Vinsælar kvikmyndir eyðilagðar #3

Sixth Sense – uppljóstrunin stendur ekki í röklegu sambandi við söguþráðinn

Aðalatriðið í draugafræðum aðalpersónunnar, Cole Sear, er að þeir vita ekki sjálfir að þeir eru látnir. Það eitt og sér er nógu einkennileg hugmynd, einsog ég mun útskýra. Í lok myndarinnar uppgötvar geðlæknirinn hans, Dr. Malcolm Crowe, að hann lifði ekki af skotárás sem hann varð fyrir í upphafi myndarinnar, og blóð tekur að vætla út um skotsárið (virðist vera, þar sem skyrtan var annars alltaf hrein). Hann sættir sig við örlög sín og kveður ekkju sína.

Vandamálið
Ekkert upp að þeim hápunkti myndarinnar meikar sens eftir uppljóstrunina. Gefið er í skyn að Crowe birtist umboðslaus og óumbeðinn heim til Coles og gerist geðlæknirinn hans. Enginn bað hann um að koma, móðir drengsins svarar ekki fyrirspurnum hans, og þó situr hann í stofunni með móður hans þegar Cole kemur heim. Hann gat vissulega hringt bjöllunni og þannig komist inn, meðan móðirin svipaðist um fyrir utan, en hvaðan kom umboðið? Geðlæknir sem hegðaði sér svona yrði líklega tilkynntur til lögreglu.

Í annarri senu hleypur Crowe inn á veitingahús þar sem konan hans situr við tvídekkað borð og biðst afsökunar á seinkomu sinni með orðunum: I’m sorry, I thought you meant the other Italian restaurant I asked you to marry me. Hún hefur þó væntanlega ekki nefnt veitingastaðinn við hann, nema hún leggi í vana sinn að tala í annarri persónu út í loftið.

Crowe virðist heldur ekki taka eftir því að frá því hann vaknar á sjúkrahúsinu er ekki nokkur einasti maður sem talar við hann. Ekki læknarnir, hjúkkurnar, konan hans, samstarfsfólk, ættingjar, vinir, „sjúklingarnir“ hans. Hvernig fór hann að í matvörubúðum, í efnalauginni, hjá rakaranum? Hvernig fékk hann upplýsingar um væntanlega sjúklinga? Stalkeraði hann þá bara? Hvað um aðra sjúklinga sem ekki gátu séð hann?

Ekkert af þessu gengur upp. Uppljóstrunin, sem er aðalatriði myndarinnar, stendur ekki í neinu röklegu samhengi við restina af myndinni og rústar þar með allri undangenginni uppbyggingu.

10 thoughts on “Vinsælar kvikmyndir eyðilagðar #3”

  1. Það þarf ekki að vera röklegt samhengi, ég sá það þannig að hann fer ekki í búðina, hann fer ekki til rakarans og hann áttar sig heldur ekki á því að hann sé ekki að gera þessa hluti af því að hann er draugur. Og þegar hann fattar að hann er draugur þá rifjast skotárásin upp fyrir honum og þess vegna byrjar að blæða. Ég held að hann hafi líka ekki bankað eða dinglað hjá konunni, hann var bara allt í einu þar útaf því að honum fannst hann eiga að vera þar. Hann vaknar heldur ekki á sjúkrahúsinu, hann bara vaknar. Það er mín kenning að minnsta kosti.
    Ps. ég ætla að horfa á þessa mynd í vikunni.

  2. Áhugaverð hugmynd, sem þó krefst þess að ansi mikið sé lesið milli línanna. Mér finnst myndin ekki gefa neitt til kynna til að styðja hugmyndina. Crowe virðist t.d. aldrei birtast neinstaðar, hann hleypur of seinn inn á veitingastaðinn utan af götu, og hann fer sérstaklega til að heimsækja konuna sína í vinnuna.
    Í öðru atriði stendur hjólreiðamaður dauður upp af götunni og gengur frá slysstaðnum, svo draugarnir virðast ekki birtast eftir hentisemi heldur virðast þeir lifa einhverslags hversdagslífi.
    En þetta er ágæt túlkun hjá þér sem gæti fengið myndina til að ganga upp. Láttu mig vita hverju þú tekur eftir þegar þú horfir á hana.

  3. Myndin gengur algjörlega upp. Malcolm er náttúrulega haldinn þráhyggju og lifir í afneitun, slíkt þýðir einmitt oft hunsun á hinu rökræna. Rétt eins og fíkill sem telur sig ekki eiga við vandamál að stríða eða maður sem horfist ekki í augu við að konan hans haldi fram hjá honum þótt allir aðrir viti það.

  4. Í tilfelli konunnar, já. Hvað um alla aðra? Er hann svo þráhyggjufullur að hindra önnur börn í að verða einsog sá sem myrti hann að hann tekur ekki eftir því að hann vinnur ekki á skrifstofu lengur og mætir óboðinn heim til fólks til að taka börn í meðferð? Það gengur aðeins upp samhliða túlkun Tinnu.

  5. Kannski tekur hann bara eftir því sem hann vill taka eftir, gerir ráð fyrir að sér hafi verið boðið þangað sem hann er, veitingastaðurinn mögulega sá sami og þau sækja alltaf á þessum tiltekna degi.
    Annars getur heimur þar sem Bruce Willis er geðlæknir og draugur aldrei verið fullkomlega rökréttur 😛

  6. Svipað og túlkun Tinnu. Athugasemdir ykkar og Ásgeirs passa vel við þá hugmynd, sem einsog ég sagði getur fengið myndina til að ganga upp. Mér finnst það þó krefjast ansi mikils lesturs milli línanna.

  7. finnst þér eitthvað verra að þurfa að lesa á milli línanna? Viltu að kvikmyndir séu þannig að allt sé matað ofan í mann?
    Mér finnst einmitt fínt þegar sumt er skilið eftir ósagt og þannig gefið kostur á frekari pælingum

  8. Hér er möguleg lausn:

    The way I originally interpreted it was that Bruce Willis’s character was put on the case before he died, hence why he shows up at the kid’s house at the beginning. However, the mother doesn’t know that he’s hanging around all ghostly and still being a therapist; as far as she knows, he passed away and she’s on the waiting list for another guy/Cole is seeing another therapist on the side/she gave up on the idea of therapy.

    Móðirin svarar honum svo væntanlega engu, og hann eltir hana og sest á móti henni og þá kemur Cole inn. Ég man ekki hvort það kemur fram í myndinni að Cole hafi áður verið eða til standi að hann fari til geðlæknis. Ef ekkert slíkt kemur fram þá er þetta eftir sem áður sami „fyllið í eyðurnar“ leikurinn sem ég í aðalatriðum er ekki hlynntur.
    Ég er ekki á móti því að lesið sé á milli línanna, en þegar aðalatriði kvikmyndar eru svona óskýr, þá finnst mér oft langt seilst til að láta tilganginn henta forsendunum, t.d. svona yfirdrifnar kenningar (http://www.cracked.com/article/18367_6-insane-fan-theories-that-actually-make-great-movies-better/), sem sannarlega eru góðra gjalda verðar – en breytir því ekki að þær eru eftiráskýringar sem verða til þegar myndir ganga að öðrum kosti ekki upp.
    Mér finnst það ljóður á kvikmyndunum sjálfum, enda þótt kenningarnar geti verið góðar. Ekki þarmeð sagt þó að ég vilji að kvikmyndir séu augljósar, þvert á móti. Það er gott að spekúlera og rökræða, enda til þess er leikurinn gerður. Mikið er ég ánægður með þessi fantagóðu viðbrögð.

Skildu eftir svar við Arngrímur Vídalín Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *