Íslensk tunga og börn hennar

Sem íslenskufræðingi þykja mér athyglisverð tvö þingmál sem Árni Johnsen hefur verið í forsvari fyrir undanfarnar sex vikur. Hið fyrra er þingsályktunartillaga lögð fram af fulltrúum allra flokka skömmu fyrir miðjan desember, með Árna að frummælanda,sem snýst um að stofnað verði prófessorsembætti við Háskóla Íslands kennt við Jónas Hallgrímsson „með vörn og sókn fyrir íslenska tungu að meginmarkmiði.“ Í greinargerð með tillögunni sagði Árni að „íslensk tunga sé ankeri íslensku þjóðarinnar, lykillinn að sjálfstæðri menningu og þjóðerni.“ Þar segir ennfremur:

Enn andar suðrið sæla af tungutaki Jónasar og það er mikilvægt að virkja þessa auðlind inn í hjartslátt þjóðarinnar í starfi og leik. Einn af mörgum möguleikum er sá spennandi kostur að Háskóli Íslands skapi rúm um borð í móðurskipinu fyrir prófessorsembætti tengt nafni Jónasar Hallgrímssonar, prófessorsembætti sem hefði það markmið að fylgja íslenskunni áfram með reisn og styrkja íslenska ljóðrækt.

Það sem stendur upp úr hér er ekki að mínu viti kreddufullur þjóðernisrembingurinn, oflátungsfullt orðalag Árna eða fábjánalega banal tilvísun í Ég bið að heilsa, heldur það að Árni virðist ekki gera sér grein fyrir viðfangsefnum málfræði. Málfræði er sú vísindagrein sem gerir samanburð á málfræði skyldra tungumála, rannsakar sögulegar málbreytingar, málfræði og málnotkun nútímamáls, sem einmitt að stærstum hluta snýst um þær málbreytingar sem við sjáum á tungumálinu á líðandi stund. Prófessorsembætti sem stuðla ætti að vernd íslenskrar tungu væri þar með embætti sem gengi gegn öllum vísindalegum vinnubrögðum og væri þ.a.l. ekki akademískt. Ennfremur er óskiljanlegt hvernig sérstakur prófessor ætti að geta styrkt íslenska ljóðrækt. Orðið sjálft, ljóðrækt, hljómar einsog týpískt rómantískt og nasjónalískt þvarg um snilli skáldsins, bara einsog flest það sem hefur verið skrifað um Jónas Hallgrímsson raunar.
Prófessorar hafa hinsvegar akademískum skyldum að gegna, sem og kennsluskyldu, og það bryti gjörsamlega í bága við faglegan heiður íslenskuskorar að hleypa einhverjum Eiði Svanberg inn í kennslustofur til að bulla sinn fasisma um að eitt megi en annað ekki. Hverslags vísindaleg vinnubrögð stúdentar ættu að læra af fordæmingu nýja þolfallsins eða „þágufallssýki“ virðist ekki skipta Árna neinu máli, og öll framtíðarþróun tungumálsins er sett til hliðar. Ég gef honum þó að slíkt embætti væri vel nefnt eftir Jónasi Hallgrímssyni og öðrum forkólfum uppvakningar þeirrar gullaldaríslensku sem einmitt var ekki töluð á 19. öld – heldur skrifuð, en aldrei töluð, á 12. öld. Hans helsti samverkamaður í þeim geira var Konráð Gíslason, og hvet ég alla sem líta upp til þeirra kumpána til að prufa að lesa bréf Konráðs til Jónasar. Þau eru fullkomlega óskiljanleg þeim sem ekki þekkir 19. aldar íslensku, latínu og dönsku. Meiri málverndin á þeim bænum.
Þá að hinu atriðinu, sem er frumvarp Árna og Sigmundar Ernis Rúnarssonar þess efnis að Madina Salamova, sem til stendur að vísa frá Noregi, verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Hluti af rökstuðningnum er sá að Madina tali svo ægilega góða norsku þrátt fyrir að vera útlendingur – enda þótt fram komi í sama þingskjali að hún hafi búið í Noregi frá blautu barnsbeini – og að hún hafi „mótast fyrst og fremst af siðum norræns samfélags“, sem væntanlega þýðir að hún er ekki einhver grábölvaður múslimi heldur siðmenntuð manneskja með öll þau reiðinnar býsn af kristnum og norrænum gildum í farteskinu sem Árna eru svo hugleikin. Þá segir:

Íslendingar leggja höfuðáherslu á að verja jafnt sjálfstæði einstaklinga sem þjóða og það er mikið kappsmál fyrir Íslendinga að verja norræna samfélagið, menningu þess, tungu, drifkraft og kærleika. Mál Marie Amelie, eins og hún kallar sig, er sérstakt ef ekki einstakt og þarf að meðhöndlast sem slíkt. Hún talar einstaklega fagra norska tungu af útlendingi að vera. Íslendingar vilja leggja sérstaka áherslu á að verja norska tungu sem barn íslenskrar tungu. Íslenska tungan hefur haft þrek til að standa af sér alvarleg áhrif annarra tungumála á síðustu 1000 árum á sama tíma og önnur norræn tungumál hafa tekið stakkaskiptum.

Ég veit ekki hvað þetta segir um mig sem Íslending þar sem ég legg enga sérstaka höfuðáherslu á þessi miklu kappsmál, en fyrir utan óþolandi þjóðrembuna sem þarna kemur fram, kemur Árni, auk Sigmundar Ernis, aftur upp um vanþekkingu sína á málvísindum. í fyrsta lagi er íslenska ekki norrænt móðurtungumál, það tungumál er frumnorræna og hún er fyrst og fremst varðveitt í rúnaristum. Hér er smá stikkprufa af Gallehushorninu frá því um 400 e.Kr.:

ek hlewagastir holtijaR horna tawido

Svo lík er nú sú fortunga. Á 9. öld, eftir að frumnorræna hafði þróast út í það sem Íslendingar í hroka sínum gjarnan kalla forníslensku en aðrar norrænar þjóðir kalla fornnorrænu, fluttu margir Norðmenn, auk að einhverju leyti Svía og Dana, búferlum og settust að á Englandi, Írlandi, Hjaltlandseyjum, Færeyjum, Íslandi og víðar. Þannig greindust vestnorrænu málin að og blönduðust misjafnlega mikið tungum annarra þjóðabrota, og enda þótt íslenska hafi breyst minnst allra þessara mála síðan á þjóðflutningatímunum, að talið er, þá gerir það hana ekki fremur en færeysku að neinni formóður norrænna mála. Ritöld hefst á 12. öld og má segja að málin séu enn innbyrðis læsileg um það leyti (þótt ekki þori ég að fullyrða um framburð að svo stöddu), en þegar á 13. öld hafa austnorrænu málin tekið miklum stakkaskiptum:

Úr lögum Vestgota (fornsænska):
Varþær lekære barþær, þæt skal e ugilt varæ. Varþær lekari sargaþær, þen sum með gighu gangar æller meþ fiþlu far æller bambu, þa skal kvighu taka otamæ ok fytiæ up a bæsing. Þa skal alt har af roppo rakæ ok siþæn smyria. Þa skal hanum fa sko nysmurþæ. Þa skal lekærin takæ quighuna um roppo, maþær skal til huggæ mæþ hvassi gesl. Giter han haldit, þa skal han havæ þan goþa grip ok niutæ sum hundær græs. Gitær han eigh haldit, havi ok þole þæt sum han fek, skam ok skaþæ. Bidi aldrigh hældær ræt æn huskonæ hudstrukin.
Úr skánskum lögum (forndanska):
Far man kunu ok dør han, før en hun far barn, ok sighir hun ok hænne frænder at hun ær mæþ barne, þa skal hun sitta i egen bægia þerre uskiftø tiughu uku ok til se mæþ sinum ueriændæ, ær hun æi mæþ barne ok ær þær godre kuina uitnæ til, þa skiftis egn þerræ, hus ok bolfæ ok køpe iorþ, annur iorþ gangæ til rætræ arua.

Forníslenskan sjálf er svo aftur ekki nándar nærri það lík nútímaíslensku að ekki séu lagðir undir hana tveir viðamiklir áfangar á BA stigi við íslenskuskor og annað eins á MA stigi. Enda geta Íslendingar ekki lesið handritin, einsog gjarnan er sagt – ekki án þjálfunar.
Það liggur því fyrir að norska er ekkert barn íslensku heldur öfugt ef eitthvað er, né sé ég að Íslendingar sjái sér nokkra hagsmuni í að vernda hana, enda til hvers að vernda það sem sér um sig sjálft? Íslenska hefur ennfremur ekki haft „þrek til að standa af sér alvarleg áhrif annarra tungumála á síðustu 1000 árum á sama tíma og önnur norræn tungumál hafa tekið stakkaskiptum“, einsog Árni og Sigmundur halda fram, heldur þvert á móti. Örustu breytingarskeið íslensku í seinni tíð voru 19. og 20. öld og allar líkur eru á því að sú 21. verði þeirra skæðust – rannsóknarniðurstöður félaga míns úr íslenskunni, Antons Karls Ingasonar, leiða raunar í ljós að þolfallið muni að líkindum hverfa úr íslensku á næstu 30 árum.
Því tungumáli sem talað var á Íslandi á 19. öld var aftur breytt með beinum aðgerðum og málvernd sem leitaði í klassískan uppruna ritaðrar íslensku, 12. aldar sagnir, og augljóst er með fyrrnefndri þingsályktunartillögu Árna hvað það er sem honum gengur til með þessu. Hvað varðar erlend áhrif á íslensku þarf ekki að leita lengi fanga áður en við stöndum uppi með fangið fullt. Forsendur Árna fyrir vernd íslensku jafnt sem norsku eru því algjörlega út í hött. Tungumálið er það sem fólkið talar, ekki það sem Árni vill að það tali, og tungumál taka breytingum. Þau tungumál sem ekki taka breytingum eru dauð tungumál. Ekki tala Grikkir forngrísku, eða hvað?
Að íslensk tunga sé „ankeri íslensku þjóðarinnar, lykillinn að sjálfstæðri menningu og þjóðerni“ er kannski rétt að takmörkuðu leyti, en aðeins upp að því marki sem tungumálið er frjálst, en ekki bundið í klafa einhverrar forræðishyggju sem heimtar að segja fólki til um hvernig það á að tala. Árna til ennfrekari upplýsingar má benda á að stafsetning var ekki samræmd á Íslandi fyrr en árið 1918, og langt fram eftir 20. öld skrifaði hver maður einsog honum sýndist – og það sama á við um Jónas Hallgrímsson. Það gæti Árni sjálfur séð ef hann liti við á Handritadeild Landsbókasafnsins. „Reglur“ íslenskunnar eru líka alltaf að breytast, t.a.m. þegar z var aflögð í íslensku árið 1973, nokkuð sem félagar hans á Morgunblaðinu virðast ekki fremur hafa tekið eftir en Árni.
Að því sögðu er mér ekki stætt á öðru en að tækla þessa ömurlegu þjóðernishyggju sem skín í gegnum málflutning Árna Johnsen. Þeir Sigmundur Ernir bera það upp á Norðmenn að þeim sé hjartahlýja í blóð borin, sem er eins fráleitt og móðgandi og því var ætlað að vera hrós. Þrátt fyrir meðfædda hjartahlýju eru Norðmenn þó ómanneskjulegir og ónútímalegir að vilja víkja Madinu úr landi – undir þann part get ég þó tekið. Þessi mótsagnakenndi þjóðernisstimpill fær svo yfirhalningu í lok tillögunnar þegar gefið er í skyn að Íslendingar séu betri en Norðmenn, og þeim beri að taka við Madinu, vegna þess að allar aðrar þjóðir skorti skilning á orðinu vinarþel!
Það er nú meiri bannsettur hrokinn sem vellur þarna upp, og kannski ekki skrýtið að menn líti með svo miklum yfirburðum á sjálfa sig þegar öll þeirra sjálfsmynd byggist á rangtúlkunum, misskilningi og þeirri þjóðrembu sem Fjölnismenn börðust svo heitt fyrir að heilaþvo Íslendinga með. Það skýtur skökku við að kalla aðra ónútímalega þegar maður sjálfur er geirnegldur með heilann á miðöldum sveiflandi rassgatinu í núinu.
Þá legg ég heldur til að Árni Johnsen og Sigmundur Ernir setjist aftur á skólabekk með það fyrir augum að læra málfræðina upp á nýtt. Fyrst þeim er svo tíðrætt um „íslenska tungu“ geta þeir félagar byrjað á Íslenskri tungu, fyrsta bindi af þrem. Þar kemur sitthvað fram um forsögu íslensku sem þeim, og sér í lagi Árna, virðist einstaklega illa tamt að tileinka sér. Það sakaði kannski heldur ekki ef Árni kynnti sér Íslandssöguna sjálfa upp á nýtt, svo hann sæi nú endanlega að fortíðarljóminn er eftir allt saman kannski ekkert svo glæsilegur þegar nánar er að gætt, og að Ísland er sannarlega ekki best í heimi.
– Birtist fyrst á Smugunni þann 3. febrúar 2011.

3 thoughts on "Íslensk tunga og börn hennar"

  1. Brynjólfur Ólason skrifar:

    Andskotans kjaftur er þetta! En býsna gott samt. Væri samt ekki alveg í lagi að fallast á að málfræði hefur löngum verið tvíátta, annars vegar lýsandi málfræði en hins vegar forskriftarmálfræði — og að málfræðingar hafa ekki allir verið sammála um að hve miklu leyti við eigum að kenna forskriftarmálfræði?

  2. Frábært blogg! Takk. Þú bjargaðir deginum 🙂

  3. Takk bæði tvö! Jú, við getum fallist á það Binni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *