Misskilningur Sölva Tryggvasonar

Á náttborðinu mínu um jólin var að finna tvær bækur eftir indverska heimspekinginn Jiddu Khrisnamurti, Fátækt Fólk eftir Tryggva Emilsson, en Lífsleikni Gillz var þar líka.

[…]

Ég skil ekki fólk sem þarf að hefja sig yfir það sem þeim ekki líkar. Ég geri mitt og þú gerir þitt. En mitt er ekki fínna eða merkilegra.

Ég held að Sölvi Tryggvason sé eitthvað að misskilja. Gillzenegger er ekki lágmenning, og ég held að fáum detti í hug að kalla hann lágmenningu. Menn sem upphefja staðalmyndir og ýta undir kvenhatur dagsdaglega eru ekki lágmenning fyrir menningarelítu að meta á vogarskálunum sötrandi freyðivín; maður sem stingur upp á að nauðga femínistum er ekki þrepi lakari á menningarkvarðanum en sá sem stingur upp á ástarleik með kærustunni, einsog einskonar Rómeó fátæka mannsins.

Það er einfaldlega engin menning til að umlykja fábjánaskapinn og mannfyrirlitninguna sem skín gegnum orðræðu Gillzeneggers, burtséð frá því hvort hann eigi að vera paródía eða ekki – paródían virkar einfaldlega ekki vegna þess að hann er alveg jafn ekta og allir aðrir sem hugsa og tjá sig eins, hinir raunverulega hættulegu slordónar mannfélagsins, náungar einsog Jón stóri:

er það að gefa manni smá clue að kærastan sé of ung ef hún tekur nammið út úr sér og geymir á maganum á manni meðan hún gefur manni blowjob??:D

Í stað þess að hugsa krítískt smástund velur Sölvi heldur að hjóla í ímyndaða elítu sem telur sig yfir hann hafna, einsog þetta sé einhver spurning um menningu, og blandar saman raunverulegu umkvörtunarefni sínu – viðtökum bókar hans um Jónínu Benediktsdóttur – við öllu alvarlegra umræðuefni. Mætti sú bók eitthvað lakari viðtökum en slíkar bækur almennt? Ekki varð ég var við það. Og hvað þó þessi blessaða bók hafi ef til vill fengið vonda gagnrýni og selst illa, var það ekki hans val að semja við N1 um að selja hana eingöngu á bensínstöðvum án möguleika á vöruskilum? Sölvi heldur kannski að „menningarelítan“ hampi okkur örmum ljóðskáldum betur, en ef hann heldur það þá er það rangt. Ég veit ekki betur en að bókin hans hafi fengið gríðarlega athygli, svo þessar umkvartanir hans um hámenningarelítu eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Svo ásakar hann alla aðra en sjálfan sig um að snobba fyrir leiðindum.

Nú má Sölvi alveg kvarta einsog hann vill fyrir mér og hafa sínar skoðanir, en það að bera Gillzenegger saman við American Idol og Erp Eyvindarson er einfaldlega alveg úti í móa. Þegar hann setur Gillzenegger upp á stall með afþreyingarefni í sjónvarpi og listamanni á borð við Erp gerir hann sig sekan um að réttlæta eitthvert það alvarlegasta sálarmein sem fyrirfinnst í þjóðfélaginu, og ber það saman við það sem hann sjálfur kallar „léttmeti“. Nei, Sölvi, það sem Gillzenegger stendur fyrir er alls ekkert léttmeti. Þá er nú skömminni skárra að hampa leiðindum en kvenhatri.

6 thoughts on “Misskilningur Sölva Tryggvasonar”

  1. Góð færsla! Gæti ekki verið meira sammála þér um Gillz og Jón stóra. Því miður er Gillz mikið átrúnaðargoð sona minna … en þeir munu vaxa upp úr þessu, strákarnir, ég trúi ekki öðru 🙂

  2. Það er augljóst að þú ert ekki með Stöð 2 og hefur því ekki séð Mannasiði Gillz sem eru eitt frumlegasta og best unna sjónvarpsefni á landinu í dag. Bókin sem þátturinn byggir á er einnig mjög frumleg og gefur til kynna að Gillz sé mikill mannþekkjari og greindur á tilfinningasviðinu. Það er líka hægt að kaupa ljóðabók sem inniheldur svipaða samfélagslega gagnrýni en hún kemur oftast frá einhverjum sem stendur utan samfélagsins, það hafa bara fáir áhuga á því. Ef Gillz er borinn saman við aðra rithöfunda þá er hans framlag hreinskilið, beitt og mun verða mikilvægur þáttur í menningarsögu Íslands. Ef ég myndi skilgreina menningarelítu þá er það fólk sem er fast í fortíðinni og gagnrýnir allt nýtt og skemmtilegt. Þetta fólk hefur mestan áhuga á sjálfum sér og tekur það illa upp ef aðrir en vinir þeirra ná athyglinni sem þeir þrá í laumi. Snobb er í raun bara lygi sem byggir á minnimáttarkennd þess snobbaða. Þegar fólk byrjar að nota orð og tilvitnanir sem fáir skilja þá er það að reyna að segja að það sé betra en meðalmaðurinn. Þeir sem raunverulega eru að leggja fram menningarframlag eru hluti af menningunni ekki yfir hana hafnir. Gillz er gott merki um mann sem skrifar á mannamáli og setur sjálfan sig í eldlínuna sem flestir þora ekki að gera.

  3. Ég er ekki viss hvort ég náði þessu öllu saman en mér fannst þú vera mótfallinn því að handrukkarar og kvenhatar fengju umfjöllun vegna þess að þá væri verið að setja þá á ákveðinn stall. Það er auðvitað bara þannig að allir eiga að tjá sig hvort sem þeir eru á öndverði meiði við siðferðiskennd þína eða ekki. Sú umfjöllun sem Jón Stóri hefur fengið hefur varpað ljósi á undirheimana sem er mjög mikilvægt að gera svo það sé hægt að finna lausnir á þessum vandamálum sem honum fylgja. Ég fagna þessu kommenti sem þú vitnar í frá honum þar sem það dæmir sig sjálft og hefur líklega afleiðingar í för með sér. Svo eru menn eins og Gillz kannski að varpa ljósi á kvenfyrirlitningu sem fyrirfinnst víðsvegar og það að hóta að nauðga femínistum felur í sér spurninguna hvers vegna hann tekur svo sterkt til orða. Eru kannski femínistar að nota svipað orðbragð gegn honum? Hvað er að þessum femínistum?

  4. Nú skil ég þig betur.
    Ég er alls ekki á móti því að handrukkarar og kvenhatarar fái umfjöllun, mér finnst það bara ágætt að þeir afhjúpi sig, hreint út sagt nauðsynlegt í mörgum tilfellum.
    Femínistar hafa mér vitandi aldrei haft uppi annað eins orðbragð um Gillzenegger. Hans orð dæma sig hinsvegar sjálf, hvort sem þau voru sögð í gríni eða ekki. Nauðganir eru alvarlegra þjóðfélagsmein en svo að maður skyldi hafa þær í flimtingum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *