Af skáldum og öðrum ekkisens óþarfa

Ég fann þetta óvænt í tölvunni minni. Þessi grein átti að birtast í Tíuþúsund tregawöttum í ársbyrjun 2009 minnir mig, en það hefti var aldrei gefið út. Fannst allteins gott að henda henni inn hérna þar sem efni hennar á jafnmikið erindi nú og þá.

1. Skáldið í ljóðinu
Mér er minnisstætt þessa dagana ljóð sem Hallur Þór Halldórsson las upp á ljóðakvöldi Nykurs á gamla Rósenberg sumarið 2006, þar sem ljóðmælandi neitar því að hann sé skáld, en er engu að síður hundeltur og úthrópaður sem skáld útí gegnum ljóðið af lattédrekkandi menningarvitum með póststrúktúralíska ofgreiningarþörf. Mér er það sérstaklega hugleikið vegna þess að ég hef komist að þeirri prívat-en-ekki-svo-prívatniðurstöðu að orðið skáld sé sæmdarheiti sem skáldum sé lítill sómi í að hengt sé á þau, og enn minni sómi í að hengja á sjálf sig. Enda eru þau ekki skáld.

Íslensk orðabók í ritstjórn Marðar Árnasonar skilgreinir skáld þannig:

skáld –s, -HK 1 bókm. sá sem yrkir kvæði > ljóðskáld / listaskáld / kraftaskáld ● stundum um þann sem semur skáldverk í óbundnu máli.

Ég veit svosem ekki hvað kraftaskáld er, né vil ég vita það, en nú er rétt að geta þess áður lengra er haldið að orðabækur eru hvorki upphaf né endir neins. Þær eru tilraun til lýsingar nútímamáls, háðar gildismati hvers og eins ritstjóra, og geta því ekki með nokkru móti talist til fræðirita. Til dæmis þekkist dæmi þess að ritstjóri hafi skilið útundan orð yfir fylgismenn knattspyrnuliðs sem hann hafði óbeit á, bara svona af því að. En höldum okkur við efnið.

Ef skáld er „sá sem yrkir kvæði“ þá á sú skilgreining við fæsta þá höfunda íslenska, núlifandi og mér kunnuga, sem semja ljóð. Ég hafna því semsagt að hægt sé að „yrkja“ óbundin kvæði, nema kannski að maður sé Matthías Johannessen, í fyrsta lagi af því kvæði í mínum skilningi er alltaf bundið í bragarhátt, í öðru lagi vegna þess að sjálf sögnin yrkja er upphafin gagnvart andlagi sínu – kvæðinu, ljóðinu – og felur í sér rómantískan fornaldarljóma til verknaðarins, samanber að yrkja sína jörð, að rækta sína trú og svo framvegis. Að yrkja er háalvarlegur, upphafinn og andlegur gjörningur, og það felst í orðsins hljóðan að bera eigi virðingu fyrir þeim sem stunda það að yrkja, ekki síður en bóndanum sem óhreinkar hendur sínar ekki aðeins til að lifa af, heldur vegna þess að það er dyggð; að rækta eitthvað svo það vaxi og dafni, standi í beinu sambandi við náttúruna, meitlað í stein, líkt og það hafi alltaf verið þarna, sjálf dýrðin orðum klædd. Þetta er sérkennileg hugmynd, og skyndilega finnst mér skammur vegur þaðan til einkunnarorða fasista, stétt með stétt, eða til hamars og sigðar, en göngum ekki alveg svo langt, ekki strax allavega. Þetta snýst allt um hugljómun æðri manninum, guðlega náð sem kölluð er innblástur, sammannleg gildi og fagurfræði, og það bara gengur ekki.

Höfum það á hreinu að kveðskapur bundinn bragarháttum er að mestu liðinn hjá, búinn, kemur tæpast aftur nema í hækum skúffuskálda og ferskeyttum tækifærisvísum hagyrðinga í kaffiboðum, flokksþingum og fermingarveislum (já, mér þykja hagyrðingar leiðinlegir). Líklega hefur Mörður rétt fyrir sér að stundum sé talað um höfunda óbundinna verka sem skáld (þá á ég við höfunda skáldsagna, því það er alveg á hreinu að höfundar óbundinna ljóða eru jafnan kallaðir skáld), en orðið er upphafið engu að síður. Sumir titla sig ljóðskáld þess heldur, en ljóðskáld er í almennum skilningi alveg sama skáldið – og skáld eru deyjandi stétt.

2. Tálsýn snilldarinnar
Mörður skilgreinir rithöfund svona:

rit-höfundur KK ● maður sem ritar bækur, semur rit ● (einkum) höfundur skáldverka í óbundnu máli.

Ég var eitthvað að sífra þetta um daginn að mér þætti eðlilegra að vera titlaður rithöfundur en skáld – og miðað við skilgreiningu Marðar finnst mér það liggja beinast við, enda fæst ég ekki við bundið mál þótt ég kalli textana mína ljóð – þegar viðmælandi minn sagði mér að þá þyrfti ég að hafa skrifað skáldsögu fyrst. Það er vissulega hin hefðbundna skilgreining, en ofureinfölduð að vísu. Smásagnahöfundar eru rithöfundar, og örsagnahöfundar líka, að því er ég best veit. Hvenær hættir örsaga að vera örsaga og verður að ljóði – eða öfugt? Það er engin konkret aðferð til að ganga úr skugga um það, og fyrst það er ekki með góðu móti hægt að segja til um hvenær „skáld“ verður „rithöfundur“ þegar „rithöfundar“ mega stundum eða alltaf vera „skáld“ þá er ekki seinna vænna að varpa þessu draslhugtaki fyrir róða. Ekki síður í ljósi þeirrar viðurstyggilegu síðrómantísku kennisetningar að skáldum sé ætlað það hlutverk að hafa æðri hugsun til að bera en annað fólk – sem enn fyrirfinnst í orðræðu um bókmenntir þótt ótrúlegt megi virðast – frá þeim tímum er skáld ortu undir staurum í húmi nætur og rödd hins eilífa varð aldregi endurbætt í hreinskrift.

Og hvað á ég eiginlega við með því? Útskýrum þetta aðeins nánar með handahófskenndri stikkprufu úr nýjustu Bókatíðindum, af því þau eru í seilingarfjarlægð (ég ætla að vera ósanngjarn og sleppa undantekningum frá hinni almennu reglu sem hér verður dregin upp), að öllum nafngreindum ólöstuðum. Ég vil bara benda á nokkur atriði:

Í Tvítólaveizlunni stefnir Ófeigur Sigurðsson saman forneskjulegri dulúð og lostafullum viðfangs-efnum svo úr verður blanda sem skilur lesandann eftir tilfinningalega steinrotaðan, spólgraðan en þó annarlega háleitan í hugsun. Tvítólaveizlan sýnir sterk tök höfundar á óvenjulegu ljóðformi og sleipu viðfangsefni, en um er að ræða fimmtu ljóðabók Ófeigs, sem einnig hefur gefið út skáldsöguna Áferð.

Lævísi, svik og lygar eru yrkisefnin í þessari kraftmiklu ljóðabók. Af innsæi nýtir Emil refstáknið og skapar ádeilukennt verk sem hreyfir við lesendum með heildstæðu myndmáli og glöggri sýn á helstu veikleika okkar. Refur er önnur ljóðabók Emils en í fyrra sendi hann frá sér Gárungagap, sem fékk góðar viðtökur gagnrýnenda.

Út er komið heildarsafn með ljóðum Þorgeirs Rúnars Kjartanssonar sem mörg hafa ekki birst áður. Bókina prýða auk þess listaverk eftir höfundinn og níu aðra myndlistarmenn. Ljóðin spanna sárbeittustu ádeilu, dýpstu trúarinnlifun, óvægnasta níð, innilegustu ástartjáningu – og allt þar á milli. Þau eiga brýnt erindi við samtímann. Allir sem unna góðum skáldskap og listaverkum ættu að eignast þessa áhrifamiklu bók.

Ljóðabókin Svefnvindadraumar, er fimmta ljóðabók höfundar. Ljóðin spanna víðar og djúpar víddir mannlegs lífs. Lesandinn verður þess fljótt áskynja að líka hin fægðustu ljóð geta verið hrjúf og beitt, og hin fegursta mynd getur vakið eða skynjað bitur tár og djúpa sorg.
Þau eru ekki trúarljóð, en þó er trúin og höfundur hennar hvergi fjarri.

Í ljóðabókinni Vermsl er smjattað á áferð orða og náttúra þeirra rannsökuð í hliðstæðu við náttúru heimsins. Ljóðlistin er tekin alvarlegum og þungum tökum, en það er stutt í kímnigáfuna og hún liggur kannski alltaf undir niðri.
Vermsl er sjöunda ljóðabók Hrafns Andrésar. Hrafn hefur einnig komið að ritstjórn og gefið út tvær bækur með þýðingum sínum á ljóðum lettneskra skálda.

Fyrrum skorti hann næði, en nýja hlutverkið gefur Geislaskáldinu aukinn tíma. Sýn hans á tilveruna skerpist og birtist okkur í abstrakt ljóðum og rími. Hátt er hugsað og langt er leitað fanga, með bakland í fágætri reynslu.

Til að gæta sanngirni þá las ég yfir í hittífyrra og samþykkti eftirfarandi lýsingu útgefanda á bók eftir sjálfan mig:

Það eru ó! í þessari bók. Og þau eru ekki sett fram í hæðni hrútspungsins eða annarra súrsaðra kynfæra heldur í fúlustu alvöru; þau eru mælt fram vegna þess að ó! er vel fram mælanlegt og gjaldgengt til tjáningar. Þarna eru líka blóm, og hrafnar, og stjörnubjartur himinn, og sólstafir, og röðulgeislar – hellings aragrúi af fallegum fyrirbærum sem fáir skilja lengur, í raun og veru […] Hér fer fram tveimur lýsisglímum samtímis – í annarri slæst Arngrímur við hefðina með samtímann að vopni og í hinni berst Vídalín við samtímann með rómantískan kuta. Enn hefur enginn farið með sigur af hólmi, þótt á halli.

Takið þið eftir þessu? Finnst ykkur þetta eðlilegt? Ég vil ekki halda því fram að neinn glæpur hafi verið framinn, né þá heldur að drambið sé svo hátt að fallið myndi kremja líftóruna úr bókmenntunum þegar fólk fattar að fæstar ofantalinna bóka geta verið meistaraverk þó ekki sé nema tölfræðinnar vegna. En ég get ekki að því gert þótt mér finnist í meira lagi vafasamt að sérstaklega auglýsa skáldlega snilld undir því hógværa yfirskini að hún sé ætluð lesendum, því ef skáldið sjálft viðurkennir leynt eða ljóst að verk þess séu snilld – til að mynda þegar þau eru auglýst sem meistaraverk líkt og bækurnar hér að ofan – er það skáldið sem fær mærðina en ekki verkið. Setningin „sjáðu snilldartök mín á viðfangsefninu“ kallar ekki á viðbrögð um verkið heldur viðbrögð um handbragðið – snilldina sem bent var á. Verkið verður aldrei í öndvegi því það er ekki sagt „hér er verkið, legðu á það mat“ – það er þegar búið að leggja á það mat, með auglýsingu, en það er lesandans eftir að viðurkenna snilligáfu höfundarins. Og hún þarf ekkert endilega að koma fram eins og auglýst var, því auglýsingin hefur þegar skapað þann veruleika að verkið sé snilld, höfundur þess þarmeð og þarafleiðandi að það skorti eitthvað upp á hjá lesanda ef hann sér ekki snilldina, skilur ekki verkið, skynjar ekki dýptina. Höfundurinn er enda skáld, hann hlýtur að búa yfir andlegri dýpt sem almenning skortir, annarri sýn, tærri hugsun.

Og auðvitað stendur slík goðsögn ekki í neinu sambandi við annan veruleika en þann sem goðsögnin boðar með sjálfri sér: tálsýn snilldarinnar, sem er jafnhaldbær sönnun á sjálfri sér einsog maður sem stendur uppi á stól og öskrar yfir salinn að hann sé snillingur, og þeir sem kjósa að trúa á þann veruleika eru í langflestum tilvikum auðtrúa. Ég segi langflestum vegna þess að maðurinn á stólnum gæti verið snillingur, þó að öllum líkindum sé hann það ekki, vegna þess að a) þeir eru af skornum skammti og líkurnar því hverfandi, og b) sá sem öskrar ofan af stól er tæpast snillingur þótt hann vissulega kunni að vekja á sér athygli. Goðsögnin stendur einfaldlega ekki undir sjálfri sér. Það þarf trú til að viðhalda henni.

3. Konungurinn er ekki með höfuð!
Og þá komum við loksins að mergnum málsins: útgefendur reyna að skapa snillinga úr höfundum sínum svo lesendur kaupi hvaða drasl eftir þá sem er, á sama hátt og öll fyrirtæki þykjast hafa bestu vöruna, Pampers Baby Dry og Libresse með vængi. Er þá hægt að ganga að því sem vísu til dæmis að nýjasta bók Arnaldar Indriðasonar sé meistaraverk? Nei, en ef hann er konungur íslenskra glæpasagna, Yrsa er drottning og aðrir ekkert, þá er forgangsröðin komin á hreint; þegar vitundin er orðin svo gegnsýrð þeim sýndarveruleika að einhver tiltekinn höfundur sé meistari, að þú kaupir nýjustu bókina þótt síðasta hafi verið drasl, og – einsog í einu tilviki sem ég man eftir – réttlætir fyrir sjálfum þér og öðrum að hafa lesið draslið svo þú getir keypt það nýjasta, með því að það hafi nú ræst úr henni, hún hafi nú bara verið góð eftir alltsaman (þegar þú loksins náðir að klára leiðindin); þegar þetta er orðið að spurningu um höfund en ekki verk, afþreyingu andspænis list, endurtekningu á móti sköpun, þá fyrst er listin komin í voða. Þá á ég ekki við að skáld eigi að vera of fín til að viðurkenna Arnald en reisa Kiljan altari á meðan, að ljóðabækur séu eðli málsins samkvæmt listrænni og dýpri á einhvern hátt en til dæmis bækur eftir Birgittu Halldórsdóttur, af því glæpasögur séu annarsflokks bókmenntir, heldur einmitt hálfa leiðina í hina áttina: að ekkert af þessu skipti máli og það sé hreinlega ólíðandi að snilld höfunda sé rúnkað og það oft þótt þeir nái henni ekki upp.

Það er ekki alltaf höfundunum að kenna, að minnsta kosti ekki alfarið, heldur forlögum, markaðssetningu, neyslustýringu, sjálfri menningunni í kringum bókaútgáfu. En við berum öll einhverja ábyrgð þótt mismikil sé – með því að spyrna ekki við fæti – og það er þess vegna sem ég vil leggja til að rithöfundar hætti sjálfviljugir að hefja sig uppyfir lesendurna, titla sig skáld, konunga, drottningar, ástsæla, listfenga, heimila að verk sín séu auglýst sem snilld, að tök þeirra á sleipu viðfangsefninu beri merki gríðarlegs hugvits og valds yfir ólíkum stílbrigðum, lærðum vísunum og íslensku máli. Ég vil ekki í stríð við neitt nema ríkjandi hugarfar og því segi ég þetta: það nægir að tilkynna að bókin sé til, og bókinni nægir að vera til svo hún sé lesin og metin að verðleikum, hversu léleg eða góð sem hún kann að vera. Látum verkin tala gæti einhver sagt. Það er trú á konung sem skapar konung og ekkert annað, og þegar trúin þverr þarf eitthvað annað að taka við. Og það getur með endemum verið frelsisveitandi og skemmtilegt að afhausa konunga – ef ekki hreint út sagt nauðsynlegt.

– Birtist einnig á Kistunni þann 24. janúar 2011.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *