Vinsælar kvikmyndir eyðilagðar #1

Green Mile – lausnin fylgir ekki forsendunum
Í upphafi myndar sést aðalpersónan, Paul Edgecomb, brotna niður yfir söngvasenu með Fred Astaire þar sem hann syngur Dancing Cheek to Cheek. Hann útskýrir þetta fyrir vinkonu sinni á elliheimilinu með þeim orðum að tiltekinn fortíðardraugur hafi látið á sér kræla, nokkuð sem hann hafði ekki hugsað um í áraraðir, og segir henni söguna af John Coffey.

Vandamálið
Í lok myndarinnar leiðir Edgecomb vinkonu sína inn í skóginn utan við elliheimilið til að sýna henni músina Mr. Jingles, sem hann hefur hugsað um allar götur síðan Coffey var tekinn af lífi. Músin er tæplega sjötug og hann sjálfur er 108 ára – fyrir náðargáfu Coffeys. Það að Edgecomb hafi hugsað um músina í 64 ár ætti að duga honum til þess að vera ætíð minnugur fortíðar sinnar sem böðull Coffeys á dauðadeild; músin, að honum sjálfum ógleymdum, er einfaldlega sterkari minningavaki en Fred Astaire, nema hann hafi svona rækilega gleymt því að sökum langlífisins hefur hann ekki aðeins misst konuna sína heldur börnin líka. Þannig skera lok myndarinnar á allar forsendur þess að sagan var sögð í upphafi.

4 thoughts on “Vinsælar kvikmyndir eyðilagðar #1”

  1. Það að músin skipti hann meira máli en Fred Astaire þarf alls ekki að þýða að hún sé sterkari minningarvaki, minningar eru einfaldlega lúmskari en svo. Þær rifjast upp fyrir tilviljanir, oft þegar maður síst býst við því.

  2. Gaurinn er búinn að hugsa um músina í 64 ár, ég myndi telja að hvað sem er orðinn svona rækilegur hluti af hans lífi minni hann ekki á upprunann í hvert einasta skipti. Mynd sem hann hefur ekki séð lengi er hins vegar líklegri til að gera það.
    Svo er líka sá möguleiki að hann hafi einfaldlega viljað deila sögunni með annarri manneskju og gripið tækifærið þegar það gafst.

  3. Kannski. En konuna sína hlýtur hann að hugsa um á hverjum degi, og börnin sín. Þau lifði hann fyrir náðargáfu Coffeys. Mér finnst það ekki trúverðugt að hann bara gleymi þessu öllu, sér í lagi ekki eftir að hafa serverað í eigin huga – að því er gefið er í skyn – sem einskonar Pílatus gegn endurkomu Krists.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *