar sem líktist heldur yfirgefnum lestargöngum, með öllu tilheyrandi. Þar drukkum við dýrasta og versta bjór sem um getur. Man ekki hvað hann heitir, en Norðmenn ættu alvarlega að íhuga að sleppa því alfarið að reyna að brugga bjór. Við vorum hálfpartinn farnir að gefast upp á rándýru og hundleiðinlegu næturlífinu sem við höfðum fundið, og héldum okkar leið í leit að huggulegri lókal.

Við eitthvert torg, sem ég hafði ekki rænu á að skrifa niður hvað hét, fundum við hressilegan hóp Norðmanna og Svía sem bauð okkur í partí. Við neyddumst til að afþakka það því leiðin lá, án þess ég hefði haft nokkra einustu vitneskju um það fyrirfram, í eitthvert skip sem lá við ankeri andspænis óperuhúsinu. Það reyndist vera ryðgað partískip sem hvorttveggja er bar og „veislusalur“. Þar hittum við Silje, vinkonu Mathiasar. Mathias hafði varað okkur við því að hún væri ásatrúar, svo við myndum ekki segja neitt yfirkrítískt um það efni svo hún heyrði. Þegar við höfðum fengið okkur einn bjór í partískipinu keyrði Silje okkur til síns heima í Drammen, þar sem við gistum um nóttina.

Drammen: Eftir að ljóst varð að strætó gengi ekki þann daginn keyrði Silje okkur á lestarstöðina. Þar varð Íslendingur fyrir lest nokkru síðar, sem ég játa að sló mig nokkuð. Drammen er fallegur bær með augljósum skíðabrekkum höggnum útúr skóginum í himinháum fjöllunum sem umlykja bæinn. Þegar lestin loksins kom varð mér ljóst að ferðin framundan yrði æði löng – það sást á skriflinu. Það kom enda á daginn, lestin frá Drammen tók tíu og hálfan tíma

Myrdal: Ég rankaði við mér á hæsta punktinum milli Oslóar og Björgvinjar, við Hardangerjøkulen, þar sem senurnar á Hoth úr Empire Strikes Back voru teknar upp. Mér þótti landslagið hafa breyst nokkuð og spurði hvar við eiginlega værum. Þá hafði ég sofið megnið af leiðinni. Lestin stoppaði í Myrdal í um 20 mínútur, sem var ríflega nóg til að sjá allan bæinn. Um fimm hús á að giska, leit út einsog gullgrafarabær. Þar hitti ég Henning Kure, höfund Goðheimasagnanna. Þeir Mathias reyndust vera vinir, sem dempaði nokkuð alla tilburði mína til grúppíustæla.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *