Aðeins meira um umsóknina

Ég held ég hafi aldrei verið eins stressaður á ævinni einsog fyrir doktorsumsókninni, utan þegar umsóknin mín um meistaranám lá inni hjá Árósaháskóla og ég vaknaði upp við þann vonda draum að ég hafði ekki sinnt áfanga Gísla Sigurðssonar og Vilborgar Davíðsdóttur um munnlega hefð í Íslendingasögum. Ég var skráður í 5 áfanga á þeirri önn, sem var mín síðasta í BA-náminu, svo það var vandasamt að einbeita sér að öllu í einu.

Dag einn rankaði ég við mér við lestur á einhverju póstmódernísku rúnki og uppgötvaði að ég átti að skila viðamiklu rannsóknarverkefni þann daginn, sem var forsenda próftökuréttar og þar af leiðandi útskriftar minnar. Ég sendi Vilborgu póst og gekk svo um gólf í hálftíma í paníkkasti milli þess sem ég endurhlóð pósthólfinu mínu aftur og aftur. Eftir það féll ég stirður í rúmið og gat mig hvergi hrært uns ég lognaðist útaf. Daginn eftir beið mín svarbréf frá Vilborgu og mér var gefinn þriggja daga aukafrestur, sem bjargaði mér fyrir horn. Ég sinnti verkefninu illa en skilaði því þó af mér. Síðustu jól sat ég aftur í stressi með sama verkefni en sinnti því þó sómasamlega í það skiptið.

Síðustu mánuði hef ég nokkrum sinnum gengið um gólf einsog síðasta vor og hef þurft á öllu mínu að halda til að sinna vinnunni minni. Ólíkt því sem margir kynnu að halda trúi ég því nefnilega statt og stöðugt að ég sé hálfviti sem hefur ekkert í þetta að gera. Það er aðeins rétt inná milli sem ég fyllist eldmóði. Svo lengi hefur félagsleg skilyrðing gagnfræðaskólaáranna enst mér. Það er eiginlega fyndið að „hópamyndun unglinga“ er talin áhættuþáttur í starfi lögreglunnar en ekki í gagnfræðaskólum. Almennt er ég þó ekkert sérstaklega neurótískur, en ég fer hinsvegar ekki ofan af því að hárið á mér hefur misst lit síðustu fjóra mánuði. Það enda tekur á að vinna 12-16 tíma vinnudaga í þriðjung úr ári.

Og þannig er það þá að eftir fjögurra mánaða törn þekki ég mig varla í spegli. Ég hef fitnað og gránað og svo hef ég rakað mig í fyrsta sinn síðan 5. nóvember. Baugarnir eru þó ögn að minnka og svefnvenjurnar að komast í lag eftir að læknirinn minn knái, Ib Åsbjørn Fallesen, skrifaði upp á melatónín fyrir mig. Góður kollegi í Árnastofnun í Kaupmannahöfn sem var svo góður að mæla með mér í doktorinn er raunar í svipuðum pakka. Ætli þetta fylgi ekki starfinu. Enda þá þegar maður er byrjaður er ekki nokkur vegur að hætta. Í verkefnastaflanum núna liggur umsókn til Rannís, grein í Skírni og örfáar bækur. En næst á dagskrá er smá frí áður en ég fer yfirum.

5 thoughts on "Aðeins meira um umsóknina"

 1. Nú væri fróðlegt að fá fyrir og eftir mynd 😉
  En til hamingju með umsóknina og njóttu hvíldarinnar.

 2. Takk takk, það má verða við því. Hér er fyrir og hér er eftir.

 3. HarpaJ skrifar:

  Ojæja – þú ert vissulega svolítið straujaðri á fyrri myndinni, en það er svo sem ekkert hrun í gangi. Bíddu bara þangað til þú verður gamall og hrukkóttur 😉

 4. baun skrifar:

  Ég get nú ekki annað en sent baráttukveðjur yfir.

 5. Bergdís skrifar:

  Til lukku með að vera búinn að skila!
  Mér finnst gaman að lesa þetta allt hjá þér því ég held að ég kannist við nákvæmlega allt sem þú skrifar :o) Gott að þú sért farinn að geta sofið samt, þá kemur þetta fljótlega! Ég á því miður engar svona fyrir og eftir myndir af mér – en trúðu mér að ég hef stundum, og oft, hrist hausinn bara þegar ég lít í spegil. En þetta er allt þess virði :o) Svo tekur bara við hin óendanlega bið eftir bréfinu eina ;o)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *