Endalok Kristjaníu í núverandi mynd

Virkisveggurinn
Á árunum 1682 til 1692, eftir umsátur Svía um Kaupmannahöfn þann 11. febrúar árið 1659, var ráðist í gerð virkisveggs við bæinn Kristjánshöfn, til að tengja við virkisveggi Kaupmannahafnar og tryggja varnir borgarinnar. Virkisveggurinn stóð allt umhverfis gömlu Kaupmannahöfn fram á 19. öld, þegar stórir hlutar hans voru rifnir, að undanskildum þeim hluta sem enn stendur í Kristjánshöfn. Í síðari heimsstyrjöld reisti stórskotalið danska hersins herbúðir innan virkisveggjanna. Eftir stríðið urðu hinsvegar lítil not fyrir búðirnar, og notkun þeirra fór minnkandi uns á endanum þær voru alveg yfirgefnar árið 1971.

Samtíðis skorti á húsnæði á viðráðanlegu verði voru mörg húsanna þá þegar orðin að athvarfi heimilislausra. Þann 4. september sama ár brutust nokkrir íbúar Kristjánshafnar inn í búðirnar til að nýta svæðið sem leiksvæði fyrir börnin sín. Þetta var upphafið að byltingu efnaminni íbúa Kaupmannahafnar gegn ríki og borg. Þann 26. september 1971 birtist loks yfirlýsing í Hovedbladet þess efnis að íbúarnir hefðu tekið yfir herbúðirnar og þær yrðu þar eftir sjálfbært fríríki, með samhygð og samábyrgð að leiðarljósi. Umræddur virkisveggur afmarkar nú suðausturhlið fríríkisins Kristjaníu frá eyjunni Amager. Norðvesturhliðin er mörkuð af með einföldu skilti. Á því stendur einfaldlega „Christiania“ á þeirri hlið sem snýr að götunni. Á hinni hliðinni stendur: „You are now entering the EU“.

Vandamál Kristjaníu
Síðan eru liðin tæp 40 ár. Við þekkjum flest framhaldið: tilraunir borgaryfirvalda til að rífa þökin ofan af íbúum fríríkisins, rassíur lögreglunnar í tilraun til að sporna við eiturlyfjasölu og –framleiðslu, tilraunir til að fjarlægja íbúana með valdi. Umræðunni hefur ekki linnt síðastliðin 40 ár, þótt margir Íslendingar sem ekki hafa komið til Kristjaníu þekki hana kannski helst úr dönskutímum eða úr kvikmynd Kims Larsen, Midt om natten. Raunveruleikinn hefur heldur ekki átt sér stóra málsvara í þessari umræðu allri. Einsog annarsstaðar beinist kastljósið því aðeins að fríríkinu þegar þar gerist nokkuð sem teljast mætti fréttnæmt.

Af nýliðnum atburðum sem vakið hafa áhuga fjölmiðla og sömuleiðis hafa kynt undir báli umræðunnar mætti helst nefna skotárás sem átti sér stað í Kristjaníu árið 2005 vegna deilna um yfirráð á eiturlyfjamarkaði Kaupmannahafnar. Einn lést og þrír særðust. Orsakirnar eru í senn einfaldar og flóknar. Það gleymist oft að Kristjanía er ekki fríríki hasshausa heldur framfylgir ríkisráð hennar eigin lögum sem allir íbúar fríríkisins þurfa að samþykkja – til að mynda er sala sterkra fíkniefna með öllu bönnuð þar. Árið 2004 gerði lögreglan hinsvegar rassíu gegn opinni sölu á kannabisefnum í Kristjaníu, og markaðurinn hefur enn ekki jafnað sig að fullu. Enn er þó „leyfilegt“ að neyta kannabisefna í einrúmi – algeng sjón í Kristjaníu er einmitt hópur hassreykingafólks utan við helstu vertshúsin meðan þeir sem inni eru mega reykja tóbak einsog þeim sýnist, svolítið einsog Reykjavík á hvolfi. En eftir að fór að halla undir fæti hjá fíkniefnasölum Kristjaníu færðu ýmis gengi sig upp á skaftið og svo fór á endanum að dróst til átaka, með þessum afleiðingum. Allir þeir sem urðu fyrir skoti voru saklausir vegfarendur; fíkniefnasalar Kristjaníu áttu þar engan hlut að máli.

Árið 2007 mætti svo lögreglan ásamt jarðýtum í þeim tilgangi að rífa niður gamla byggingu í Kristjaníu. Því var mætt með hörku og á endanum þurfti lögreglan að láta undan síga. Skömmu eftir heimsókn mína þangað árið 2009 var handsprengju varpað, að því er virðist að tilefnislausu, inn um gluggann á vertshúsi í Kristjaníu, og sá eini sem slasaðist lifði af, að talið er, sökum þess eins að hann náði að skýla sér á bakvið borðið sem hann sat við, með því að varpa því framfyrir sig. Þetta eru þær sögur sem við heyrum gjarnan af Kristjaníu, enda eru þetta þær sögur sem einar rata í fjölmiðla. Breiðholtið ratar heldur aldrei í fjölmiðla nema þar hafi átt sér stað skotárás eða sveðjuslagur. Almennt hafa þó flestir fegurri ímynd af Breiðholtinu en Kristjaníu, og það má velta fyrir sér hvers vegna það sé – ef ekki þá fyrir linnulausan áróður gegn fríríkinu síðastliðin 40 ár. Kaldhæðnin í málinu er vitaskuld sú að helstu vandamál Kristjaníu eru ekki sprottin upp þar, heldur innan Kaupmannahafnar, nánar tiltekið á Nørrebro. Og meðan glæpamenn þaðan halda áfram að þjarma að íbúum Kristjaníu er klént að klína vandamálunum á Kristjaníu. Kristjanía er ekki vandamálið – það er Kaupmannahöfn sem er vandamálið.

Dómurinn og kröfurnar
Föstudaginn 18. febrúar 2011 var felldur dómur í Hæstarétti Danmerkur þess efnis að Kaupmannahöfn eigi landsvæði og byggingar Kristjaníu. Virkisveggurinn, sem nú skýlir Kristjaníu og þar áður Kaupmannahöfn, er engin vörn gegn þeim síðarnefndu núna í umsátri þeirra um Kristjaníu. Þetta gerist núna vegna þess, fremur en þrátt fyrir, að margra mati, að Kristjanía er orðin ein stærsta tekjulind ferðamannaiðnaðarins í Kaupmannahöfn – tvöfalt stærri en Litla hafmeyjan. Fríríkið dregur fleira fólk til sín en Litla hafmeyjan, Nýhöfn og krúnudjásnin samanlagt, og augljóst er að nú á samdráttartímum hafa borgaryfirvöld þeim mun meiri hagsmuni af því að tryggja sér skatttekjur af starfseminni. Þar eru óbeinar tekjur af ferðamannastraumi sem munu glatast þó ekki teknar inn í reikningsdæmið, enda er erfitt að mæla hversu miklar þær eru.

Ríkisráð Kristjaníu hefur gefið út yfirlýsingu í kjölfar dómsins, þar sem áréttað er hlutverk fríríkisins innan Kaupmannahafnar, og þær kröfur eru gerðar að samfélagsgerðin verði virt. Kröfurnar eru eftirfarandi, í lauslegri þýðingu minni:

1. Það er mikilvægt að Kristjanía klofni ekki eða einangrist. Það er ekki hægt að fjarlægja horn hér, hvað þá heilt hverfi þar, og kalla það sem eftir er Kristjaníu. Hverjum eða hverju gætum við enda fórnað? Fyrsta krafan er þar af leiðandi að Kristjanía skuli varðveitt í sinni núverandi heild.

2. Vegna miðlægrar stöðu og náttúrufegurðar er hverfið eftirsótt til íbúðar. Komi fasteignir til tals hérna mun fjölbreytnin fara forgörðum. Í staðinn mun hér búa ríkt fólk ásamt öðru ríku fólki. Við höfum þegar næg ríkramannahverfi fyrir hina fáu. Húsnæði Kristjaníu þarf að vernda gegn fjármagnsvæðingu.

3. Það eru ekki bankabækur eða ævilangir biðlistar sem skulu ákvarða hver fær að flytja hingað. Í Kristjaníu geta allir sótt um laust húsnæði á jafnræðisgrundvelli. Þá eru það íbúarnir sem saman leggja mat á hvaða umsækjandi hæfir best húsnæðinu. Það er að sjálfsögðu á hreinu að Kristjanía skal viðhalda fjölbreyttri íbúasamsetningu, og þar af leiðandi verður ekki undan því vikist að Kristjanía skal halda eftir réttinum til stjórnar leigumarkaðarins.

4. Hið sama gildir um skipulag Kristjaníu, fyrirtækjastjórn, stofnanir og menningarlíf, íbúalýðræði og margt fleira, sem þróast hefur sjálfstætt í fríríkinu. Nýsköpun og hið óhefðbundna þrífst hérna vegna þess að hér eru margir aðrir möguleikar til tjáningar. Hverfi það, þá er Kristjanía þegar horfin. Það er því algjörlega nauðsynlegt að Kristjanía haldi sjálfstjórn.

5. Það leiðir af sjálfu að einkenni Kristjaníu er hennar sérstaka stjórnskipan, þar sem hver tillaga er ákveðin með fullu samþykki íbúa. Hið beina íbúalýðræði stendur í beinu samhengi með sjálfstjórninni, sem stuðlar að virku lýðræði og beinni þátttöku íbúa. Þegar allt er ákveðið einróma býr einstaklingurinn við vernd gegn meirihlutanum og allir neyðast til að hugsa í heildstæðum lausnum í stað beinna meirihluta.

6. Sjötta og síðasta atriðið er að Kristjanía skal standa vörð um jafnræðislýðræðið.

Framhaldið
Hvað gerist næst er engum einum ljóst fremur en þeim næsta. Borgin samþykkti að selja fríríkinu eina byggingu fyrir eina krónu, andvirði 21.43 íslenskra króna á núverandi gengi, og verið er að vinna að því nú að koma af stað söfnun meðal íbúa og velunnara svo unnt verði að kaupa upp allt fríríkið af borginni. Niðurstaða dómsins er þó skýr hvað það varðar að fasteignaeigandi, í þessu tilviki fríríkið Kristjanía, sjái hún sér fært að kaupa sjálfa sig, mun greiða fasteignagjöld af því húsnæði sem hún eignast og því landsvæði sem húsnæðið stendur á, svo leiguverð mun óhjákvæmilega hækka frá hinum hefðbundnu 1800 krónum á mánuði – og það gæti reynst mörgum Kristjönum erfitt að mæta aukinni greiðslubyrði.

Þetta er þó það eina sem dómurinn segir: að eignarréttur á landsvæði og fasteignum tilheyri Kaupmannahafnarstifti, svo fjárhagslegur ávinningur af hálfu borgarinar verður aldrei mikill, sama þótt hún kreisti úr fríríkinu hvern einasta aur sem hún getur. Spurningin er því sú hvort minni hagsmunir séu teknir fram yfir hina meiri, þar sem meiri fjármunir munu óhjákvæmilega glatast verði sjálfstjórn hrifsuð af Kristjönum. Vonir standa til að unnt verði að kaupa það húsnæði sem þegar stendur innan fríríkisins, en þar sem landið er nú opinberlega í eigu borgarinnar er henni í lófa lagið að nýta sér rétt sinn hvenær sem henni sýnist til að negla niður einsog örfáar byggingar og reisa þar hótel eða hvað sem löngunin stendur til. Þótt vonin lifi í hjörtum þeirra eittþúsund manneskja sem búa í Kristjaníu liggur þó nokkuð ljóst fyrir að landsvæðið sjálft er afar dýrmætt, og að hafi borgaryfirvöld ekki svifist einskis hingað til í því markmiði sínu að endurheimta það, þá muni þau gera það senn. Og höggið verður þungt. Ekki aðeins fyrir Kristjaníu, heldur Kaupmannahöfn einnig.

Kristjanía hefur fyrir löngu aflað sér tilveruréttar, og ekki er til ein einasta ferðahandbók sem ekki nefnir hana sem sérlega áhugavert kennileiti „í Kaupmannahöfn“. Þar eru veitingastaðir sem hafa mánaðarlangan biðlista eftir borði, og hafa haft síðastliðin 20 ár, til að mynda Spiseloppen – einn þekktasti, og að sögn besti, veitingastaður í Danmörku. Margir ferðamenn koma þangað gagnvert til að sjá fólk reykja hass úti á götu (eða kaupa sér sjálfir) og verða ekki fyrir vonbrigðum. Svo setjast þeir inn á Woodstock og drekka heimabruggaðan Kristjaníubjór og ræða við skringilegt heimafólkið. Þar er súpueldhús á aðfangadag þar sem allir eru velkomnir, sama hvort þeir eru ríkir eða fátækir, og það kostar ekki krónu. Kristjanía liggur auk þess steinsnar frá þinghúsinu, Kristjánsborg, svo hún er í alfaraleið frá Strikinu. Það tekur ekki nema 10 mínútur að ganga þangað frá Amagertorgi. Það er nákvæmlega þetta, þetta sérstæða fríríki, sem ferðamenn jafnt sem heimafólk sækir svo gjarnan í, nokkuð sem gerir Kaupmannahöfn einstaka: tilraun til anarkísks samfélags innan skandinavísks „velferðarríkis“, sem virkað hefur í 40 ár, ein stærsta tekjulind ferðamannaiðnaðar Kaupmannahafnar – vilji maður ræða peninga í þessu samhengi – nokkuð sem allir ættu að geta verið stoltir af.

Leiðarlok – nema við veljum annað
Það er merkileg tilhugsun að árið sem ég fæddist var lýðveldið Ísland jafngamalt og Kristjanía er nú. Þegar ég ferðaðist einu sinni sem svo oft áður til Kaupmannahafnar, í lok janúar 2009, og gekk út af neðanjarðarlestarstöðinni við Kristjánshöfn spurði ég vegfarendur hvort þeir gætu vísað mér á Prinsessugötu, þar sem ég átti að dveljast. Fyrstu þrír viðmælendur mínir eða svo þóttust ekkert vita hvar gatan væri, svo ég reyndi að finna hana sjálfur, og gekk handan við hornið frá stöðinni. Þar var Prinsessugata. Ég furðaði mig á þessu þar til mér var síðar sagt að Kristjanía lægi um 400 metra í norðaustur frá húsinu mínu, við sömu götu. Þar var þá komin skýringin. Það eru einfaldlega alltof margir sem vilja ekkert af þessu vita, skammast sín, jafnvel. Sama hversu skítlega Ísland hegðar sér á alþjóðavettvangi virðast þó fáir vera til sem skammast sín fyrir það. En nú er kominn tími til að allir láti sig málið varða. Núna þurfa allir að vita af Kristjaníu, og skammast sín ekki fyrir, og sömuleiðis þurfa allir að leggja hönd á plóg svo unnt verði að bjarga því sem bjargað verður.

Til er fræg, og sumpart klisjukennd, saga af manni sem hjálpaði engum þegar nasistar útrýmdu smámsaman heilu þjóðfélagshópunum úr samfélaginu. En hann sagði aldrei neitt, vegna þess að honum fannst það ekki snerta hann. Loks þegar þeir sneru sér að honum hrópaði hann hástöfum, en þá var enginn eftir til að hjálpa honum.

Nú er tíminn til að bjarga Kristjaníu, og það krefst þátttöku núna en ekki síðar, því það verður ekkert síðar. Virkisveggurinn stóð vissulega af sér marga hildina, en hann heldur sér ekki sjálfur þegar ráðist er á hann innan frá.

– Birtist fyrst á Smugunni þann 23. febrúar 2011.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *